Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Svolítið óþægilegt

Fyrir þremur dögum heimsóttu mig svona 40 manns á dag...ég átti bara mína fínu bloggvini og við skrifuðum og spjölluðum um eitt og annað....Allt í einu núna heimsækja mig næstum 400 manns á dag og ég þekki hvorki haus né sporð á þeim. Kvitta ekki fyrir sig og skilja ekki eftir nein merki. Þetta er eins og að vera heima hjá sér og allir fara í ísskápinn og fá sér og fara svo bara án þess að segja bless. Mér finnst þetta frekar óþægilegt og finnst ekki eins öruggt að blogga. Áður settist ég bara niður og skrifaði það sem mér datt í hug fyrir vini mína....en núna stend ég mig að því að hugsa mig um.  Svo mikil umferð. Kannski liði mér betur að vita hverjir eru á ferð þar sem ég er frekar svona prívat. En það er líklega ekkert privat við það að blogga....er það nokkuð? Svo hér sit ég og velti fyrir mér..Hvers vegna blogga ég og fyrir hverja??? Vil ég eitthvað endilega að allir viti hvað ég er að pæla? Hmmmm......

2054

Hvað endurspeglar bloggið?

Hver eruð þið sem komið upp sem tölur á teljurunum?


Furðuleg saga um ósýnilegan vin

untitled13 

Margir kannast við sögur af ósýnilegum vinum.  Sínum eigin í barnæsku og svo barnanna sinna. Sonur minn átti einn slíkan þegar hann var 3ja ára. Reynir hét hann og sonur minn eyddi öllum stundum í að leika við Reyni. Við þurftum að leggja á borð fyrir Reyni og hafa alltaf pláss fyrir hann við matarborðið og gefa honum jafnt af öllu sem sonurinn fékk. Þeirr eyddu löngum stundum saman inni í herbergi og oft heyrði ég að það var mikið fjör hjá mínum. Þegar systur hans tóku hann út að renna á sleða í snjónum þurftu þær að fara eina bunu með bróðurinn og svo aðra með Reyni. Reynir var hluti af fjölskyldunni. Einhverju sinni spurði ég strákinn hvaðan Reynir kæmi. Hann var fljótur til svars. Sagði að Reynir byggi í grasinu og hólunum fyrir utan leikskólann hans og væri í umsjá ömmu sinnar. 

 Einhverju sinni þegar ég var að elda kvöldmatinn og stóð yfir pottum við eldavélina fannst mér eins og einhver væri að horfa í hnakkann á mér. Þið vitið...þessi tilfinning um augnaráð sem brennur á manni. Ég leit snöggt við og sá þá dreng standa við eldhúsborðið og horfa glettnislega á mig. Þetta varði bara sekúndubrot..en ég er alveg handviss um að ég sá hann..hann var jafn raunverulegur og mín eign börn. Dökkhærður og brúneygur og með striðinislegan glampa í augum.Virtist vera um 5 ára gamall eftir stærð að dæma. Mér brá svolítið..en fannst að þetta hlyti að vera Reynir hinn margumtalaði. Kallaði á soninn og spurði..."Hann Reynir vinur þinn hvernig lítur hann út. Hvernig er hárið á honum á litinn?

"Það er brúnt" svaraði hann að bragði. "En augun í honum hvernig eru þau á litinn?

"Þau eru líka brún. Hvað heldurðu að hann sé gamall? Það stóð ekki á svarinu. Hann er 5 ára svaraði strákur.

Nokkrum kvöldum síðar fór eiginmaðurinn niður í þvottahús að taka úr þvottavélinni. Þegar hann kom upp var hann kríthvitur í framan. Eins og hann hefði séð draug. Hélt á húfu í höndunum og sagði.."Hvaðan kemur þessi húfa?

Þetta var frekar gamaldags húfa hvít að lit með í prjónuðu nafni á kappanum. Á honum stóð...Reynir Ingi. Við vorum auðvitað alveg gáttuð...ég setti húfuna á ofninn og morguninn eftir spurði ég soninn hvort hann kannaðist eitthvað við húfuna. "Já" sagði hann strax  "Þetta er húfan hans Reynis vinar míns".

Ég er svolítill rannsóknarmaður í mér...Ég var viss um að það hlyti að finnast skýring á þessari húfu sem kom úr þvottavélinni okkar. Fór og spurði sambýlisfólk okkar á efri hæðinni  hvort það kannaðist eitthvað við húfuna. Þau höfðu aldrei séð hana. Ég fór með hana á leikskólann og spurðist fyrir hvort þar væri drengur með þessu nafni sem gæti hafa týnt húfunni og hún óvart ratað heim með syninum.

Nei svo var ekki.

Stuttu seinna var sonur minn óhuggandi. Sagði að Reynir yrði að flytja með ömmu sinni á annan stað og þeir myndu ekki geta leikið meira saman. Það ætti að fara að byggja á hólunum þar sem þau byggju. Nokkrum dögum síðar komu stórar vinnuvélar fyrir utan leikskólann og fóru að grafa þar sem hólarnir voru. Byggingarframkvæmdir voru hafnar. Sonur minn var óhuggandi í margar vikur..hann saknaði svo Reynis besta vinar síns.

100_3275

Ég geymi alltaf þessa húfu. Hún vekur enn upp spurningar hjá mér.


Skordýrin farin að ruglast í ríminu????

Þrjár risaköngulær hafa kíkt í heimsókn undanfarna tvo daga. Þær eru rosalega sprettharðar og ég verð að hafa mig alla við þegar ég stend upp í sófa að verkstýra þeim gjörningi eiginmannsins að ná þeim undir glas á pappaspjald svo hægt sé að setja þær útfyrir.  Er löngu hætt að ryksuga þær eins og ég gerði fyrst...er svo skíthrædd um að þær skríði út úr ryksugunni um miðja nótt og refsi mér fyrir að sjúga þær í fangelsi. Sit núna með allt kveikt svo ég sjái nú örugglega ef þær eru fleiri á ferli og séu með einhver plön um að leggja sig í mínu rúmi.... Eitt finnst mér samt skrítið og það er hversu snemma þær eru á ferli þetta árið þessar stóru..hafa vanalega ekki komið fyrr en seint um haust eða í endan september eða í október mánuði. Ætli þetta hafi eitthvað að gera með hversu sumarið hefur verið leiðinlegt og sólarlaust hérna? Ég bara þarf alveg heilt ár á milli svona heimsókna til að byggja upp styrkinn og taugarnar...er bara ekki tilbúin fyrir þessa innrás alveg strax.Pouty

Svo sá ég alveg furðulega sýn í dag sem ég var að stúdera...en ég verð að blogga um það á morgun eða hinn þar sem ég er ekki búin að setja inn myndirnar sem ég tók. Þetta fjallar líka um skordýr sem voru að haga sér mjög furðulega. Hef bara aldrei séð neitt þessu líkt. Maurar og flugur í einhversskonar stríði hérna í grasinu. Það furðulega var að maurarnir sem eru svona tuttugu sinnum smærri en flugurnar unnu þennan bardaga. En ég segi ykkur nánar frá þessu þegar ég kem myndunum inn sem ég tók af þessu.

Úff ég ætla núna að hugsa um blómálfa og englasöng. Það er skárra fyrir svefninn heldur en skelfilegar skordýrasögur.

untitled46

 


Ein í svarthvítu

22

Eða tvö í lit

29


Skemmtilega skóævintýrið

Skórnir segja allt um hverja konu. Hvernig fótabúnað hún velur sér er merki um innri persónuleika og jafnvel innri persónulegar flækjur og fögnuði. Eða þannig. Hér kemur saga míns fótabúnaðar.

Mary Poppins skórnir mínir eru eðalskór. Blásilkiklæddir að innan og brúnar silkireimar hnýtast í fallegar slaufur. Ég fann þá í gamalli skóbúð í sérkennilegu hverfi í London Alltaf þegar ég klæðist þeim gerist eitthvað furðulegt og göldrótt. Taka mig á staði sem ekki má segja frá hér.

100_3239

Grænu grátandi regndropa stígvélin fara með mig í skógargöngur og gera alltaf sitt gagn. Sjaldan glaðari en  að vaða drullusvað og pollahopp elska þau hreint út af lífinu. Eiga það til að vera svolítið skapvond og öfundsjúk á köflum og það skýrir þennan græna lit sem á þeim er.

100_3238

Rauðu dömuskórnir eru nauðsyn konum sem ekki vita hvert ferðinni er heitið. Settir á fima fætur þegar ekki er vitað hverf ferðinni er heitið þann daginn og svo eltir maður bara rauða litinn. Bregst ekki að maður endar alltaf í einhverju stórskemmtilegu teboði eða jafnvel í skrautlegum skranbúðum.

100_3240

Skópörunum mínum kemur oftast vel saman en það kemur fyrir að það slettist upp á vinskapinn.

Í dag þegar við ætluðum að eiga notalega stund öll saman í garðinum voru þau mjög prúð og settleg svona til að byrja með.

100_3237

Þau voru mjög hrifin af steinskúlptúrunum og fóru að tala um hversu gaman væri að fara á söfn í heimsborgum, sýna sig og sjá aðra. Grænu grátstígvélin voru ekki hress með þessar umræður.

"Hvernig stendur á því að ég fæ aldrei að fara á svona fín söfn, bara í blautar göngur í drullusvaði í gegnum skóginn og einstaka sinnum fæ ég að fara og taka upp kartöflur. Þetta er bara ekki sanngjarnt"

"Æ góðu farið nú ekki að grenja sagði rauða skóparið.."Hver heldurðu að fari á stígvélum eitthvað fínt. Það erum bara við, ég og Mary Poppins sem fáum að fara allt svona spari" sögðu þeir með kvenlegum rómi..  Áður en rauða skóparið vissi af hafði annað stígvélið stígið fast ofan á þá og hótaði að  sparka þeim yfir grasflötina.

100_3241

Mary Poppins dró grænu grátstígvélin ofan af rauðu skónum og reyndi að stilla til friðar. Stillti sér settlega upp fyrir framan stígvélin og sagði að svona kæmi maður ekki fram við fallega rauða skó. Þau yrðu öll að vera vinir enda í sömu skófjölskyldu og tilheyrðu sama eiganda. Hvert og eitt skópar hefði sinn tilgang og ekki þýddi að vera að metast.

100_3242

 Það væri miklu skemmtilegra að fara í leiki. Svo fóru þau í myndastyttuleikinn og skemmtu sér ljómandi vel og hlógu mikið af uppátækjum hvers annars.

100_3243

Persónur og leikendur

100_3244

Rauðu skórnir, Mary Poppins skórnir, Katrín Snæhólm og Grænu stígvélin.

 


Hver er maðurinn?

100_3227

Nú fáið þið að sjá skúlptúrhausinn sem ég var að dusta af rykið og laga til með skóáburði. Þurfti að hreinsa burtu ryk og kónuglóarvefi eftir dvölina í garðskýlinu svo vinnan gæti hafist.

100_3231

100_3235

Veit ekki hvort þetta var góð hugmynd með skóáburðinn en ég sé til hvað ég geri. En hvern minnir hann ykkur á? Þegar ég gerði þennan skúlptúr gerði ég hann með lokuð augun og bara eftir tilfinningu. Það skringilega var að þegar ég opnaði augun fannst mér hann minna mig mjög sterklega á einhvern en kom honum samt ekki fyrir mig. Spurði bekkjarfélaga mína sem höfðu ekki grænan grun um hver maðurinn væri enda öll útlensk og ekki kunnug öllum íslendingum. En þegar maðurinn minn kom að sækja mig sagði hann.."Nei vá flottur.......og nefndi nafnið hans. Þá sá ég hver þetta var. Ég var samt alls ekki með hann í huga þegar ég var að gera skúlptúrinn ..vann bara eftir tilfinningu og með augun lokuð meðan ég var að móta andlitið. Þetta er sossum engin listasmíð enda bara annar hausinn sem ég gerði og var að læra hvernig maður gerir svona haus úr leir.

 Daginn eftir kom íslensk vinkona mín í stúdíóið og sagði..Rosalega er þetta fín eftirmynd af honum....og sagði sama nafnið. Nú langar mig að biðja ykkur að geta hver maðurinn er..eða gæti verið. Hverjum hann líkist að ykkar mati. Finnst reyndar að skóáburðurinn hafi tekið margt úr svipnum sem var þar áður..en sjáum hvað setur. Þegar þið eruð búin að geta og koma með tillögur segi ég restina af sögunni. En ef engum finnst hann líkjast þeim sem ég er að tala um...er málið dottið dautt og þið fáið aldrei að vita framhaldið.  Svo nú skuluð þið sko vanda ykkur..hehe.

Smá vísbending..maðurinn er íslendingur en er látinn. Var þekktur.

ATH restin af sögunni er í athugasemdum hér fyrir neðan!


Hvar liggur vandinn?

Mín spurning og hugsun er núna hversu hæf eru yfirvöld til að stjórna og taka ákvarðanir fyrir okkur öll??? Það er eins og þegar maður horfir yfir heiminn og það sem er í gangi að það sé ekki heil brú í þvi sem verið er að gera.  Vá hvað maður getur orðið snúinn að bara fygjast með og skoða vitleysuna. Það er eins og það  sé vitund hins gamla sem stjórni....og leiði allt í enn meiri vitleysu en  nú þegar er.. Sjái ekki út úr augum EGÓSINS. Hver heimskulega ákvörðunin tekin eftir aðra.

Þá fallast manni hendur. Fórnar höndum til himins og krefst svara.

 Eins og það er mikið til af fólki sem veit betur, skynjar dýpra...hvernig stendur á þvi að það heldur sig alltaf til hlés??? Og leyfir fávitunum..afsakið orðanotkun...Pouty

Það hljóta að vera fávitar sem stjórna og taka ákvarðanir hér. Sem hafa alls ekki yfirsýn yfir The big picture!

 Úff hvað það er stundum erfitt að sjá þessa veröld!

En þetta hlýtur að koma með tímanum og við verðum að vera vakandi og bregðast við.

ca_41_6

Hætta að standa alltaf sjálfiviljug undir regnskýjunum. Já við þurfum vökvun vitundar en ekki heilaþvott. Það er munur þar á.

Hvaðan hafa yfirvöldin visku sína?

Er hún tl staðar?

Hvernig sjá þau mannveruna?

Kannski erum við á rangri leið alveg frá grunni.

Hugsi nú hver sitt.

5722

Hvernig getum við leyst utanaðkomandi vandamál ef við erum ekki að leysa okkur sjálf úr viðjum?

Meðan neikvæðnin er innbyggð í okkur sjálf, hvernig getur eitthvað annað myndbirst í umhverfinu?

Ég byrja í mér

og þú byrjar í þér.

Jésús minn hvað þessi heimska getur gert mann þreyttan og leiðan.


Tökum höndum saman....stöndum vörð um hvert annað þegar yfirvöld gera það ekki.

Mér finnst bara fyrir neðan allar hellur að það sé ekki brugðist við þessu. Og Heiða á allar þakkir skildar fyrir að berjast fyrir þessu...látum ekki gleymskuna ráða því hvort bætt verði um betur.

ATHUGA! Óska eftir smá samstöðu hérna frá ykkur!

Eins og nokkur ykkar hafa kannski tekið eftir, hef ég verið að kynna mér svefnlyfið Flunitrazepam  undanfarið. Flunitrazepam er sama lyf og Rohypnol, engu breytt nema nafninu, og hefur verið þekkt sem nauðgunarlyf í mörg ár. Ég hef leitað eftir svörum og almennum upplýsingum um lyfið undanfarið og niðurstöðurnar eru sláandi.

Þetta tiltekna svefnlyf hefur enga sérstöðu sem er til bóta fyrir þá sjúklinga sem þurfa á svefnlyfi að halda. Á markaðnum eru tugir svefnlyfja sem gagnast sjúklingum alveg jafn vel  og sem ekki hafa þá "kosti" sem nauðgarar sækjast í, þ.e. minnisleysi og almennt rænuleysi til að veita nauðgara mótspyrnu.

Augljósasti kostur lyfsins er að sjálfsögðu sá að nauðgarar geta verið nokkuð vissir um að  fórnarlambinu er nánast ómögulegt að kæra eða framfylgja kæru vegna þessa minnisleysis. Lyfið er stundum notað við dáleyðslu vegna þess að það er nánast hægt að fá fólk til að gera hvað sem er undir áhrifum þess.

Hérna koma linkar á fyrri skrif mín um lyfið og svör Landlæknis. En óvísindaleg könnun mín á því hversu algengt það er að lyfinu sé laumað í drykki kvenna á skemmtistöðum borgarinnar kom mér á óvart.. þrátt fyrir að ég hafi verið nokkuð viss um að þetta sé miklu algengara en fólki grunar svona almennt.
Rohypnol 1

Rohypnol 2

Svör Landlæknisembættisins

Sem konu og móðir tveggja dætra er mér mikið í mun að þessum óþverra sé hent út af lyfjaskrá hér á landi. Á árinu 2006 var rúmlega 11.000 skömmtum ávísað af lyfinu. Samkvæmt upplýsingafulltrúa Lyfjastofnunnar er best að koma svona málum á framfæri til Lyfjastofnunar, sem síðan leggur þau fyrir Lyfjanefnd.

Læt fylgja póstinn sem ég sendi í dag á netfangið lyfjastofnun@lyfjastofnun.is

Ég vona að sem flestir láti heyra frá sér, karlmenn og konur. Því fleiri sem senda þeim beiðni/kröfu um að lyfið sé tekið af skrá því betra!

 

Lyfjastofnun Ríkisins

Svefnlyfið Flunitrazepam hefur enga jákvæða virkni fyrir þá sjúklinga sem neyta þess fram yfir þá tugi annara svefnlyfja sem eru á lyfjaskrá.

Virka efnið í lyfinu hefur þó þau neikvæðu áhrif að af því skapast algjört minnisleysi og getuleysi til að greina umhverfi sitt. Þessi atriði hafa valdið því að lyfið hefur þann vafasama heiður að vera þekkt sem "nauðgunarlyf" (Date-Rape). Lengi hefur tíðkast, hér á landi sem annars staðar, að lauma því í drykki kvenfólks til að ná fram áðurnefndu minnis- og getuleysi og ef allt fer samkvæmt áætlun fylgir nauðgun í kjölfarið. Það er nánast ógerlegt fyrir fórnarlamb þessa að kæra til lögreglu sökum minnisleysis.

Árið 2006 var Flunitazepam ávísað í ríflega 11.000 skömmtum. Þar sem lyfið hefur enga sérstöðu til bóta fyrir þá sjúklinga sem nota það fer ég þess á leit að Flunitrazepam verði tekið af lyfjaskrá hér á landi hið snarasta.

Öryggi stúlkna/kvenna hlýtur að vega þyngra en svo að nauðsyn teljist til að hafa þetta hættulega lyf í umferð

Virðingafyllst

Þetta er bara algerlega ólíðandi!!!!!!!

 


Athugun 18

Hvaða hugmyndir, tilfinningu, hughrif, upplifun hefur þú af þessari mynd?

 Um hvað er hún?

burst

Vinsamlegast skráið athugun ykkar í athugasemdir.


Hvað er það í lífi þínu sem er of lítið/eða sjálfsagt til að þú takir eftir hvað það er æðislegt?

36Þakklæti fyrir allt það góða í líf þínu  færist í athugasemdir og verður þannig ódauðlegt um leið og það verður þér og öðrum sýnilegt.!!! Ath..ekki færri en 5 atriði verða vera skráð svo þú getir ekki annað en glaðs yfir gæfu þinni og gjörvileikaHeart

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband