Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Foringjadýrkun er úrelt fyrirbrigði í nútíma samfélagi og við höfnum henni algerlega.

Borgarahreyfingin hafnar leiðtogadýrkun

Nýlega efld stjórn Borgarahreyfingarinnar hefur tekið til starfa og í kjölfarið sent frá sér eftirfarandi tilkynningu.

Borgarahreyfingin hafnar leiðtogastjórnmálum eins og þau hafa birtst hér á landi hvort sem um er að ræða undanfarna mánuði eða áratugi. Þess vegna hefur Borgarahreyfingin ákveðið að skipta ekki með sér verkum skv. hefðbundnum aðferðum í hlutverk formanns, varaformanns og ritara og nota ekki þá titla í starfi sínu.

Um yfirstandandi helgi eru haldnir landsfundir tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins. Almenningur þarf að sæta því að horfa upp á nánast stanslausa umfjöllun á starfsemi þessara flokka í öllum fjölmiðlum þar sem fyrirferð flokksleiðtoga og leiðtogakjörs varpar stórum skugga á þá málefnalega umræðu sem annars ætti að vera í landinu.

Landsfundir sem þessir og sú skefjalausa leiðtogadýrkun sem þeir upphefja er lýðræðinu ekki til framdráttar. Borgarahreyfingin – þjóðin á þing bendir á að það er einmitt leiðtogadýrkun af þessu tagi sem leiddi til þeirrar ömurlegu niðurstöðu að Alþingi varð óstarfhæft. Ríkisstjórn landsins hrökklaðist svo frá þegar vanhæfni þeirra “leiðtoga” sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu á að skipa kom berlega í ljós.

Stjórn Borgarahreyfingarinnar mun koma fram sem heild og meta það í hverju tilviki hver kemur fram sem talsmaður hennar, eftir því hvert tilefnið er. Þess vegna mun Borgarahreyfingin sýna mörg andlit í aðdraganda kosninganna. Í því skyni hefur Borgarhreyfingin skipað sér talsmenn sem munu skipta með sér hinu s.k. “leiðtoga” hlutverki sem gamaldags stjórnmál og fjölmiðlaumfjöllun kallar svo sterkt eftir.

www.xo.is

 


Borgarhreyfingin komin í 3.4% og er ekkert að hægja á sér og ég ekki heldur!

Það er búið að vera svo mikið að gera að ég hef ekki einu sinni getað bloggað eða hvílt mig almennilega og þess vegna er best að fara að halla sér og nota tímann meðan ég ligg á koddanum og skipuleggja vel næstu fjórar vikur með sjálfri mér og muna eftir að setja bloggið á listann svo það gerist ekki aftur að ég gleymi því.  Þetta eru bara svo spennandi tímar og breytingarnar liggja í loftinu. Ég finn lyktina af lýðræðinu og kjarki þjóðar sem er tilbúin að stíga skrefið og taka völdin í sínar eigin hendur.

Ég er með eina ferlega fína bloggfærslu í höfðinu en ég verð að spara hana þar sem hún gæti orðið eitthvað annað og meira en bloggfærsla. Kemur í ljós á mánudaginn.

Þangað til ætla ég að funda, safna meðmælendum fyrir Borgarahreyfinguna og fara í tvær fermingarveislur.

Já og svo ætla ég í framboð.

Hvernig líst ykkur á það að húsmóðir sem vaknaði upp með byltingu í blóðinu  og knýjandi þörf fyrir breytingar í hjartanu sl haust, kona sem barði saman pottum og pönnum og klæddist appelsínugulu þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar um að hún væri sko ekki pólitísk bjóði sig nú fram til Alþingis? Sjáið þið ekki hvað ég myndi smellpassa þarna inn? 

Ég og hinir pólitíkusarnir alveg sveitt við að breyta kosningalögunum, setja stjórnlagaþing fólksins og auka lýðræðið um mörg hundruð prósent. Byggja grunninn að góðu framtíðinni sem ég trúi að bíði okkar ef við bregðumst ekki skyldum okkar og leggjum okkar af mörkum á hvern þann hátt sem við getum. Öll saman hvert og eitt einasta okkar með hæfileika, reynslu, getu og þekkingu til að leggja í púkkið.

Við förum fram með slagorðinu Þjóðin á þing og ég segi það og skrifa "Ég er þjóðin" eða a.m.k einn þrjúhundruðþúsundasti af henni og það ert þú sko líka:)

Og af því ég talaði um það hér fyrr í færslunni að ég væri ekki og hefði ekki verið pólitísk þá vil ég bæta því við að það stendur enda er ég algerlega þverpólitísk rétt eins og BorgarahreyfinginWink

xo.is

                                                                        

200512562-003


Orð dagsins eru skýrleiki og þoka....samt aðallega ÞOKA.

Eftir Borgarafundinn í gærkveldi er eitt alveg kýrskýrt í mínum haus. Valið sem við stöndum frammi fyrir er að hafa skýrleika eða þokukenndan svima...

Bjarni Ben hélt ræðu og hausinn á mér fylltist af þykkri dimmri þoku og alveg sama hvað ég reyndi náði ég engum þræði né innihaldi úr ræðu hans. Flestir aðrir í salnum upplifðu það sama..sumir gengu út, aðrir geyspuðu og nokkrir bara flissuðu og litu í kringum sig í forundran. Ef þetta er framtíðarleiðtogi Sjálfstæðisflokksins þá segi ég.....Pass!

Allir bara uppi á heiðum að týnast í þoku saman?

Þess ferskara og heiðskýrara  var að hlusta á Björn Þorra hæstaréttarlögmann flytja sína tölu þar sem hann talaði skýrt og á mannamáli um stöðuna og  uppskar þakklæti og mikið klapp. Fólk verður svo þakklátt þegar einhver getur tjáð sig af svona miklum skýrleika eins og hann gerði. Hins vegar var innihald ræðu hans sjokkerandi og ég hvet ykkur eindregið að lesa eða hlusta á hana á www.borgarafundur.org um leið og hún er komin þar inn sem vonandi verður sem allra fyrst!!!

Atli Gísla er líka svona skýr og skorinorður og á þakkir skildar fyrir að vera óþreytandi að reyna að leiða okkur um þessa spillingarfrumskóga sem þetta land er orðið. Hefði viljað fá hann sem dómsmálaráðherra.

Gylfi viðskiptaráðherra var svo kapituli út af fyrir sig.

Gerist eitthvað dularfullt með fólk sem virkar greint og gott þegar það fær valdamikið embætti eða ráðherrastöður? Maðurinn hélt því blákalt fram að þó að hér hefði orðið efnhagshrun þá þyrftum við ekki að hafa áhyggjur af því að félagslegt hrun myndi fylgja í kjölfarið??? Hvert mannsbarn getur séð að í kjölfar atvinnumissis og jafnvel missis heimilis fyrir utan þær mannlegu hörmungar sem fylgja innan fjölskyldna sem búa við slíkt ofurálag flokkast alveg örugglega sem félagslegt hrun?

Þegar heilbrigðis og menntakerfi dragast saman og öll þjónusta hins opinbera er í lágmarki og oft á tíðum mjög dýr. Ef ráðherra getur ekki séð samhengi í orsökum og beinum afleiðingum þá er verulega illa fyrir okkur komið. Ég beið bara eftir að hann segði þegar Björn Þorri áréttaði við hann að ástandið væri svo sannarlega skelfilegt félagslega fyrir þúsundir fjölskyldna eftir efnahagshrunið og ætti enn eftir að versna mikið..."Af hverju borðar fólkið ekki bara kökur?

Og þegar Gylfi kvartaði undan því að hann fengi sífellt sömu spurningarnar aftur og aftur þá var það einfaldlega vegna þess að svör hans voru hreinlega svo óskýr og loðin að fólk var engu nær!

Og bankarnir keyra gjaldþrotin hratt og vel í gegn og það er enginn afsláttur gefinn. Þegar ráðherrar eru spurðir um hvort ekki eigi að slaka aðeins á aðfararhörkunni segja þeir alltaf...Við höfum beint eindrægnum tilmælum til bankanna að gera það og taka vel á móti þeim sem eiga í verulegum erfiðleikum.  Málið er að það er bara ekki að gerast.

Gjaldþrotahrinan magnast bara með hverjum deginum og fólk fær engin grið sama hvað menn gala fagurlega opinberlega um að eindregnum tilmælum hafi nú verið beint..bla bla bla.

Ef ég væri ráðherra og hefði ítrekað beint tilmælum um breyttar verklagsreglur en enginn væri að hlusta á mig í  heila 5 mánuði væri ég löngu mætt til að berja í borð, sparka í stóla, arga mig hása og reka þá sem ekki hlýddu og ráða hæfara fólk í staðinn sem fylgdi tilmælum ríkistjórnar. Maður spyr sig..hvers lags djöfulsins málttleysi er þetta eiginlega???  Ef tilmælin virka ekki, ef bankamenn fara ekki eftir þeim itrekað ..þá bara skipar maðurinn með valdið embættismönnum kerfis að fara eftir settum reglum, vinna vinnuna sína eins og þeim er sagt eða hypja sig ella..ekki satt?

Og enn eru fjármagnsfyrirtækin að ræna bílaeigendur um hábjartan dag með hreint fáránlegum vinnubrögðum og okursmurningum á reikningum upp á hundruðir þúsunda svo tryggt sé að fólk sem er að missa bíla sína sitji uppi með himinháa reikninga  sem og eftirstöðvar og ekkert er að gert. Þar er eflaust líka búið að beina tilmælum til þessara manna að fara að hætta að  haga sér eins og ótamdir glæpahundar..ha?

Meiri þokan út um allt alls staðar...ég vona svo sannarlega að það fari að létta til og skýrleikinn verði allsráðandi.  Þetta samfélag er bara ekki hægt!

Já og eitt enn áður en ég anda rólegar....

Ef þetta þing vogar sér í langt sumarfrí á svona ögurstundum eins og þessi þjóð stendur nú frammi fyrir þá mun ég krefjast þess að þessar ládeyður verði bornar út og fái aldrei aftur að koma nálægt þinginu okkar. "Núna verða allir að leggjast á eitt og bretta upp ermar" segir þetta lið spariklætt í ræðupúlti og reynir að ná atkvæðum okkar með fagurgala og gjammi...Mitt ráð er.... Brettið sjálf upp ermarnar og standið vaktina þar til neyð þúsunda hefur verið afstýrt eða aðgerðir verið hafnar til bjargar fólkinu okkar og vogið ykkur ekki að fara heim fyrr en það er í höfn.

Við hin erum nefninlega búin að standa með uppbrettar ermarnar síðan hrunið varð og bíða eftir því að fá að vita hvað við getum gert. Við fáum bara engar upplýsingar um eitt eða neitt. Má ég svo  beina þeim tilmælum til ráðamanna að þeir fari nú að segja okkur satt um stöðuna svo við getum byrjað að takast á við vandann takk!!

10ME0104_cat~Red-Pines-Empire-MI-Posters10165013


Svo bíður lífið á bak við hornið með allt annað plan...

..ég sem sat í gær og gerði þetta líka fína og flotta framtíðarplan. Þegar veröldinni er snúið á hvolf og allt sem var er ekki lengur er það ágætis ráð að finna sér þokkalegt sæti og setjast niður og setja sér markmið og stefnu. Allavega svona eins og hægt er meðan beðið er eftir upplýsingunum um hvernig staða okkar er í raun í þessum darraðardansi sem nú er stiginn við tryllta heimstónlistina.

Ég skrifaði um drauma og þrár, hæfileika og veikleika...veikleikarnir voru færri en hæfileikarnir og kona hugsaði með sér að þá væri nú vel lifað að snúa möguleikum sér í hag á ekki lengri tíma en 45 árum. Sem eru bara eitt augnablik í eilífðinni ef maður vill vita hversu hratt og vel kona hefur þroskast..svona í  eilífðartímanum sko!!

X06-apro

Og eins og alltaf þegar ég skapa mér leið og set niður hið besta plan og er ákveðnari en nokkru sinni að nú skuli sko...þetta eða hitt..... þá bíður lífið hinu megin við hornið og glottir. Það hefur nefninlega þá undarlegu áráttu að gera annað plan fyrir mig sem gengur algerlega á skjön við mín frábæru plön....eins og það treysti ekki alltaf að ég viti betur fyrir mig.

Að það trúi því einlæglega að það eigi að hafa fyrir mér vitið og leiða mig á brautir sem ég þrátt fyrir mitt mikla hugmyndaflug myndi aldrei hafa hugmyndaflug til að sjá eða rata.

Svoleiðis var það í gær.

Ég var glöð og ánægð með dagsverkið og svo kom bara ein spurning sem breytti öllu. Ýtti öllu öðru til hliðar og spurði mig.".Hvernig líst þér á  nýja reynslu og spennandi verkefni sem krefst mikils og skiptir kannski ÖLLU"?

Allt í einu urðu veikleikar mínir stærri og fleiri en hæfileikarnir sem ég hafði skrifað niður..... en af því að ég er orðin svo lífsreynd og gamalgróin í lífshettunni vissi ég að þarna var ég að leika á sjálfa mig og reyna að hræða mig frá því að vera það sniðugasta sem í mér býr svo ég skipti bara strax um skoðun og ákvað að ....sofa á þessu.

Sem ég og gerði..... en bara hálfa nóttina.  Hugsaði mikið og margt og komst svo að þeirri niðurstöðu að þetta væri hvorki stór né lítil ákvörðun sem ég vildi taka. Heldur bara ákvörðun. Hvorki vond né góð. Og eins og flestar aðrar ákvarðanir bæri í sér reynslu sem þyrfti hvorki að vera rétt eða röng heldur.

Bara innlegg í reynslubanka konu og kynning á enn einni hlið lífins.

Svo ég er að hugsa um að stækka við mig...og bæta við mig nýrri reynslu og mögnuðum möguleika á að það geri gæfumun fyrir einhvern einhversstaðar á þessari plánetu. 

Þetta var morgunhugleiðing í boði morgunstjörnunnar sem skín svo skært á himni þessa dagana. Ég sé hana út um gluggann minn og elti hana á röndum alla daga.

Eigið góðan dag og munið að veikleikar eru bara hin hliðin á hæfileikum ykkar og þið eruð allar hliðar á ykkur sjálfum. ÞESSI SPEKI VAR SVO Í MÍNU BOÐI!Wink

marsTré Gult

 


6 krákur fyrir utan Melabúðina boða kuldakast!

Þær voru 6 saman og kolsvartar, krunkandi í hóp og kjagandi fyrir utan Melabúðina í morgun. Við sem þarna vorum flýttum okkur heim og hækkuðum á ofnunum og týndum til hlýjar flíkur og tékkuðum á kakóbirgðunum.

Við vitum hvað þetta þýðir.

Winter


Siðvit og siðvitleysingar..bókalestur og smá bjartsýni.

Er að lesa merkilega bók eftir Gunnar Dal sem heitir Þriðja árþúsundið. Framtíð manns og heims sem ég fann á bókamarkaðinum í Perlunni. Í hennni er einmitt svona efni sem ég hef verið að hugleiða en eins og þið gátuð lesið í síðustu færslu hef ég verið hugsi og verið að íhuga hluti og leiðir.

Lestur þessarar bókar er einmitt eitt skrefið í að reyna að finna út hvert við getum farið héðan. Í þessari bók er heilmikil heimspeki og sterkar grundvallarspurningar um hver við erum sem manneskjur og hvernig innréttaðar sem slíkar.

Hvort við höfum til að bera siðvit eða hvort við séum hreinir siðvitleysingar.

Vekur mann til umhugsunar og ég tipla bara á einu og öðru sem vakti athygli mína og færir ykkur kannski einhverja mola til að íhuga líka.

monalisa

Gunnar skrifar um það séu 5 leiðir sem maðurinn velur sér þegar hann mætir óréttlæti eða hinu illa. Það eru merkilegar leiðir..eða ekki. Flestar felast þær í því að beygja sig undir siðvitleysuna og valdið sem oft hefur grimma ásjónu og sýnir enga miskunn. Það er í raun mannlegt að vilja láta lítið fyrir sér fara frammi fyrir slíkum sitvitleysingum sem finnst það réttlætanlegt að níðast á þeim sem aðra hafa skoðunina og sem ógna jafnvel valdinu og hugmyndafræðinni sem er siðlaus en gefur kannski vel af sér í aðra hönd..eða báðar. Fer eftir því hvar þú stendur í slíkri valdaklíku.  Ein leiðin er að hafa ekki hátt um skoðanir sínar og láta fljóta með straumnum þó maður sé í hjarta sínu ósammála en þorir ekkert með það að gera.

Fimmta og síðasta leiðin sem talað er um er það að rísa gegn óréttlætinuog berjast gegn hinu spillta og illa. Það má kannski sjá samsvörun í mörgu sem talað er um út frá sögunni við þá tíma sem við erum að lifa nú í dag.   Og áhugavert að skoða hvar og hvernig fólk hefur tekið sér stöðu og með hverju það tekur afstöðu..og jafnvel hvers vegna. Er það vegna ótta eða vegna trausts?

Tekið er til sögunnar hvernig farið var með sumt fólk í Róndalnum árið 177 og þar eru nefnd sérstaklega til sögunnar þau Blandína og Santus sem voru pínd og grimmlega pyntuð vegna þess að þau voru talin hafa náðargáfu heilags anda ..og hvernig þessi grimmd og vantrú á hið góða náði að endingu inn í kirkjuna sem kennisetningar og reglur.

Hvernig allt getur umsnúist í algera siðvitleysu þegar enginn þorir að standa með því sem rétt er og gott.

Þá verður fjandinn laus í orðisns fyllstu merkingu og klæðist hinum ýmsu búningum sem ber þess kannski ekki ytri merki hver er raunnverulega hér á ferð.  Allt fer á haus og ekkert er eins og það sýnist.

xo0YIc7oaCrt0Mo1Hj4tDvSp7ynqozwD

 Við erum ekki bara í pólítíksum hreinsunareldi hér á landi núna og algeru efnahagshruni. Kannski höfum við líka gleymt því hvað er að vera alvöru manneskja og hvaða tilfinning það er að hafa traust til annarra og geta borið höfuðið hátt því við veljum a vera vel innréttuð og teljast frekar til siðviturra manna og kvenna en siðvitleysinga. Að grundavallartraustið er farið og við vitum ekki hverjum er treystandi og hver er hvað og fyrir hvað viðkomandi stendur lengur.

Að þetta hrun okkar snúist líka um sjálfsmynd okkar og hvernig fólk við teljum okkur vera. Það er ekki einu sinni um mat okkar á því.. heldur verðum við að horfa mjög opineyg á það hvernig framkoma okkar er og hefur verið og hvaða grunngildi við höfum haft að leiðarljósi. Það er kannski þar sem við þurfum að byrja áður en við byggjum allt hitt.

Á okkur sjálfum og manngildi okkar.

Sjálfsmyndinni og fyrir hvað við stöndum sem manneskjur. Hvort við teljumst til siðviturra manna eða til siðvitleysinga sem engu eira í stórmennskubrjálæði Egósins sem allt vill fá og allt vill eiga..eða Sjálfsins sem skilur og kann samstöðuna..hefur í eðli sínu samkenndina og að það sem þú gerir öðrum gerir þú líka sjálfum þér. Og að við tökum ábyrgðina á því að vanda valið og vera alveg vissum að það sem við gefum farveg sé á vegum siðvitundar en ekki siðvilteysunnar. Að það afl þjóni mannkyni og því góða en ekki ótamdri græðgi og siðvitleysu sem engan endi tekur.Við..ég og þú verðum að vera vakandi og láta ekki gabba okkur með innantómum orðum sem eru algerlega á skjön við verkin og fyrri fótspor.

Jæja..læt þessar hugleiðingar duga í bili enda bara komin á bls 24 í bókinni góðu...en margt sem hún hefur fengið mig til að hugsa um svona á fyrstu blaðsíðunum. Hlakka til að lesa meira t.d kaflann um Skynsemiskjánana. Elska svona bækur og hugmyndir.

Þeir voru líka flottir í Katljósinu í gær Haukur Ingi og hinn/man því miður ekki nafnið) sem var með honum í viðtalinu um Hugmyndaráðuneytið og  Stefnumótunina.... Tók viðtal við Hauk í vor og þar kom m.a annars fram að hann vinnur að Doktorsritgerð sem mætti kalla á íslensku lækningamáttur ímyndunaraflsins sem mér fannst verulega spennandi viðfangsefni.

Það er einmit svona fólk sem við eigum að horfa til núna en ekki afdankaðir og valdsjúkir pólitíkusar sem geta engan veginn horft út fyrir sitt flokksbundna box eða séð niður til okkar hinna úr turninum þarna uppfrá.

 IRE1~Irish-Doors-PostersÆtli þeir skynji og muni að þessar litlu þústir séu fólk? Alvöru manneskjur með vonir og þrár og hjarta sem slær fyrir framtíð þeirra og barna þeirra? Að þetta séu ekki bara litlir og lánlausir vinnumaurar sem eiga að borga fyrir bruðlið og siðvitleysuna í þessu fólki sem kann ekki fótum sínum forráð í þörfinni fyrir að fá meira og meira og meira..endalaust. En er samt alltaf jafntómt að innan.

Maður biður bara fyrir því að siðblindan öðlist þá gáfu að geta séð sjálfa sig og siðvitleysingarnir þar með vaknað upp frá þessum þrældómi græðginnar. Það væri bara gott fyrir alla og okkur öll.

Já það er gott að vona og trúa á að hið góða sigri á svona tímum. Þetta eru miklir umrótartimar um allan heim..og kannski verðum við svo gæfusöm að sjá hvað skiptir máli og hvert við viljum fara og hvernig við viljum í raun vera.

Gleymun því ekki að við höfum óteljandi möguleika og um margar leiðir að velja. Það er allt hægt!

 

 


Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 310875

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband