Leita í fréttum mbl.is

Gef þér 5 myndir og þú býrð til sögu

sjónhverfingar

218639

10046791200293410-001

clownsand the bible

Notaðu nú hugmyndaflugið og búðu til sögu út frá þessum myndum.

Verðlaun í boði fyrir bestu söguna!!! Sá/sú sem kemur með bestu söguna fær að velja sér print úr galleríinu mínu. Printin eru stærð A4 eða A3.

Bloggarar kjósa svo bestu söguna á miðvikudaginn!!! Og látið nú hugmyndaflugið fljúga!!Wizard

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Draumurinn var svo raunverulegur að ég hentist upp úr rúminu. Ég var að leika töframann sem í stað þess að henda fimm kúlum eða keilum upp í loftið og grípa aftur og aftur, henti ég einhverjum furðulegum hlutum upp svo sem skó, stól og fiðlu. Mér þótti verst að henda fiðlunni hún var svo töfrandi.

Baksviðs, ég var sko á leiksviði, þvældist svartur köttur sem mér fannst í draumnum boða eitthvað slæmt og það rættist þegar hann felldi stigann sem ljósameistarinn var að vinna í og ljósameistarinn datt á gólfið.

Svo furðulegur var draumurinn að við skellinn var ég allt í einu komin út í Guðs græna náttúruna og var að leika á flautu, af hverju ekki fiðluna hugsaði ég í draumnum, ég hef alltaf verið heilluð af fiðlutónlist, sérstaklega þegar henni er beitt í sveiflandi írskum takti. Ég hafði sett húfuna mína á grasbalann sem ég stóð á og allir sem framhjá gengu hentu smápeningum í hana. Þegar ég hætti tók ég húfuna mína upp og taldi saman spesíurnar sem í henni voru. Þetta voru heil auðæfi. Ég kom spesíunum fyrir í vasaklútnum mínum, batt fyrir og hélt á næstu kaffistofu þar sem ég fékk mér kaffi með rjóma.

Hvað á ég nú að gera við alla þessa peninga hugsaði ég. Ég hef allt til alls og þarf ekkert meira. Í sama bili og ég gekk út af kaffihúsinu gekk framhjá hópur töturlegra búinna barna. Þetta voru greinilega munaðarleysingjar af einhverju hælinu í grennd. Ég leit í kringum mig og kom þá auga á bókabúð við hliðina á kaffihúsinu. Ég fór inn í hana og spurði eftir ævintýrum fyrir börn. “Þau eru hér” svaraði afgreiðslumaðurinn. Ég greip í hvelli nokkrar bækur sem ég hafði lesið sem barn og vildi að allir læsu. “Ég ætla að fá þessar” sagði ég. “Allar” spurði afgreiðslumaðurinn, “já allar og röndótta sokka fyrir afganginn”. Ég sá í svip afgreiðslumannsins að honum fannst ég meira en svolítið skrítin. Þegar ég hafði fengið innkaupin afhent í stórum poka hljóp ég út úr búðinni og á eftir tötralegu börnunum. “Halló, halló kallaði ég, þið megið eiga þetta. Þetta eru ævintýri og þegar þið verðið leið, lesið þau þá og klæðið ykkur í röndóttu sokkana og heimurinn skiptir um lit.

Ég sat lengi á rúmstokknum og hugsaði um drauminn. Voru þetta einhver skilaboð til mín og þá hvaðan. Ég læddist fram í tölvuherbergið og setti þetta allt á blað.

Eg. (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 06:53

2 Smámynd: www.zordis.com

Þú stendur þarna, svalur og mannalegur tilbúin að gefa allt, fórna öllu fyrir fíflaskapinn.  Vissulega hár og myndarlegur en það er kanski meira er glittir á bak við kumpánalegan drenginn. 

Eitthvað í sál minni vildi varast hann en hann hafði svo sterkt afl að ég hafði vart augun af honum.  Ríkur eðalbóndi stóð við ekrur sínar og bauð af sér yndisþokka, kunni lag á meyjum, töfraði fram orð ástar er létu sál mína snortna!

Á ég að láta til leiðast, taka á þeim hættum sem lífið bíður uppá, vera það sjálf er guð sendi á jörðina ..... stikla yfir þyrna, lenda í dúnmjúkum knúbbum og taka stjórn hugar míns.  Innst inni leið mér eins og strengjabrúðu sem átti það til að falla niður, liggja flöt og tóm þar sem lífið er ekki bara dans á rósum.

Veröldin er tilgerðarleg á stundu, eitthvað svo undarlega hjáróma, eilíf blekking.  Tónar fylla eyru mín og ilmur leggst fyrir vit mín ....

Ég teygi úr mér og opna stýruleg augun og rifja upp drauminn, þetta var bara draumur.  Ég horfi á elskulegan eiginmann minn standa með rjúkandi kaffibolla, úr augum hans blikar ástin.  ég dreypi á kaffinu minu og sé að maðurinn minn er orðin ansi laginn með froðuna ... Í dag er það páfugl.

Snillingurinn minn, búinn að klæða börnin í litlu trúðagallana sína, það er kominn nýr dagur, ný sýning!  Hin eilífa bók er í ritun og endalokin eru orðin þín .... leikur minn .... Sagan endalausa heldur áfram eins og gömul hringekja í Circus Billy Smart!  Amen og adios!

 "Kveðjur á sólríkum sumardegi" 

www.zordis.com, 24.4.2007 kl. 07:16

3 Smámynd: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Þú getur engann veginn haldið öllu á lofti, sagði eiginkonan við manninn.  Heldur þú virkilega að þetta gangi ekki án þín?  Hvað myndi gerast ef þú yrðir veikur eða lentir í slysi?  Færi þá allt fjandans til?  Veistu ekki að það er enginn ómissandi?  Reyndu heldur að njóta dagsins og vera ekki með áhyggjur heimsins á herðunum.

Ég sé hræðsluna í augum hans- hræðsluna við að mistakast - hugsaði hún.  Hann er bara hræddur, hræddur við hvað gerist ef hann sleppir takinu.  Hann heldur að það hrynji allt í kringum hann.  Elsku kallinn minn - hann nær líklega aldrei þessari ró sem þarf til að lifa hamingjusömu lífi.  Þetta er líklega komið úr uppeldinu og erfitt að breyta.  Gamlar kreddur, eitthvað sem hægt væri að líkja við hjátrú.  Að eiginmaðurinn þurfi, verði, skuli sjá til þess að allt gangi.  Kannski er hann hræddur við mitt sjálfstæði.

Ég vildi óska að hann gæti notið dagsins, vorsins, haustsins, vetrarins.  Vera ekki stanslaust á verði - eins og veiðimaður sem er að fylgjast með bráðinni - viðurværinu.  Það er nefnilega svo merkilegt hvað lífið gengur vel - þegar maður er ekki að reyna að stjórna því sem gerist í kringum mann.  Flestir hafa nóg með að opna augun og taka á móti deginum.  Njóta og leika sér - það er eitthvað sem flestir ættu að gera.

Hún ákvað að hætta að hafa áhyggjur - hún gat ekki tekið ábyrgð á hans lífi.  Hún naut þess að sjá hvernig að meira að segja froðan í kaffinu hennar sýndi myndir - og í dag var það Páfuglinn.  Skartaðu fjöðrunum sagði dagurinn í dag.

Taktu lífinu með hæfilegri blöndu af gleði og alvöru.  Gerðu grín af gömlum kreddum.  Trúðu því sem þú vilt trúa.  Mundu bara að þú þarft ekki að "trúa" á álfa - þótt þeir séu til.  Trúðar eru til - en þú þarft ekki endilega að trúa á þá........... En þú mátt endilega hafa gaman að þeim - eins og lífinu.

Hún lokaði svefnherbergishurðinni og valhoppaði út í daginn - hennar dag.

Ingibjörg Gunnarsdóttir, 24.4.2007 kl. 08:56

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flottar sögur.  Ég þarf nú aðeins að hugsa mig um.  En þetta er skemmtilegt verkefni Katrín mín.  Það sem þínum frjóa huga dettur í hug til að gleðja okkur hin. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.4.2007 kl. 09:12

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Flott hugmynd.  Læt öðrum eftir söguskrifin enda þessar sem komnar eru alveg frábærar.  Smútsj

Jenný Anna Baldursdóttir, 24.4.2007 kl. 11:55

6 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Hér eru snillingar á ferð um síðuna. Geta það sem hugur stendur til. Óttast ekki hjátrú en njóta tónlistar lífsins yfir alvöru kaffi. Bregða sér í gleðigerfi og lesa Upphafið.

Humm....

Það er mikilvægt að það séu líka til sögur fyrir þá sem vilja hafa hlutina sagða í fáum orðum

Knús 

Guðrún Þorleifs, 24.4.2007 kl. 12:54

7 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Einu sinni var maður sem var mikill hagleiks smiður. Allt lék í höndunum á honum. Hann hafði gaman að því sem hann gerði og gladdi marga með smíði fagurra hluta. Ekkert var honum óviðkomandi varðandi handverk og smíði.

Hann bjó einn ásamt kettinum sínum sem var skemmtilegur og fjörmikill. Hann átti það til að velta um hlutum á vinnustofu smiðsins svo mikill var gassagangurinn.

Það skemmtilegasta og jafnframt það erfiðasta sem smiðurinn tók sér fyrir hendur var smíði hljóðfæra. Var hann eftirsóttur hljóðfærasmiður. Hamingja hans var fullkomnuð þegar hann heyrði undursamlega tóna hljóma frá hljóðfærinu sem hann hafði smíðað og ánægju og gleði viðskiptavinarins.

Gestum sínum og viðskiptavinum bauð hann upp á ilmandi kaffi og bar það fram af stakri snilld listamannsins. Hann lagði alúð við uppáhellinguna og ilmurinn og bragðið örvaðu sköpunarkraft hans.

Í frítíma sínum fór hann gjarnan í leikhús og hafði einstaklega gaman að skopleikjum og gríni hverskonar. Hann var trúaður en var sannfærður um að Guð væri mikill húmoristi og að viska hans endurspeglaðist ekki aðeins í prestum og siðapostulum heldur öllum og ekki hvað síst í gríni og skopi hvers konar.

Hann var ánægður með lífið.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 24.4.2007 kl. 16:08

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Rosalega eruð þið frábær!!! Ég bjóst satt að segja ekkert frekar við neinum sögum en svo bara eruð þið hvert öðru snjallara hér. Meiriháttar. Hlakka til að fá fleiri í samkeppnina og svo velja lesendur bloggsins uppáhaldssöguna sína á morgun og fá þá að velja sér eftirprentun af málverki í galleríinu hér við hliðina í verðlaun.

Eigum við ekki bara að segja að sögustundin standi til klukkan 5 á morgun og kosning svo fram að miðnætti?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.4.2007 kl. 17:27

9 identicon

Er einhver hámarkslengd á sögum?

Soll (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 21:51

10 identicon

Föstudagurinn þrettándi

Föstudagurinn 13. apríl byrjaði eins og hver annar dagur. Það var rigning, svo að ég greip með mér regnhlíf áður en ég lagði af stað í vinnuna. Ég fer alltaf af stað á slaginu átta og gef mér góðan tíma til að ganga niður í bæ.

Ég var varla kominn út á gangstétt þegar svartur köttur kom hlaupandi yfir götuna og skaust inn í húsasund. Eflaust hefði einhver séð þetta sem slæman fyrirboða, sérstaklega á þessum degi, en ég er ekki hjátrúarfullur maður.

Þennan dag virtist rigningin koma úr öllum áttum, svo ég hraðaði mér áfram. Neðarlega á Laugaveginum hafði einhver skilið eftir stiga sem hallaðist upp á húsinu. Ég ákvað að ganga undir stigann, bara til þess að sýna að ég væri ekki hræddur við hindurvitni.

Mér varð litið til hliðar, þegar ég bjóst til að ganga undir stigann. Í kjallara hússins var kaffihús, sem ég hafði aldrei tekið eftir áður. Þó að klukkan væri ekki orðin hálf níu var búið að opna og freistandi ilmur af kaffi barst út um hálfopnar dyrnar. Ég ákvað að vera djarfur og fá mér einn kaffibolla, áður en bankinn opnaði.

Stúlkan við afgreiðsluborðið var með sítt, svart hár og fallega græn augu undir síðum toppi. Hún talaði með örlitlum hreim, sem gerði hana enn meira aðlaðandi. Ég pantaði cappucino og fékk mér sæti. Skömmu síðar kom stúlkan með kaffibollann. Hún hafði skreytt froðuna með mynd af páfugli. Ég þakkaði henni fyrir og hún brosti til mín. Viltu ekki frekar sitja hérna á bak við? sagði hún, og benti á þungt, dökkgrænt flauelstjald sem hékk við endann á salnum.

Venjulega hefði ég setið kyrr og klárað kaffið, en eitthvað við þessa stúlku gerði mig forvitinn, svo ég fór á eftir henni á bak við tjaldið. Þar tók við lítill glerskáli og þaðan var hægt að ganga út í trjágarð. Í garðinum var margt fólk saman komið og einhver sýning virtist vera í gangi. Þarna var töframaður með pípuhatt sem lék sér að því að kasta alls kyns hlutum upp í loftið, trúðar sem skemmtu áhorfendum og piltur sem lék á flautu.

Það hafði stytt upp og engin bleyta var sjáanleg í garðinum. Ég leit í kringum mig eftir stúlkunni, en sá hana hvergi. Þá tók ég eftir svarta kettinum sem spásseraði á milli fólksins. Var þetta sami kötturinn og ég hafði séð fyrr um morguninn? Nei, það gat ekki verið. En ég ákvað samt að elta köttinn og fljótlega sá ég stúlkuna aftur við enda garðsins. Hún benti mér að setjast hjá sér og við horfðum saman á skemmtunina.

Allt í einu varð mér litið á klukkuna. Hún var næstum orðin níu og ég var orðinn of seinn. Á tíu ára ferli hafði ég aldrei komið of seint. Ég stóð snögglega upp, svo að skvettist úr kaffibollanum. Stúlkan reyndi að fá mig til að vera lengur, en ég varð að fara. Ég tróðst í gegnum mannfjöldann og það virtist vera helmingi fleira fólk þarna en mér hafði sýnst í fyrstu. Loksins komst ég þó fram fyrir græna tjaldið, inn á kaffihúsið og út á stétt.

Það var aftur byrjað að rigna þegar ég kom út og ég hljóp við fót niður Bankastrætið. Ég kom sveittur og andstuttur í vinnuna og muldraði einhverjar afsakanir, um leið og ég kom mér fyrir á mínum stað. Mér varð samt lítið úr verki, aldrei þessu vant. Allan daginn sá ég fyrir mér grænu augun og vonbrigðin í svip stúlkunnar, þegar ég fór. Ég hafði ekki einu sinni spurt hana að nafni!

Eftir vinnu hraðaði ég mér upp Bankastrætið. Ég var ekki lengi að finna húsið, þó að stiginn væri horfinn. Þarna var kaffihúsið ennþá, en stúlkan var ekki lengur að afgreiða. Í hennar stað var kominn feitur maður með þunnt hár og fýlusvip. Ég spurði hann hvort stúlkan sem hefði verið að afgreiða um morguninn væri við, en hann þóttist ekki skilja mig. Það vinnur engin stelpa hér, svaraði maðurinn stuttaralega. Bara ég og konan.

En ég kom hingað um hálf níu og hún var á bak við afgreiðsluborðið, mótmælti ég. Við opnum ekki fyrr en klukkan tíu, sagði maðurinn og sneri sér að kaffivélinni. Ég æddi að enda kaffihússins og svipti græna tjaldinu til hliðar. Þar blasti við mér grár veggurinn. Hvar er garðskálinn? spurði ég manninn. Það hnussaði í honum. Garðskálinn? Hvað heldurðu að þetta sé? Hér er bara þessi salur og svo eldhúsið á bak við.

Ég hrökklaðist út á gangstéttina og gekk heim. Þar reyndi ég að dreifa huganum, en það eina sem ég gat hugsað um var stúlkan. Hver var hún? Hvaða fólk var þetta? Hvaðan komu þau? Ég leitaði að upplýsingum um erlendan sirkus eða töframenn sem gætu hafa verið í heimsókn, en enginn slíkur hópur var í bænum. Ég setti smáauglýsingu í dagblaðið, en enginn svaraði.

Stundum sé ég dökkhærðar stelpur með sítt hár og elti þær uppi, en það er aldrei hún. Mig dreymir hana á nóttunni og þegar ég vakna heyri ég óminn af flautuleik. Ég hef mörgum sinnum farið aftur á kaffihúsið og ég hef skoðað alla bakgarða við Laugaveginn, en ég hef aldrei fundinn garðinn aftur.

Soll (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 23:28

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þessi síðasta saga fær mitt atkvæði.  Flott saga.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.4.2007 kl. 20:08

12 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

síðasta sagan (eftir soll) fær mitt atkvæði

Hrönn Sigurðardóttir, 25.4.2007 kl. 23:04

13 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Sagan eftir Soll fær líka mitt atkvæði, minnir svolítð á Lísu í Undralandi. Frábær!

Svava frá Strandbergi , 26.4.2007 kl. 01:13

14 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Ég get því miður enganveginn gert upp á milli sagnanna. Ég er búin að lesa þær allar nokkrum sinnum.
Saga Soll þykir mér besta sagan, EN ... ég sé að sumir aðrir hafa lagt sig fram um að innihalda ALLAR myndirnar, og jafnvel í sömu röð og þær eru settar fram, sem er vandasamara - og því ekki líku saman að jafna.
Erfitt að meta þar sem leikreglurnar segja ekki til um hvort sagan hafi átt að innihalda ALLAR myndirnar, (ég skildi það raunar þannig).

gerður rósa gunnarsdóttir, 26.4.2007 kl. 07:27

15 Smámynd: www.zordis.com

Hún er gód sagan hjá Soll og er heilmikill aevintýra blaer, ekki laust vid sígaunastemmingu!  Frábaer leikur, takk fyrir ad vera eins yndisleg og zú ert!  Annars fanst mér allar sögurnar fínar og verdugar! 

www.zordis.com, 26.4.2007 kl. 10:28

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já þetta er góður punktur hjá þér Gerður.   Mér finnst allar sögurnar mjög flottar.  Það er samt eitthvað við söguna hennar Soll, eða hans, sem er seiðandi og dularfullt.  En mig langar til að prenta þær allar út og eiga.  Ætli maður megi það ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.4.2007 kl. 12:16

17 identicon

Takk takk.

Ég hélt reyndar að ég hefði notað allar myndirnar, að vísu mismikið. En takk fyrir falleg ummæli og takk Katrín fyrir að gefa mér eitthvað annað að gera eina kvöldstund en að læra eða horfa á sjónvarpið.

Það er alltaf vel þegið.

Soll (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 15:24

18 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Í garðinum var margt fólk saman komið og einhver sýning virtist vera í gangi. Þarna var töframaður með pípuhatt sem lék sér að því að kasta alls kyns hlutum upp í loftið, trúðar sem skemmtu áhorfendum og piltur sem lék á flautu.

Ég las hana þannig að allar myndirnar hefðu komið fram og mér sýnist það vera alveg rétt og sé texta um allar myndirnar í sögunni..en það hefði samt ekkert skipt megin máli. Aðalatriðið var að fólk skrifaði og skapaði skemmtilegar sögur. Og þín var frábær.

Mundu að senda mér mail svo ég geti sent þér verðlaunin þín Þarf nefninlega að fara á pósthúsið á morgun og senda nokkur print anyway.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 26.4.2007 kl. 16:51

19 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

ókei :)
Sagan var flott. Punktur.

gerður rósa gunnarsdóttir, 26.4.2007 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 310935

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband