Leita í fréttum mbl.is

Að vaða tár upp undir hné.....

Allt gengur vel og ég er búin að læra að vaða tár upp að hnjám. Theodóra bauð vinkonum sínum í kveðjupartý seinnipartinn.Fyrst þurftum við foreldrar að rýma til í dagstofunni og leigja dvd til að horfa á eftir skóla. 8 yngismeyjar komu og skemmtu sér konunglega í pizzupartýi og horfðu svo á mynd sem ÉG fór og valdi fyrir þær.

Sko....mér var sagt að velja svona girly mynd og þegar ég sá hulstur með mynd af tveimur stelpum með hafmeyju á milli sín vissi ég að ég var að gera rétt. Akkúrat mynd fyrir svona ungmeyjar. Töfrar og tindr í allar áttir..hélt ég í fávisku minni. Maður á ALLTAF að lesa aftan á.GetLost

En hvað haldið þið ekki...myndin var um stelpu sem þurfti að flytja burtu frá bestu vinkonu sinni og eftir öll bellibrögð sem þær kunnu varð endirinn samt sá að önnur þeirra varð að flytjast burtu og þær grétu yfir vinkonuslitunum sem var kannski ekki endilega það sem átti við í kveðjupartýinu. Þetta tiltekna atriði setti í gang atburðarrás sem ég hafði ekki séð fyrir. Breskar konur gráta yfir öllu og stelpurnar þeirra gera það líka og mun kröftuglegar. Ein byrjaði að snökta og hinar tóku undir og áður en varði sat ég uppi með 8 manna grátkór sem ekki bara snökkti heldur hágrétu þær allar sem ein og það runnu tár í stríðum straumum og hor úr nös með. Ekkasogin heyrðust um allt hverfi. Það hurfu tvær klósettrúllur á augabragði og ég óð tár í hné. Hélt meira að segja á tímabili að ein þeirra væri mað astmakast þar sem hún náði varla andanum fyrir gráti og ekkasogum.

Ég sagði alla brandara sem ég kunni, bauð þeim far með gámnum til íslands á laugardaginn, færði þeim kalda drykki og snýtti og þerraði tár en allt kom fyrir ekki. Histerían bara jókst og jókst og ég beið bara eftir barnaverndarnefnd á tröppunum hjá mér til að athuga hvaða gjörningur færi þarna fram.  Ég grátbað stelpurnar um að hætta grátkórnum áður en foreldrar þeirra kæmu til að sækja þær og fara með þær heim og þá grétu þær enn meira og enn hærra þegar þær vissu að bráðum væri tími til komin að kveðjast. Jesús minn hvað þetta var mikil tragedía. Þetta ástand varði í um það bil 50 mínútur og þegar mæðurnar loksins komu til að losa mig úr þessari grátkórsprísund ...grenjuðu þær bara líka.

Setti meira að segja Queen tónlist á í dvd til að fá  þær til að hætta og kannski gleyma sér í dansi...og diskói en þegar Freddy Mercury söng eitthvað lag með tárin í augunum þá brast bara á stórflóð sem sló út öllum sumarrigningum hér.

Loksins þegar grátkórinn hafði verið fjarlægður af grátandi mæðrum settist ég niður til að slappa af eftir öll ósköpin. Á veggnum á bak við mig birtist þá stærsta risakönguló sem ég hef á ævinni séð sem var snarlega sett undir glas með indverska matseðlinum sem undirverju og skutlað í garð nágrannans með það sama. Það eru nú takmörk fyrir hvað konuhjarta þolir á einum degi. Segi það satt!!!! Á morgun verður borðað af pappadiskum og sofið á vinsængum þar sem flest allt annað er nú í kössum. Stundum væri ég til að vera bara í kassa.

Í dag hélt ég svo mína fyrstu og vonandi einu einkasýningu á risaolíumálverki þar sem verkið snéri eingöngu uppí loft. Þurfti að sækja verkið í gallerí hér í bæ sem komst ekki í neinn bíl svo við skelltum því á toppinn á bílnum og vorum með hendur út um alla glugga til að halda því á sínum stað. Þetta var einkasýning fyrir englana sem flögra stöðugt yfir og allt um kring. Og megi þeir vera með mér það sem eftir er af þessum gjörningi sem flutningur á milli landa er.

sköpun

Þetta er myndin stóra sem vakti mikla athygli bæjarbúa sem sáu hana ferðast á bílþaki

  og snúa fegurð sinni til himins

Sofið vel öll sömul. Ég þarf sko að leggja mig og safna kröftum fyrir komandi daga. Eitt veit ég þó eftir uppákomur dagsins. Ég er íslenskur tilfinningalegur tréhestur.  Gat ekki annað enn skellihlegið af þessum tárgjörningi. Já ég er frenja með meiru!!!

Allar breytingar taka í og það er bara hluti af ferðinni að fara reglulega

 með tilfinningarússibananum UPP OG NIÐUR.

Thats life!

.

 


Þórbergur siglir meðan ég glósa um líf mitt

Í  gær pakkaði ég skrifstofunni og vinnuherberginu. Nú eru allar mínar bækur í boxum og viskan mín og vitið mitt fóru þar ofan í líka. Ég datt inn í að lesa allar glósubækurnar mínar og mikið lifandi skelfingar ósköp var það gaman. Ekkert smá sem kona er búin að læra margt skemmtilegt og skrítið á þessu ferðalagi sínu. Glósulesturinn var hinsvegar glórulaus í miðjum hamagangi við flutninga  og rændi mig tíma svo vinkona mín ætlar að koma á eftir og hjálpa mér að setja eldhúsið í box. Svo þarf að vefja málverkum í loftbóluplast og koma skúlptúrurm vel fyrir með mjúkum klæðum í trékassa. Þórbergur leirhaus og vitringurinn sem er annar leirhaus fara saman í kassa svo þeir geti átt heimspekilegar samræður meðan þeir sigla á milli landa. Þá geta þeir sagt þegar þeir stíga á land með örlitlum rembingi að þeir séu afskaplega vel sigldir.

Það verður að koma öllu haganlega og vel fyrir. Ekki mega verðmætin mín fara að hoppa og skoppa um allt út á miðju hafi í maga skips og koma svo öll tætt og sundruð heim.

tveir læknakallar

Á laugardaginn kemur svo gámurinn klukkan níu núll núll og við fáum þrjár klukkustundir til að pakka öllum okkar jarðnesku verðmætum þar inn áður en honum verður svo kippt upp til Immingham og siglt af stað til íslands. Við eigum svo flug á fimmtudaginn og þangað til ætla ég að haga mér eins og betlikerling og leggjast upp hjá hinum og þessum með mitt fólk og sníkja mér svefnpláss og matarögn. Mér segir samt svo hugur að við verðum að mestu leyti í heimsókn hjá ömmustelpunni Alice Þórhildi og hennar foreldrum.

Myndin sem fylgir þessu bloggi er af læknaköllum með epli og appelsínu og tilheyra barnabók sem ég skrifaði einhverju sinni. Hef ekki aðgang að myndasafninu mínu svo ég notast bara við það sem er hendi næst. Skilaboðin með þessari mynd eru svo auðvitað..Munið að borða hollt!!!

Maður á næra sig með góðu, bæði andlega og líkamlega og þá verður allt í himnalagi og augun á manni breytast í stjörnur.

Elska ykkur mestHeart 

 


Bloggfærslur 17. október 2007

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband