Leita í fréttum mbl.is

Hvað er það sem þú átt erfiðast með að trúa???

Ég hef óendanlegan áhuga á öllu sem viðkemur mannlegu eðli og lífi á öllum sviðum. Þá er ég lika að tala um svið sem eru ekki öllum sýnileg eða skiljanleg. Við búum í margvíðri veröld og þar má finna margt skrítið og skemmtilegt. Ég er að setja saman mína eigin frásagnir af furðulegum, ótrúlegum og skringilegum atburðum og uppákomum sem hafa gerst í lífi mínu. Sumt tel ég mig skilja og skynja hvernig það gat gerst en sumt veldur mér töluverðum heilabrotum og vekur upp margar spurningar. Sumar af þessum sögum hef ég sett hér á bloggið mitt og greinilegt að sumir sjá og skilja á sinn hátt og aðrir hafa allt aðra sýn. Það er auðvitað bara eðlilegt og gangur lífsins að við komum að málefnum og viðfangsefnum frá okkar eigin reynslu, upplifun. menntun, menningu, uppeldi og svo mörgu öðru sem hefur mótað sýn okkar og skilning.

 4

Nú langar mig að spyrja lesendur...Hvað er það ótrúlegasta sem þú hefur orðið vitni að eða upplifað? Og í framhaldi af því, hverju áttu erfiðast með að trúa?? Trúir þú á kraftaverk t.d.  Trúir þú að við lifum eftir dauðann?

Trúir þú að það séu til englar eða djöflar...hjálpendur og leiðbeinendur?  Álfar og huldufólk...að við getum heilað hvort annað eða okkur sjálf og þá hvernig? Hvað er þessi orka sem allir eru að tala um og hver skapar hvað? Erum við leiksoppar duttlungafullra örlaga eða sköpum við okkar eigin raunveruleika? Eru takmörk fyrir því hvað mannveran getur skilið um sjálfa sig og er um við kannski miklu meira og stærra en við höldum?

Höfum við í raun ótakmarkaða möguleika?

Hvernig sjáum við heiminn og okkur sjálf í  honum? Er þetta dimmur, grimmur og dökkur pyttur þessi veröld eða skínandi gimsteinn í alheiminum??

Að trúa á eitt útilokar það endilega að geta líka trúað á annað?? Þetta eru margar og stórar spurningar og þið þurfið ekkert að svara þeim öllum...megið bara segja það sem ykkur finnst um það sem þið viljið tjá ykkur um.  Sumt af ofantöldu,allt eða ekkert. 

 Ég vil endilega hvetja til þess að hér verði gefið pláss fyrir hvern sem er að tjá sig án þess að fólk fari að gera lítið úr annarra manna raunveruleika og sýni hvert öðru virðingu og umburðarlyndi í þessum umræðum. Þrasgirni og þrætur skila aldrei neinu.

untitled26

Það er bara svo hollt að velta fyrir sér öllum sköpuðum hlutum. Tek eftir orðum eins kennara míns sem sagði alltaf..."Þegar þú mætir nýrri hugmynd eða hugsun segðu þá ekki NO!! segðu heldur OH???

Það er mjög mikilvægt að lifa með spurningum sínum.

Búðu til pláss hjá sjálfum þér til að hugsa og velta fyrir þér þessu sem þú þekkir ekki  eða skilur ekki og þaðan getur þú tekið ákvörðun um hvort viðkomandi hugmynd hentar þér... eða ekki.

Set hér inn til gamans tvær eldri færslur sem eru um svona uppákomur og sérkennilegar upplifanir.

http://katrinsnaeholm.blog.is/blog/katrinsnaeholm/entry/186239/

 http://katrinsnaeholm.blog.is/blog/katrinsnaeholm/entry/258926

Have fun!!!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hverju ég á erfiðast með að trúa ?  Sennilega á ég einna erfiðast með að trúa því hve rotið sumt fólk getur verið og illa gert.  Þá er ég að tala um þá sem myrða saklaust fólk, selja það í ánauð eða þaðan af verra, ég vil ekki einu sinni vita af þessum hrylling.  En ég bara get ekki sett mig í þessi spor.  Ég á líka afskaplega erfitt með að trúa því að Guð sé einhver vera, gamall karl með skegg, eða svört kona.  Ég get ekki skilið að fólk skuli trúa i blindni því sem stendur i biblíunni og öðrum trúarritum sambærilegum.  Og jafnvel framkvæma suma ljótu hlutina sem stendur í trúarritum af hvaða trú sem er.

Ég hef oft reynt að ímynda mér hvað liggur að baki því að trúa í blindni.  En á sama tíma afneita öllu því sem ég er alveg viss um að er í kring um okkur á annarri vídd, eða einhversstaðar samhliða okkur í tíma og rúmi.

Ég get heldur ekki skilið af hverju sumt fólk vill þagga niður allar umræður um slíka veröld.  Sennilega einhverskonar hræðsla um að ef til vill hafi þetta fólk rétt fyrir sér, og þá endasnýst veröldin. 

Ég neita held ég aldrei neinu fyrirfram.  En ég skoða það og hugsa um það, og svo finn ég inn í mér hvort ég get trúað því eða ekki.  Ég þarf ekki einhverjar beinharðar sannanir svart á hvítu. Heldur bara mína eigin skynsemi og það sem ég hef aflað mér gegnum árin.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.8.2007 kl. 13:42

2 Smámynd: Promotor Fidei

Fúll á móti hérna aftur.

Frummenn áttu það til að halda að orð, og jafnvel bara hugsanir, byggju yfir einhverjum mætti; að með því að ákalla veiðiguðinn yrði fengsælt, og með því að óska einhverjum dauða væri hann feigur. Ef einhver fengi nafnið Sterki Björn yrði hann stæðilegur og þyrfti ekki að óttast nafna sinn úr dýraríkinu.

Við sjáum í börnum margt af einföldum hugsunarhætti forfeðra okkar, og þekkjast t.d. vel dæmi þess þegar börn, fá samviskubit þegar eitthvað slæmt gerist fyrir tilviljun vegna þess að þau "hugsuðu það" eða "óskuðu þess".

Vísindamenn hafa skrifað heilu bókaflokkana um þessa frumstæðu hegðun sem, þegar að er gáð, er uppspretta allra trúarbragða og siða sem við þurfum að lifa með í dag og eru allt frá því að vera heimskulegir til þess að vera skaðlegir.

Að fólk skuli halda að talan 13 sé verri en aðrar tölur, og talan 7 betri en flestar, eða að svartir kettir boði ógæfu eru t.d. birtingarmyndir þessarar ímyndunarveiki, sem án vafa hefur valdið ótöldum svörtum köttum, og fasteignasölum, ónauðsynlegum þjáningum.

Hér má skjóta því að að nýverið fjallaði Kastljósið  alveg gagnrýnislaust um raupið í nýaldarkjána sem hélt því fram að hugsanir hefðu áhrif á okkur, og sýndi því til sönnunar myndir af vatnskristölum sem höfðu orðið fyrir hugsunum.

Það er til skammar að fréttaþáttur skuli fjalla með svona gagnrýnislausum hætti um slíka endemis vitleysu, en smá rannsóknarvinna hefði leitt í ljós að "tilraun" Masaru Emoto var algjört bull og vitleysa frá rótum.

-en trúgjarnar kerlingar hafa ekki fyrir því að lesa gagnrýnina, enda er óneitanlega gaman (og eflaust huggandi) að lifa í þeirri trú að heilinn í ekkert-sérstaklega-vel-gefinni húsmóður búi yfir einhverskonar undarlegum galdramætti.

Af sama meiði er svo sú trú að stöður himintungla hafi einhver áhrif á framvindu lífs okkar hér á jörðunni (við verðum fyrir álíka miklum kröftum frá þessum plánetum og við verðum fyrir af mýflugu sem sest á handarbak okkar á meðan þessi pistill er lesinn), eða að litríkir kristallar og steinar geti haft einhvern áhrifamátt þegar þeir komast í snertingu við okkur.

Verst er þó þegar fólk notar trúgirni annarra vitleysinga til að hafa af þeim fé, og jafnvel með því að bjóða þeim falslækningar við alvarlegum sjúkdómum. Mikill fjöldi fólks hefur miklar tekjur af því að heila, lesa í spil og spákúlur, búa til görug seyði og hvaðeina -allt saman hrein og klár vitleysa sem aldrei hefur getað staðist rannsókn.

Og þessa hegðun, og þennan frumstæða/einfalda hugsunarhátt, á ekki að umbera. Því þó það geti verið ósköp gaman að ímynda sér að drekaflugur eigi í samskiptum við okkur hin, og að afi og amma séu að tala til okkar huggandi orðum frá hinni hliðinni, og að stjörnurnar haldi yfir okkur verndarhendi og hvaðeina -þá er engum greiði gerður af því að lifa í blekkingu. Sér í lagi þegar blekkingin er síðan farin að kosta fólk fúlgur fjár í greiðslum til allskyns kukklara og lófalesara -fúlgur fjár sem væri betur varið í að leysa raunveruleg vandamál, uppræta hungur og lækna sjúkdóma.

Þessi trú á hverskonar galdralausnir og töfra og "alheimsorku" eða hvaða nafni svo sem það nefnist, er að tefja okkur í því mikilvæga starfi að skilja okkur sjálf og takast á við eigin vandamál með raunhæfum hætti.

Það getur vel verið að allt sé fullt af álfum og draugum og málglöðum drekaflugum í kringum okkur, og að heilinn sé mun merkilegri en við höldum. En það er ekkert mark takandi á fullyrðingum um slíka hluti sem ekki hefur tekist að færa á einhverjar vísindalegar sönnur. Það sem ekki er hægt að sanna, er líkast til lygi, ímyndun eða misskilningur -og breytir þá engu þó að heil hjörð af nýaldarkerlingum séu alveg ólmar í að trúa á spennandi galdra.

Eftir stendur að ég á hvað erfiðast með að trúa að nokkrum manni þyki bækur Paulo Coelho góð lesning.

Promotor Fidei, 30.8.2007 kl. 14:33

3 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

Vá konfektfærsla !!!

Það frábærasta sem ég hef upplifað er svo margt, á mörgum víddum og mörgum plönum ! En þegar ég upplifði það í fyrsta sinn þá var það ótrúlegast, því það var nýtt fyrir mér í þessu lífi, ég lá í rúminu mínu og var að fara að sofa, ég lokaði augunum og fann að ég fór eins og lengra og lengra inn, allt í einu var ég ekki ég í mínum kroppi en ég var energy, og ég fann að með huganum gat ég farið þangað sem ég vildi, ég fór á uppáhaldsstaðinn minn í heiminum, ströndina í Vík í Mýrdal, ég var þar á skotstundu pufff og ég var þar, ég var eins og loft og tilfinningin var ólýsanleg. ég var meðvituð um mig og meðvitum um að ég væri ekki sofandi heldur væri að upplifa eitthvað einstakt ! svo allt í einu var ég aftur í kroppnum mínum í jarðarlífinu mínu.  

já 

ég trúi að við getum heilað hvort annað og okkur sjálf með hugarorkunni, en ég trúi líka að læknavísindin séu kraftaverk sem þurfi líka að vera þarna því sumt getum við ekki ssjálf og það þarf að vera meðvitaður um það.

vá þetta eru svo margar spurningar !

ég trúi á karma, sem er stór hluti af tilveru okkar hérna. einnig erum við hérna til að verða betri manneskjur og hjálpa hvert öðru í átt að einum kærleika !!!

ekkert er í raun tilviljun að mínu mati, en við höfum frjálsan vilja !

Eitt útilokar ekki annað, það eru margar leiðir til Guðs, við veljum hver okkar leið og ef hún er byggð á Kærleika til lífsins þá er það rétta leiðin !

kæra katrín þú ert flott !

AlheimsLjós til þín

PAULO COELHO er að mínu mati besti rithöfundur okkar tíma, og ég er sennilega ekki ein um þá skoðun.

svona erum við jú ólík á þessari Jörð sem gerir okkur að heild !

steina 



 

 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 30.8.2007 kl. 15:54

4 identicon

Ég trúi ekki á kraftaverk utan þessa veruleika sem við lifum í.

Við lifum eftir dauðann en ekki sem eintaklingar því við erum einungis til sem ein heild, eitt líf.

Ég trúi ekki á engla. djöfla, hjálpendur og leiðbeinendur, álfa og huldufólk, sem verur fyrir utan okkur sjálf.  Þetta eru allt hugmyndir, ímyndir, einnig við.

Á meðan við erum ekki meðvituð um hvað við í raun erum þá erum við leiksoppar örlaganna, en það er okkar sköpun þó ómeðvitað sé.  Það er ekkert til fyrir utan þig, ekki einu sinni örlög.

Það eru engin takmörk fyrir því hvað mannveran getur vitað um sjálfa sig.  Það segir sig sjálft að ef við erum öll eitt og sama lífið, þú, hann, hún öll eitt og hið sama þá erum við margfalt stærri en við að öllu jöfnu látum og höfum ótakmarkaða möguleika.  Við erum öll eitt og hið sama.  Ekkert.

Heimurinn er skapaður af okkur sjálfum, fyrir okkur sjálf og því í fullkomni samræmi við okkur sjálf.  Ekki beint gæfuleg mynd það.



Hver og einn verður að vera eigið leiðarljós.  Hver sá sem kallar sig nema, lærisvein eða fylgjanda, hvort heldur er annarra manna eða hugmynda, fylgir í reynd annarra ljósi.

Og það að fylgja annarra ljósi er að ganga í myrkri.

Inga Helgadóttir (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 16:25

5 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Það er ekkert mál að trúa því að til séu verur af annari tíðni eða efnisþykkt en við sem kölluð erum mannfólk. En að trúa því að til sé fólk sem virkilega trúir því sem "Promotor Fidei" heldur fram, því á ég erfiðast með að trúa.

Skemmtileg umræða Katrín Snæhólm. 

Ragnhildur Jónsdóttir, 30.8.2007 kl. 16:37

6 Smámynd: krossgata

Ég trúi ekki að það séu leiðbeinendur eða einhverjir framliðnir að toga í spotta og að mikilvægustu skilaboðin séu að það sé rétt að kaupa rauða sófann eða að lásinn á reiðhjólinu sé inn, út, inn, inn, út.  (Mér virðist skilaboðin alltaf vera í þeim dúr).

Það er margt óútskýrt í heiminum, margt sem verður sjálfsagt alltaf ótútskýrt.  Ég tel möguleika okkar óendanlega miðað við að vitum ekki hvar endir á þeim er, sem um leið setur takmörk um hvað við getum skilið og skýrt, því það er enginn þekktur endir og því veistu ekki hvenær þú veist allt.  Óendanleiki er bæði takmörk og ekki takmörk.

Eitt af því ótrúlegasta sem ég veit er þegar fólk segist ekki skilja hvernig einhver annar getur trúað í blindni á Guð, Allah, Búddah og/eða þau rit sem þessum trúarbrögðum fylgja og svo segir það í næstu setningu að það trúi á aðra vídd, framliðna leiðbeinendur og hefur ekkert fyrir sér haldbærara en miðla og rit skrifuð af þeim eða eftir þeim.  Hver er munurinn á snjó og fönn?

Ég tel að mannskepnan hafi einhverja þörf til að trúa á eitthvað sem er henni æðra.  Hvað svo sem hún skilgreinir svo sem sér æðra.

krossgata, 30.8.2007 kl. 21:21

7 Smámynd: krossgata

Svo langar mig að bæta við... Það fábærasta sem ég hef upplifað er fæðing dóttursonar míns.  Mér finnst fæðing kraftaverk í sjálfu sér og flókið fyrirbæri.  Að halda svo á krílinu og hugsa sér að hægt sé að pakka því saman og koma fyrir í "bumbunni" á mömmunni.  Útilokað!   Fæðing barnabarns finnst mér frábærari upplifun en fæðing eigin barns, því það að fæða eigin barn er púl og full vinna, sem maður hefur bara ekki tíma í að upplifa og sársauki er ekki til að njóta.

krossgata, 30.8.2007 kl. 21:30

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er aldrei gott að trúa í blindni.  En þegar maður finnur samsvörun í ýmsum hlutum sem maður getur sætt sig við, er allt annar hlutur.  Að trúa í blindni er einmitt ekki að leita.  Heldur trúa því sem sagt er við mann, án þess að gera neinar athugasemdir eða hafa efasemdir.  Maður leitar og kemst að ákveðinni niðurstöðu.  Þannig er því ekki farið um þá sem trúa í blindni á ritað orð, eða orð presta og preláta.  Þar er allt heilagur sannleikur sem borið er á  borð. 

Í mínum huga er þetta tvennt ólíkt.  Og þá er ég ekki að tala um þá sem hafa fundið trúna eftir leit, og hafa fundið Jésu og Guð vegna þess að leitin bar þá einmitt þangað.  Í mínu húsi eru margar vistaverur stendur einhversstaðar.  Bara þegar menn finna sinn eigin sannleika hver sem hann er, það er málið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.8.2007 kl. 21:38

9 Smámynd: halkatla

ég trúi bara því sem fólk segir mér að það hafi upplifað... ég var ekki viðstödd og get ekkert farið að segja til um hvað gerðist og hvað ekki, svo að ég er eiginlega opin fyrir því að trúa hverju sem er um svona lagað. Allir lenda í hlutum sem hvorki þeir né vísindin geta útskýrt, það er bara þannig, en margir vilja afneita þessu og bíða með að tala um það þangað til það verður "vísindalegt" - sem gerist kannski eftir 3000 ár hver veit. Reynslur fólks af einhverju dulrænu verða líka mjög oft fyrir fordómum, aðrir segja þeim jafnvel hreint út að þau geti ekki hafa upplifað hluti einsog þau segjast hafa upplifað þá! Annars hef ég {einsog ALLIR aðrir} lent í ótrúlega mörgu óútskýranlegu um ævina, smáu sem stóru, og ég veit eiginlega ekki hvar ég ætti að byrja að telja það upp, en ég hef fengið nokkra magnaða fyrirboða sem enginn gæti nokkurntímann útskýrt, hvað þá ég. Þeir hafa verið bæði góðir og slæmir, ég fékk t.d tvo fyrirboða áður en kisinn minn hvarf, annan sólarhring áður og hinn kom í seinasta sinn sem ég hitti kisann, þetta var mjög óþægilegt af því að mér fannst lengi á eftir einsog ég hefði átt að geta gert eitthvað til að afstýra þessu. Annars er flestallt svona bara ótrúlega skemmtilegt, ég valdi bara þessa sorgarsögu afþví að hún er svo einföld, hinar eru allar bara eitthvað whaddafokk hehe  

frábær færsla hjá þér katrín!  

halkatla, 30.8.2007 kl. 21:39

10 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Takk fyrir alveg frábær svör og pælingar og að langflestir halda sig við að bera virðingu og eru umburðarlyndir fyrir annarra manna skoðunum og upplifunum hér. Einu hef ég tekið eftir þegar ég tala við fólk um þessa hluti a mjög margir búa yfir svona sérstökum og óútskýranlegum reynslusögum. Margir hafa aldrei sagt nokkurri lifandi veru frá ´þeim einmitt vegna svona hastarlegra viðbragða sem eiga það til að koma upp á yfirborðið. Fóll fær yfir sig alls konar yfirlýsingar um að það sé nú ekki í lagi með það.það hljóti að vera bilað eða hreinlega geðveikt. Og flestir fara svo í felur með reynsluna sína eða fara að efast um sjálfa sig. Jafnvel þó reynslan hafi hreinlega umbreytt lífi þeirra svo mögnuð hafi hún verið. Og fordómarnir koma auðvitað frá þeim sem hafa sjaldan eða aldrei átt svona reynslu og geta þar af leiðandi ekki skilið hana en eru fljótir að dæma og upphrópa. Ég held að það sé oftast sprottið af ótta eða vanþekkingu. Hins vegar má á það benda að við húsmæður með litlu heilana og trúgjarnar nýaldarkerlingar að mati sumra námu nú sumt af fræðunum í velgerðum háskólum úti í heimi svona þegar við tókum pásu frá uppvaskinu. Það eru nefninlega uppi átök innan vísindanna sem eru langt frá því að vera hinn eini sanni sannleiksstuðull sem allt er hægt að miða við. Og ótrúlegt en satt og alls ekki yfirnáttúrulegt að þá eru líka þarna virtirt kennarar sem kenna einmitt það að tengja betur við skynjun okkar og næmi til að komast í upplýsingar sem leynast í undirvitundinni úm alheiminn. En ég hlakka til að lesa og sjá meira....og held ótrauð áfram að skrifa mína litlu ævintýra og reynslusögubók..kannski ég kalli hana bara "Húsmóðirin sem fékk rugluna og stakk af með talandi drekaflugu?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 30.8.2007 kl. 22:43

11 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Sæl Katrín. Ég vildi að klukkan væri ekki orðin svona margt, því ég gæti ábyggilega notað alla nóttina í að svara þessum frábæru spurningum þínum og heilabrotum "útfrá minni sýn" á hlutina.

Ég trúi því að það sé stórt samhengi í hlutunum og að við séum öll partur af þeim sannleila og kærleika, hvernig svo sem við bregðumst við honum dags daglega.

Ég trúi líka á Guð á minn hátt, að hann sé kærleiksljósið, orkubrautin sem við öll höfum part af í sál okkar. Gömul spakmæli eins og "það sem þú gerir öðrum gerirðu sjálfum þér" hafa því meiningu í mínum huga. Á þeirri stundu sem við finnum að það að senda aldrei frá okkur annað en gott í garð annarra og umhverfisins þá finnum við okkar innri frið og getum notið. Þá birtist okkur það sem ég vil flokka undir "það ótrúlegasta sem ég hef upplifað" hlutirnir sem við óskum okkur og þráum birtast okkur eins og án áreynslu.

Þetta þýðir ekki að við hættum að upplifa mótlæti eða sorg við fáum bara annan skilning á því sem við mætum á lífsleiðinni.
Þetta þýðir ekki heldur fyrir mér að við eigum að láta vaða yfir okkur á skítugum skónum, en við eigum bara ekki að fara niður á það sama plan og því ekki að svara í sömu mint.

Ég trúi á engla (no doubt) og að við getum talað við þá og fengið hjálp þeirra við lítil verk og smá. Ég veit að við getum heilað okkur sjálf og hvert annað, því það að heila er enginn galdur. Það eina sem er "spúkí" við heilun er að hún hefur ekki lengi fallið að okkar uppeldi, samfélagi, viðhorfum ....

Meira um heilun. Öll börn fæðast með heilunarhæfileika og nota þá óspart þar til samfélagið hefur máð þá burt. Hefurðu t.d. tekið eftir því hvernig ung börn klappa fólki á andlitið, sérstaklega gömlu fólki?
Ung börn vita heldur ekkert óþægilegra en þegar fullorðnir klappa þeim á kollinn, svona sem vinalegheit. Ástæðan er einföld, því þá truflast þeirra eðlilega orkuflæði. Heilunin er nefnilega ekki meiri galdur en sá að vera meðvitaður um "góðu orkuna" sem við eigum alltaf aðgang að og ef allt er eðlilegt flæðir inn um höfuðstöð okkar og þaðan til handanna ef við beytum heilun fyrir aðra.

Æi ég er bara rétt byrjaður, en ég er að fara að sofa núna. Get kannski "bloggkommentað" meir um þetta seinna hjá þér.

Lífið er gjöf og ekkert hefur eins mikil áhrif á að móta það og hugur manns og viðhorf :)

Kærleikskveðja til þín kæri bloggvinur :)

Hólmgeir Karlsson, 30.8.2007 kl. 23:21

12 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég trúi á alheimskærleikann sem sumir kalla Guð. Við erum öll bæði menn og dýr upprunnin í kærleiksljósinu eða alheimsvitundinni. Þó að við skiljumst frá henni við fæðingu okkar hér á jörð, höldum við samt sambandinu við upphaf okkar. Á stundum getum við jafnvel tengst kærleiksljósinu beint í okkar jarðneska lífi og upplifað svokallaða hugljómun. Ég sjálf hef fengið að upplifa þetta ástand einu sinni þegar ég var yngri. Ég var í algjörri slökun og hugur minn var tómur og tær. Skyndilega fannst mér sem eitthvað stórkostlegt væri í aðsigi og ég leit upp. Þá sá ég að öll stofan sem ég var stödd í var uppljómuð í hvítgulu heitu ljósi sem geislaði frá sér ást og kærleika. Ég skynjaði en heyrði ekki með eyrum mínum þessi orð frá ljósinu. 'Vertu ekki hrædd, því ég elska þig' Ég missti allt tímaskyn og hef ekki hugmynd um hvort þessi alsæla stóð yfir í eina sekúndu eða fleiri klukkutíma. Ég fékk að upplifa eilífðina þessa stund og í huga mér er hún helgidómur sem ég geymi með sjálfri mér.
Mig hefur líka dreymt drauma fyrir láti náinna skyldmenna, sem koma fram í smáatriðum, kannski löng atburðarás, þegar ég vakna. Þetta er eins og að sjá endursýnda kvikmynd. Sömuleiðis get ég gengið að týndum hlutum sem fjöldi manns er búið að leita að í lengri tíma. Það er eins og einhver leiði mig á þann stað þar sem hluturinn er. Einu sinni var ég leidd að stórum runna, ég beygði mig niður og teygði mig inn í miðjan runnann og gróf fingurna ofan í jörðina. Þar undir fann ég borðhnífinn sem hafði týnst úr sumarbústaðnum sem við vorum með á leigu. Ég hef líka séð fylgjur fólks sem koma á undan því sjálfu. Þær líta alveg eins út eins og manneskjan sem þær fylgja.
Aftur á móti hef ég aldrei séð verur úr öðrum víddum, eins og álfa og huldufólk, en ég skynja sterkt návist þeirra á sumum stöðum. Í Mýrdalnum er til dæmis allt fullt af huldufólki.

Ég hef líka fengið ótrúlega sterk hugskeyti frá fólki sem er að reyna að ná sambandi við mig. Það er fleira en sýnist milli himins og jarðar. 

Svava frá Strandbergi , 31.8.2007 kl. 00:01

13 Smámynd: Ívar Pálsson

Hrikalega ögrarðu öllu hugsandi fólki! Hver og ein þessara spurninga, t.d. um örlög eða eigin stjórn, hefur gefið tilefni til skrifa heilla bóka. Það væri kannski réttast að taka bara eina fyrir í einu, viku í senn í vetur? Það kviknar ekki bara ljós í kollinum, heldur heil sería. En fyrst aðrir hafa tekið sénsinn með ritgerðarathugasemdir, þá kemur hér mín tilraun í örútgáfu, sem er samt bálkur. Takk fyrir, Katrín, þú virðist hafa lesið Karmahlutann í stjörnuspekinni vel!  Afsakið lengdina.

Hvað er það ótrúlegasta sem þú hefur orðið vitni að eða upplifað?

Fæðing, þar sem þróað líf tekur sér form.

Hverju áttu erfiðast með að trúa?

Að örlög fólks séu ótengd og að við bara fæðumst, fjölgum okkur og deyjum.

Trúir þú á kraftaverk t.d. að við lifum eftir dauðann? Sálin lifir og tekur sér aftur bólfestu síðar.

Trúir þú að það séu til englar eða djöflar, hjálpendur og leiðbeinendur, álfar og huldufólk?

Já, andar í alls kyns birtingarmyndum eru til. Ótal atvik benda til þess.

Trúir þú að við getum heilað hvort annað eða okkur sjálf og þá hvernig?

Já, ég stunda sjálfsheilun með hugleiðslu þar sem ég sé liti heila mann, einnig að senda jákvæða orku í einkonar naflastreng beint til ákveðins aðila sem þarf þess, óháð staðsetningu. Svínvirkar!

Hvað er þessi orka sem allir eru að tala um og hver skapar hvað?

Eins og allar lifandi verur þá vinnum við úr þeirri orku sem berst til okkar í ýmsu formi, sólarorku, rafsegulmögnun, fæðuorku, sumt á lítt þekktum tíðnum. Vinna þarf rétt úr orkunni.

Erum við leiksoppar duttlungafullra örlaga eða sköpum við okkar eigin raunveruleika?

Örlög mannssálar eru uppsafnaðar afleiðingar ákvarðana þeirrar sálar frá upphafi, Karma ef þú vilt, en koma skýrast fram í þessu lífi. Síðan eru ýmiss sameiginleg örlög sem við deilum sem heild, t.d. í miklum rafsegulstormi frá sólu eða í fellibyl.

Eru takmörk fyrir því hvað mannveran getur skilið um sjálfa sig og er um við kannski miklu meira og stærra en við höldum?

Engin takmörk eru á skilningi manna. Samlögun við almættið gerist á örfáum manneskjum.

Höfum við í raun ótakmarkaða möguleika?

Hægt er að ná ótrúlegum víddum á hverju sviði. Helstu takmarkanirnar eru í huga hvers og eins.

Hvernig sjáum við heiminn og okkur sjálf í  honum?

Eins og genin, örlögin, upplagið, uppeldið, mataræðið, athafnir okkar og samskipti leiða okkur til þess að sjá heiminn og okkur sjálf.

Er þetta dimmur, grimmur og dökkur pyttur þessi veröld eða skínandi gimsteinn í alheiminum??

Hægt er að horfa á dökku hliðina eða þá ljósu. Tunglið er t.d. alltaf tungl, sama hvaðan það er séð.

Að trúa á eitt útilokar það endilega að geta líka trúað á annað??

Nei, við lifum ekki í svart/hvítum tvívíddarheimi, heldur í margvíddarveröld með öllu litrófinu. Eitt er ekkert sannara en annað, heldur fer það eftir stöðu áhorfandans.

Ívar Pálsson, 31.8.2007 kl. 11:13

14 Smámynd: Lúðvík Bjarnason

Rosalega gaman að lesa þetta og skoðun fólks er margsinnis allir koma með sínar hliðar á málinu. Ég veit ekki til þess að ég hafi upplifað eitthvað sem er ótrúlegt, ég hef samt rosalega gaman af svona "tilviljanir" sem poppa upp hjá manni og þau eru oftast eitthvað sem er bundið við mann sem persónu og væru ekki áhugaverð í letri. Það sem er að gerast er að fólk er að öðlast frekari skilning á því sem er að gerast í kringum það ástæðan fyrir því er meiri sjálfsmeðvitund, fólk er að verða meira sjálfsmeðvitaðra um sjálfan sig og það er grunnurinn síðan fer það að sjá sjálfan sig allt í kringum sig. Við vitum að trúarbrögð eru ekki að virka og við eigum að mynda nýjar skoðanir og losa okkur við þessa gamla orku sem hangir á hælarnar á okkur eins og akkeri. Ég myndi segja að mannkynið væri að koma út úr púbbunni og breytingarnar verða rosalega erfiðar eins og allar breytingar eru en það er eins og það er og síðan munu hlutirnir birtast í nýju ljósi og fiðrildið fær að fljúga.

Lúðvík Bjarnason, 31.8.2007 kl. 15:06

15 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

Hallgrímur Óli Helgason, 31.8.2007 kl. 17:45

16 Smámynd: Ingibjörg R Þengilsdóttir

Hverju trúi ég?  gaman að þú skyldir spyrja, því ég er búin að vera spyrja mig að því sjálf, því ég er að fara með vinkonum mínum á kvennamót hjá Kfum og K. Og hef ekki grænan grun um hvað þar á að gera nema ég veit ég fæ að borða og rúm til að sofa í, nokkuð gott.

Svo trúi ég því að ég höndli allt annað, fólkið, samskiptin og hvað það allt nú verður.

 Það segir nú einhversstaðar "ég trúi á Guð almáttugan, hans einkason Jesúm Krist..........osfrv"  þið þekkið þetta flest, jú þetta er trúarjátningin.

Ég trúi á manngildi- að bera virðingu fyrir mér og öðrum í kringum mig

ég trúi þvi að það sé gott til í öllu og öllum.

bara misdjúpt á því.

Ég trúi því að það séu til álfar, huldufólk og tröll, því ég hef einfaldlega séð þetta allt saman með mínum eigin augum.

Ég trúi á líf eftir dauðann.

Ég trúi því líka að við sköpum okkar raunveruleika sjálf og berum ábyrgð á gerðum okkar.

gott framlag þetta Katrín

sendi þér ljós og fallega liti hér úr drunganum í Reykjavík

kveðja

Ingibjörg Þ 

Ingibjörg R Þengilsdóttir, 31.8.2007 kl. 17:56

17 identicon

Þú spurðir hvort við værum leiksoppar örlaganna eða hvort lífið væri jafnvel skipulagt fyrirfram: Þessu væri jafnvel hægt að svara með vísu:

-Forlög koma ofan að,

örlög kringum sveima.

álögin frá illum stað

en ólög fæðast heima.

*Ég held að allir þeir sem komnir eru eitthvað áleiðis í andlegum fræðum líti á framhalds og fyrri líf sem staðreynd.

*Hins vegar geta menn deilt um; hvort við förum alltaf hring eftir hring eða hvort við förum alltaf uppá við í þroska.

* Að "lífið" (þroskastiginn) sé lóðrétt en ekki hringrás.

*Sjálfur vill ég halda í gömlu góðu kristinfræðina (og finnst nóg að hafa "karma fræðin" svona bak við eyrað og á meðal útvaldra.

Riddarinn (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 310909

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband