Leita í fréttum mbl.is

Ræðan sem ég flutti á Austurvelli í dag.

Kæra þjóð...góðir íslendingar og æðislegu mótmælendur.

Ég stend hér með ykkur í dag vegna þess að ég á erindi við ykkur. Mjög mikilvægt erindi og mér líggur margt á hjarta.

Það er sífellt verið að spyrja "Af hverju ertu að mótmæla" og fjölmiðlarnir sitja um fólk og spyrja "Hverju ertu að mótmæla"?. Eins og það sé ekki augljóst??

 Ég skal bara telja upp fyrir ykkur ástæðurnar fyrir því að ég miðaldra húsmóðir í vesturbænum hef staðið og barið ruslatunnulokið mitt með súpuausunni eins og ég ætti líf mitt að leysa undanfarið. Og í raun finnst mér að líf okkar liggi við og að við verðum að taka höndum saman og gera stórkostlegar breytingar á samfélaginu okkar ef það á að verða lífvænlegt fyrir okkur og framtíðarábúendur þessarar eyju.

Ég segi bara eins og þú minn kæri Jón Sigurðsson..ég mótmæli og þetta er það sem ég mótmæli af öllu mínu konuhjarta.

Spilling, siðleysi, blinda, græðgi, þöggun, skilningsleysi, afneitun, samtrygging, lygar,

glæpir, þrjóska, vanhæfi, einkavinavæðing, hroki, vanvirðing, handtökur, ofbeldi, leti,

sinnuleysi, ráðaleysi, gáleysi, fyrirhyggjuleysi, hræsni, fyrirlitning, arðrán,

bankaleynd, leynifundir, plott, forsjárhyggja, stjórnleysi, stefnuleysi, valdníðsla,

valdagræðgi, eiginhagsmunir, sjálftaka, sérhyggja, landráð, eftirlitsskortur,

Á ég að halda áfram?

rannsóknarskandall, fjármagnsflutningar, fagurgali, efasemdir, siðblinda,

efnahagsofbeldi, skoðanakúgun, stjórnsýslulagabrot, undanskot, fláræði, undirferli,

ábyrgðarleysi, alræði, kúgun, lögleysa, lögbrot, gjaldþrot, hrun, getuleysi,

sýndarveruleiki blekking, yfirhylming, siðrof, trúnaðarbrestur, vantraust, slímsetur,

Ég er ekki búin það er fleira sem ég mótmæli...

firring, fáránleiki, framkvæmdaleysi, óheiðarleiki, ógegnsæi, feluleikur, flokksræði,

mafía, minnisleysi, undanbrögð, klíkuskapur, vonleysi, valdatafl, ósómi, neyðarlög,

ólög, mannréttindabrot, auðvaldsklíkur, hagsmunagæsla, mannfyrirlitning,

óskammfeilni,sukk, svínarí, veruleikafirring, fjölmiðlaþöggun, upplýsingaskortur,

samsæri, niðurskurður, ótti, ósamræmi, svindl, baktjaldamakk, rányrkja, kvótasvindl.

Gleymdi ég einhverju mikilvægu?

Eins og þið heyrið þá höfum við ærna ástæðu til að standa hér saman í dag eins og undanfarna mánuði. Margar ógnvænlegar ástæður til að krefjast gagngerra og róttækra breytinga á samfélaginu okkar. Samfélagi sem er orðið eins og þrútið illalyktandi graftarkýli af spillingu, græðgi og siðleysi.

Krafa okkar er einföld. Við krefjumst þess að graftarkýlið verði sprengt , gröfturinn hreinsaður út svo við getum byrjað að heila samfélagið okkar á öllum sviðum og gert það mannvænlegt og heilbrigt á ný.

Við erum ekki tilbúin að ganga í gegnum alla þá baráttu sem við nú stöndum í til þess eins að fá einhverjar yfirborðsbreytingar og hrókeringar á ráðaherrastólum og örfáum embættum svo ballið geti haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Að valdið færist frá hægri höndinn yfir í þá vinstri á þursinum sem hefur setið á þessari þjóð með öllum sínum þunga og nærri kramið úr henni lífskraftinn. Að það sé nóg að setja mislita plástra á graftarkýlið og þá verði allt í lagi. Það skiptir engu máli hvort plásturinn er rauður, grænn eða blár sem settur er á meiddið.

Gröfturinn fer ekki fyrr en þetta graftarkýli spillingar, samtryggingar og valda hefur verið sprengt.   Og það er þess vegna sem við þjóðin, þessi íslenska stórfjölskylda sem við erum í raun hefur nú þust út á göturnar með látum með potta og pönnur, trommandi takt samstöðunnar inn í þjóðarsálina til að knýja fram raunverulegar breytingar. Alvöru umbyltingu  sem nær til allar þeirra þátta sem sýktir eru. Ekki bara einhverja sýndarmennsku og yfirklór. Við viljum alvöru mannleg gildi og raunverulegt frelsi.

Við erum að kafna undir rassgatinu á þessum þurs sem setið hefur á okkur alltof lengi..og við viljum hann í burt í eitt skipti fyrir öll svo við getum andað og byrjað uppá nýtt.

Ráðamenn halda kannski að við munum sætta okkur við einhverjar yfirborðstilfæringar, að þeir geti róað okkur með því að boða til kosninga og leyfa okkur að kjósa þetta sama kerfi yfir okkur aftur.   Að þeir geti leitt okkur eins og eyrnamerktar kindur í gömlu réttina og villt um fyrir okkur með því að mála girðinguna nýjum litum.

Það er sko alger misskilningur að við sættum okkur við slíka gjörninga.

 Meðan að þið ráðamenn fóruð í langt jólafrí og hvílduð ykkur eftir að hafa sofið á verðinum meðan þjóðin var  sett á hausinn .. brenndum við stóra jólatréð sem hér stóð á Austurvelli á rjúkandi réttlætisbáli.

Skilaboðin eru skýr ráðamenn. Jólin eru búin og nýtt ísland mun rísa úr öskunni, hvort sem ykkur líkar betur eða verr. Og nýja Ísland mun rísa á okkar forsendum..okkar fólksins í landinu, hinnar íslensku stórfjölskyldu  sem á þetta land, á auðlindirnar og stendur vörð um hagsmuni okkar og framtíð.

Svo spyrja menn og konur..Og hvað á svo að koma í staðinn fyrir stóra feita og ljóta þursinn ?....eins og hann sé eini bjargvætturinn í ævintýrinu sem okkur standi til boða.

Ég skal segja ykkur hvað kemur í staðinn.   Við sjálf.Í öllum okkar mannauðskrafti viti og visku. Upp úr grasrótinni munu spretta ný ævintýri sem við skrifum sjálf eftir okkar eigin duglega og klára höfði og eftir  réttlátum hjartslætti þjóðar sem skynjar hvar þarfir hennar liggja og sem veit hvert hún vill fara.

Gefum börnunum okkar nýja von, skýra framtíðarsýn og samfélag sem er heilbrigt og réttlátt.. Ég trúi á hugrekki okkar til að gera nauðsynlegar breytingar og ég treysti þessari þjóð til góðra verka. Þess vegna stend ég hér.

Við..ég og þú eigum mikilvægt erindi á þessum ögurstundum.

Erindi við nýja framtíð.

Mig langar að lokum að flytja ykkur fyrsta erindi ljóðs sem ég flutti á 17. júni í hafnarfirði  sem fjallkonan þegar ég var tólf ára gömul. Standandi upp á gömlum og lúnum kókkassa svo ég sæi yfir ræðupúltið. Af einhverri ástæðu sækja þessi orð fast að mér núna. 

Þau eiga líklega við okkur erindi!!

 

 Enn kem ég til þín íslenska þjóð

 sem átt þér sagnaminningar og ljóð

og byggt hefur þetta blessaða land

í ellefu hundruð ár.

Goldið afhroð, glaðst og sigrað

Grátið svo þín tár eru perlum öllum dýrri

Okkur þeim sem lifa.

 

 Já það má segja að við höfum goldið afhroð kæra stórfjölskylda en við eigum eftir að gleðjast  aftur og við munum sigra.

austurv_llur.jpg

 

Hægt er að hllusta á allan fundinn á www.ruv.is þar sem fréttin af fundinum er og þar er linkur.

veljið rás 2 ...31.janúar..merkt mótmælafundur á Austurvelli.

 

 2009-01-31

Katrín Snæhólm Baldursdóttir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þú varst alveg frábær kæra Katrín

Sigrún Jónsdóttir, 31.1.2009 kl. 17:56

2 Smámynd: Einar Indriðason

Flott upptalning! :-)

Ég held að nánast allt hafi verið talið þarna upp, sem skiptir máli.

Og fín ræða! :-)

Einar Indriðason, 31.1.2009 kl. 18:03

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú varst algjörlega brilljant.  Sat opinmynt við útvarpið og drakk í mig hvert orð.

Ég er svo stolt af þér.

Jenný Anna Baldursdóttir, 31.1.2009 kl. 18:12

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú varst bara frábær

Hólmdís Hjartardóttir, 31.1.2009 kl. 18:25

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir Katrín innihald ræðunnar var frábær og þú varst glæsileg.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 31.1.2009 kl. 18:37

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Katrín! Ég var svo stolt af þér í dag! Ég fékk gæsahúð af að standa og horfa á þig - og hlusta! Þú varst frábær!

Hrönn Sigurðardóttir, 31.1.2009 kl. 18:48

7 Smámynd: Gunnar Þór Ólafsson

Sýndir og sannaðir,svo ekki var umvillst, að þetta er bara smá áfangi,af langri vegferð.

Hafðu þökk fyrir

Gunnar Þór Ólafsson, 31.1.2009 kl. 21:04

8 identicon

Þetta vara flott ræða hjá þér í dag. Ég mætti á mótmælin í dag, þurfti að vísu að taka á honum stóra mínum til þess, vegna þess að ég get ekki fattað ruglið í röddum fólksins að kalla þetta sigurhátíð. En samt fór ég og fann að hjartað er farið. Fólk er ekki lengur með sama baráttuviljann til að halda áfram. Fyrir mér er þetta búið spil og samstaðan farinn. VG er sigurvegari mótmælana og þar við situr. Ruglið er óborganlegt. VG mælist með 30% fylgi. Það mun ekkert breytast við látum bara aðra um það að kúga okkur. Áður var það Sjálfsstæðisflokkur og Samfylking. Nú er það Samfylking og Vinstri-grænir.  Helvitans focking fock. Ég er svo fúll.

Þórður Möller (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 21:08

9 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Hlustaði á þig í útvarpinu takk fyrir flotta ræðu Katrín!

Ía Jóhannsdóttir, 31.1.2009 kl. 21:39

10 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Takk öll sömul

..en Þórður þetta er ekki búið. Þetta er rétt að byrja svona í augnabliki eilífðarinnar allavega!!!

Það er líklega einhverskonar spennufall í gangi núna eftir mikil áföll sl mánuði og fólk er að ná áttum og safna kröftum fyrir erfiða tíma framundan. En það sem er farið af stað verður ekkert kæft...þessi tilfinning um kraft fólksins mun gjósa upp aftur og aftur og sterkari í hvert sinn...þar til að umbyltingin verður og hvar verður hún?

Í hugarfarinu. Þá er allt hægt. Þeim fræjum sem nú hefur verið sáð í frjóan jarðveg hugmynadlega séð..munu vaxa og brjóta þetta gamla úrelta hugmyndakerfi utan af sér. Svo einfalt er það.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 31.1.2009 kl. 23:11

11 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Sæl Katrín og hjartans þakkir fyrir góða, sanna og skemmtilega ræðu á Austurvelli dag. Ég var stolt af þér og að vera stödd í samstöðunni með fólkinu þennan dag sem aðra daga, gefur mér ótrúlega sterka tilfinningu fyrir þjóð minni. -

Samsöngurinn nærir okkur líka hvar sem við erum stödd í baráttunni.- Ég tók nokkrar myndir, sem þú átt eftir að sjá.

Ég held ekki að það sé uppgjöf í fólkinu, ég hugsa að betra veður en spáð var, hafi rekið fólkið á skíði.  Baráttukveðjur, eva

Eva Benjamínsdóttir, 31.1.2009 kl. 23:56

12 identicon

Heil og sæl; spjallvinkona góð - sem þið önnur, hér á síðu !

Ég hlýddi; á tölu þína, hverja þú fluttir, skömmu eftir nónbil, (í gegnum tölvu mína, hvar ég var upptekinn, í starfi mínu)og það verð ég að segja, Katrín, að væri sami dugur og þor, í öllum íslenzkum kvenna ljóma, þyrftum við lítt, að kvíða framtíð lands og lýðs, sem fénaðar alls. 

Hafðu þökk mikla; fyrir kjark þinn, sem einurð vísa. Sæmd mikil er; að spjallvinskap, við þig, sem aðra ármenn íslenzkra gilda.

Með beztu kveðjum /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 00:15

13 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ræðan þín er frábær, því miður fór ég ekki niður á Austurvöll í gær eins og ég hef gert undanfarna 16 laugardaga.  Það var svo mikill hrollur í mér.  Ég er sammála þér að öllu leiti, við hin íslenska þjóð munum ekki láta yfir okkur ganga aftur.  Við erum vöknuð til lífsins, lifi eldhúsáhaldabyltingin 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.2.2009 kl. 01:44

14 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

UMHVERFIS ÍSLAND Á 80 DÖGUM

Þessi nýja stjórn hefur nú 80 daga til að uppræta eitthvað af þessum 97 löstum sem þú mótmælir.

Var að horfa á myndaband af allri ræðunni þinni og þú stóðst þig vel.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 1.2.2009 kl. 03:09

15 Smámynd: Heidi Strand

Takk fyrir að birta hana og takk fyrir í gær!

Ræðan var frábær og vel flutt. Ég drakk líka í mér hvert einasta orð!

Heidi Strand, 1.2.2009 kl. 09:43

16 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það er aldeilis frábær ræða. Þú færð mitt atkvæði.

Arinbjörn Kúld, 1.2.2009 kl. 10:23

17 Smámynd: www.zordis.com

Til Hamingju með að vera svona sannfærandi í þínu eðli. Bara frábær og einlæg ræða sem þú hefur flutt með miklum krafti!

Fingurkoss til þín og þinna!

www.zordis.com, 1.2.2009 kl. 11:50

18 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Þú varst frábær í gær. Innspýting og kraftur!

Soffía Valdimarsdóttir, 1.2.2009 kl. 13:15

19 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæl Katrín!  Ég vissi nú að í þér logaði eldur en með árunum hefur þú magnað hann verulega með visku og þroska.

Við þurfum nauðsynlega að  virkja eldinn þinn og kærleiksvitundina til starfa á Alþingi. 

Til hamingju með frábæra ræðu. 

 Kveðja til Óla.

Sjáumst og heyrumst. 

Guðbjörn Jónsson, 1.2.2009 kl. 15:04

20 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

meira svona

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 1.2.2009 kl. 19:50

21 identicon

Sæl Katrín.

Alveg magnað hjá þér.

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 21:34

22 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Flott ræða hjá þér Til hamingju.

Já við erum að stíga ný skref inn í nýtt og betra Ísland, smátt og smátt og við verðum að vera á verðinum.  Engan doða meir.  

Margrét St Hafsteinsdóttir, 2.2.2009 kl. 00:25

23 Smámynd: Hermann Bjarnason

Þakka þér fyrir þessa ræðu, sem líklega var sú besta hingað til (ef það er eitthvað atriði) og þakka þér fyrir að taka Þórð í meðferð, ég varð þunglyndur bara af að lesa hann hálfa leið...

Hermann Bjarnason, 2.2.2009 kl. 00:42

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Missti af þér, en ætla að finna linkinn og hlusta á þig.  Líst vel á ræðuna þína.  Við þurfum meira svona miklu meira ef okkur á að takast að stinga á graftrarkýlinu.  Mig hefur dreymt undarlega undanfarið, í nótt til dæmis var ég að máta föt, sem ég ætlaði ekki að vera í, og voru fyrir stelpu en ekki fullorðna konu.  Mér finnst þessi draumur dálítið óþægilegur, eins og eitthvað eigi eftir að koma upp á, svo treysti ég ekki Framsókn heldur nægilega vel, til að standa að baki stjórninni, þegar mest þarf á að halda.  En hér þarf miklu meiri breytingar en það sem nú er.  Knús á þig elskuleg mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2009 kl. 09:15

25 identicon

hittir mig beint í hjartað katrín... þúrt töffari..  koss á þig

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 17:05

26 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú ert auðvitað bara mögnuð!! Ég er að rifna af stolti bara út af þér og ræðunni þinni! Þvílíkur kraftur og þvílík viska Frábær upptalningin þín. Ég fékk bara gæsahúð af því að lesa svo ég velti því fyrir mér hvernig það hefði verið að hlusta á þig líka! Katrín þú blómstar og við hin verðum bókstaflega að vaxa með þér! Ef við viljum breytingar þá verðum við að þora að vaxa til þeirra!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.2.2009 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband