Leita í fréttum mbl.is

Ævintýrasögukeppni fyrir hugmyndaríka bloggara!

galdramaðurdragon06200165164-001

51F5AFX81ML__AA280_spámaður10175986

10129101

Jæja mér fannst alveg kominn tími til að hafa ÆVINTÝRA sögukeppni meðal bloggara og hér eru 7 MJÖG spennandi myndir til að vinna með og leyfa hugmyndafluginu að fljúga. Keppnin stendur fram á sunnudagskvöld og svo verður kosið um besta ævintýrið á mánudaginn.  Verðlaun eru eins og áður eftirprentun af einhverri mynd úr galleríinu mínu hérna við hliðina.

Góða skemmtun.

ATH að ævintýrið þarf að vera í samræmi við myndirnar sem fylgja og helst í réttri röð en það er þó ekki aðalatriði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gerða Kristjáns

Frábær hugmynd hjá þér, ég hinsvegar hef ZERO hugmyndaflug þannig að ég segi pass
Fylgist spennt með sögunum fljóta inn

Gerða Kristjáns, 25.5.2007 kl. 22:24

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Enginn hefur ZERO hugmyndaflug....án þess værir þú ekki til kerla mín. Bara að skrifa það fyrsta sem kemur upp í hugann og tengja það svo saman..voðalega skemmtilegt. Endilega prufiði. Aldrei að vita hvað kemur..The Muses..eða listagyðjurnar eru alltaf vakandi og tilbúnar að aðstoða. Ég er búin að búa til 4 sögur út frá þessum myndum en ég er ekki með þar sem ég er STJÓRNANDINN

Bíð spennt etir frábærum ævintýrum ykkar.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 25.5.2007 kl. 22:37

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Sagan gerist í Marokkó árið 823.  Síðasta risaeðlan vappaði um strætin í leit að æti.  Ekki var margt um góða bita fyrir eðluna því Hrólfur ljónshjarta var við völd og hann var grimmari en ljón.  Hann hafði dálæti á eðlusúpu og var í raun valdur að því að risaeðlur dóu út.  Fátæk stúlka, Anna að nafni, var á heimleið og mætti eðlunni.  Stúlkan hafði náðargáfu og gat spáð fyrir um framtíðina.  Hún mælti:  "Eðla mín, þar sem þú ert ein eftir, spái ég því að þú munt ekki geta fjölgað þér og því eru örlög þinnar dýrategundar ráðin.  Risaeðlur munu deyja út".  Í sama mund flugu yfir himneskir fuglar.  Táknrænt.  Risaeðlan dó skömmu síðar úr sorg og er núna lítið englabarn á himnum. 

Skömminni skárra en að enda sem eðlusúpa. 

Anna Einarsdóttir, 25.5.2007 kl. 23:17

4 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

ÆÆ ég er að fara til Eyja um helgina og hef ekki aðgang að tölvu ...

Pálmi Gunnarsson, 25.5.2007 kl. 23:46

5 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

                           Örsaga
 

Í dyrunum stendur einmana og kvíðin manneskja.

Á hún að hætta sér út og takast á við drekann?

Verða einhver ljón í veginum? 

Eða er hún of smá og veikbyggð fyrir heiminn?

Heiminn sem er aldrei  fyrirsjáanlegur.

Hana langar að hverfa aftur til áhyggjuleysis æskunnar 

þegar hún hélt að allt væri gott og einfalt

eins og saklaust lítið barn.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 25.5.2007 kl. 23:48

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Frábær þáttaka og fínar sögur. Endilega látið ekki ykkar eftir liggja...skrifið hér ævintýri lífs ykkar okkur hinum til gleði.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 26.5.2007 kl. 00:43

7 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

æi, fer á þrjá fundi í dag, hoppa frá.

gangi ykkur vel og ljós til þín katrín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 26.5.2007 kl. 05:45

8 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Vildi ég hefði tíma til að búa til sögu. Hef ekki einu sinni tíma til að lesa sögurnar núna :/

gerður rósa gunnarsdóttir, 26.5.2007 kl. 07:20

9 Smámynd: Ingi Geir Hreinsson

Drengurinn varð að yfirgefa heimabæ sinn vegna þess að foreldrar hans gátu ekki lengur alið hann.

Faðir hans var afar sorgmæddur en móðir hans lét sem henni væri sama. Drengurinn gat ekki skynjað hennar raunverulegu tilfinningar.

Hann reiddist mjög þegar hann gekk á brott en hræddist þegar honum fannst skrýmsli brjótast um í brjósti sínu.

Drengurinn eigraði um mánuðum saman. Að lokum gekk hann fram á tjaldbúðir. Þar gekk fram á hann valdamikill maður, þrútinn og þjösnalegur í fyrstu en reynist drengnum vel að lokum.

Gaf honun fyrst trúarlegt uppeldi en leiddi síðan inn í leyndardóma alheimsins.

Drengurinn dafnaði og fylgdi sínum draumum þvert yfir landið, öllum til bóta.

Dauði hans var sorgardauði nema hvað að hann hafði lifað fullu lífi, brotist undan takmörkunum sínum og náð því að vera hreinskilinn og blátt áfram við alla sína meðbræður og systur.

?

Ingi Geir Hreinsson, 26.5.2007 kl. 08:55

10 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þetta verður að bíða um sinn.

Kristín Katla Árnadóttir, 26.5.2007 kl. 10:32

11 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég les sögurnar hef ekki orku í aukaskrif akkúrat núna.  Myndirnar eru æði og bjóða upp á falleg ævintýri.  Knús elskan og batakveðjur til you know who

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.5.2007 kl. 14:18

12 Smámynd: www.zordis.com

Augu þess gamla lygndu aftur, ævin að baki stútfull af allskyns ferðum um frumskóg lífsins. Eina stundina brosti hann yfir tímanum og hina stundina átti hann erfitt að muna tilgang þann sem drottinn launaði honum.

Í gættinni horfði hann til síns heima þar sem ævintýrin gerast enn, þar sem enginn er hólpinn fyrir lífi eða dauða.

Í hjarta hans dældi almáttugur blóði veiðimanns, lífskúnstner er flaug í sál sinni á baki eldspúandi dreka, aðdáunarverður veruleiki þess er dreymir. Barátta við styrk lífsins, að bugast ekki þegar hættur standa frammi fyrir þegar konungurinn gefur skipun um heimsyfirráð eða dauða! Konungur sem deilir sömu lífsvídd og músin, hvort um sig tvær dásamlegar verur er bregða sér i líki engla í húmi nætur.

Góð eða Slæm samviska, engill eða púki er tyllir sér á öxl og spyr, “viltu vera memm”

Í kristalskúlu leit og gettu hvað ég sá?

Í frumskógi vaxtar og ærsla tifa hjörtu lífsklukkunnar. Við fæðumst, þroskumst, lifum þar til við deyjum. Í fylgdinni einu, aldrei ein.

Endalokin ævin öll.

Endir og Upphaf.

Veistu hvað ég sá?

Ég sá undursamlegt lif gamla mannsins er dokaði yfir ævinni sinni. Hans timi kom og hann fór sáttur.

Tók hvorki hatt né staf heldur hélt á vit hins nýrra upphafs.

www.zordis.com, 26.5.2007 kl. 16:36

13 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Góðar sögur en ég get ekkert skrifað er galtóm.

Svava frá Strandbergi , 26.5.2007 kl. 18:45

14 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Góðar myndir. Langar að leggjast í skriftir á morgun á milli húsverkjanna. Ætla ekki að lesa fyrri komment ... rúllaði með ljóshraða hingað niður. Sendi á þig ævintýri fyrir annað kvöld. Frábær hugmynd hjá þér. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 26.5.2007 kl. 19:45

15 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

það gerðist endur fyrir löngu, áður en litasjónvarpið var fundið upp, að sérlegur ráðgjafi ríkisins var kvaddur á fund konungs.  Ráðgjafi þessi bjó í þorpi einu á Vestfjörðum, hvar hann þótti bjargvættur mikill og fóru miklar sögur af klækjum hans.  Konungur þessara tíma hét Markaður og átti hann dreka einn ógurlegan sem gegndi nafninu Kvóti. Markaður var elskaður og dáður af hirð sinni, bjargvættum og ráðgjöfum sem notuðu hvert tækifæri að mæra sinn konung og drekann hans.  Færri sögum fer af  vinsældum þeirra hjá almúganum en eins og kónga er siður kúgaði hann þá fátæku og hræddi til stuðnings við sig.  Þegar hér var komið sögu var Markaður konungur búinn að ríkja í mörg ár og dreki hans Kvóti að verða búinn að eyða byggð á stórum svæðum.  Markaður lét drekann leika lausum hala en var forvitinn um framtíðina. Víkjum við því sögunni aftur að ráðgjafanum úr þorpinu fyrir vestan sem kallaður hafði verið á fund konungs.  Hann hafði slæmar fréttir að færa, Kvóti hefði farið um byggðir landsins og eytt nær öllu lífi, sérstaklega í höfnum þess. Verst bitnaði þetta á blessuðum börnunum sem þrátt fyrir sakleysi sitt og höfðu þá einu framtíðarsýn að verða englar.  Að verða englar án þess að hafa nokkurn tímann fengið að vinna og vera fullgildir þjóðfélagsþegnar.  Og þetta var ekki allt, ráðgjafanum til mikillar gremju og hugarangurs las hann úr kristalskúlunni Hafró að eyðileggingarmáttur hins grimma Kvóta væri síst að minnka.  Markaður aftók með öllu að reyna að hemja drekann með einhverjum hætti, slíkt væri gegn eðli hans og algjörlega fráleitt. Ráðgjafanum varð þar ljóst að Kvóti var hættulegur undir stjórn Markaðar.  Hann fór aftur heim í þorpið sitt með það eina ráð að börnin og fólkið allt yfirgæfu þorpið.  Færu og ynnu hjá Markaði konungi.  Þetta þótti fólkinu afarkostir og var hver höndin upp á móti annarri og sumum þótti ráðgjafinn lítill bjargvættur.  Það var þó ákveðið á fjölmennum þorpsfundi að þorpsbúar, allir sem einn, yfirgæfu þorpið sitt.  Flyttu búferlum til borgar óttans og fengu vinnu og húsnæði hjá Markaði konungi.  Þegar síðasti dagurinn rann upp og allir ætluðu að fara kom í ljós að það vantaði tvo unglinga í hópinn.  Fólkið ákvað að segja ekkert en vonaði að pilturinn og stúlkan myndu spjara sig.  En þau struku því þau vildu ekki til borgar óttans. Það kom líka á daginn að þau spjöruðu sig vel, þegar Kvóti og Markaður höfðu misst áhugann á þorpinu og fjörðunum í kring varð þar búsældarlegt.  Næsta kynslóð var tekin við, ein stúlka, einn piltur, eitt barn.

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 26.5.2007 kl. 23:49

16 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Antiklimax: Það var maður sem lifði alls konar ævintýralegu og litríku lífi. Svo dó hann og það lífshlaup var búið. Hann hélt að hann væri blessunrlega sloppinn, en þá tók bara við annað líf og hann fæddist sem lítið fallegt, rúnnað og yndislegt barn. Sorry, end of story.   (Verð ég rekin af blogginu þínu?)

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 27.5.2007 kl. 01:18

17 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Endur fyrir löngu var heimur, svo fjarri hnettinum okkar að þið getið ekki ímyndað ykkur það, sem hét Viskuveröld. Viskuveröld hefði getað verið Paradís að lifa í ef ekki hefði borið skugga á. Allri veröldinni var stjórnað af illum vættum sem einskis svifust til að beygja þegnana undir ógnarstjórnina. Einn var þó sá staður sem hinir illu stjórnendur höfðu engan mátt yfir. Það var völundarhús mikið sem Kveikan hinn aldni vaktaði innganginn að nótt sem dag. Völundarhúsið var trjágarður sem var þeim eiginleikur gæddur að einungis hjartahreinir gátu ratað út úr honum aftur. Menn, dýr og vættir komu þangað í leit að visku og þekkingu og þar sem eiginleikar garðsins voru alkunna var engin hætta á að rekast á vætti úr herdeild Ógnarstjórnarinnar þar. Garðurinn var því sannkallað friðarland fyrir þegnana. Herskáustu meðlimir herdeildarinnar voru illskeyttir Flugdrekar sem nutu yfirráða sinnar og notuðu hvert tækifæri sem gafst til að hrella þegna Viskuveraldar. En Flugdrekarnir óttuðust Völundarhúsið meira en nokkuð annað og þorðu ekki einu sinni að nálgast garðinn á flugi.

Í miðri Viskuveröld stóð höll ein mikil. Í henni bjó æðsti vættur Viskuveraldar og stjórnaði hann veröldinni þaðan, blindaður af eigin græðgi og illsku. Nafnið eitt fékk þegnana til að skjálfa af hræðslu. Ljónið Lekko. Konungur Viskuveraldar. Nafn hans var ekki nefnt nema í ítrustu neyð og þá var því hvíslað.

Hallargarðurinn umhverfis höllina var afar stór og afar fallegur. Hann var skreyttur demöntum og gulli og hellulögð strætin voru lögð safírum og silfri. En öll þessi glitrandi fegurð náði ekki að yfirgnæfa illskuna sem réði þar ríkjum og íbúarnir þráðu ekkert heitar en að komast út fyrir skínandi múrana.

Meðal þeirra sem voru fangar í höllinni voru systurnar Lukka og Lán. Ljónið Lekko lét fjarlægja þær frá fjölskyldu sinni er þær voru hvítvoðungar því hann óttaðist hvað þær gætu gert honum í framtíðinni. Mörgum árum áður hafði ráðgjafi konungs, Spartur, spámaðurinn illi, séð í kristalskúlu sinni, stúlku með vængi og geislabaug frelsa Viskuveröld undan kúgun og ofríki Lekkos. Er Lekko svo frétti af fæðingu Lukku og Láns, stúlknanna með mjallarhvítu vængjarstúfana og gylltu geislabaugana sem lýstu af von og trú, varð hann frávita af bræði og hræðslu og lét færa þær til hallarinnar. Þar voru þær látnar vinna baki brotnu á daginn fyrir mat sínum og á nóttunni voru þær geymdar í hallarturninum. Þær voru þó þakklátar fyrir að fá ætíð að vera saman.

Það sem enginn vissi var að vængjastúfarnir uxu með degi hverjum en féllu í svo þéttum fellingum að baki stúlknanna að þeir sýndust ennþá örsmáir. Fyrir tilviljun komst Lukka að því einn daginn að hún gat flogið stuttan spöl. Aðeins er hægt að ímynda sér vonina sem þetta kveikti hjá systrunum og á laun æfðu þær sig að fljúga og trúðu því í hjarta sínu að einn góðan dag gætu þær svifið yfir himinháa hallarmúrana. En foreldrar og systkini Lukku og Láns höfðu ekki setið aðgerðarlaus. Þeir þráðu að heimta litlu stúlkurnar sínar úr helju og frelsa þær úr klóm Lekko konungs og allra hans illu vætta. Með hjálp Kveikan hins aldna höfðu þau sótt sér visku og þekkingu úr Völundarhúsinu og fundið út tilvist Fannfuglanna. Fannfuglarnir komu frá heimi glitrandi fannar og nýfallins snjós. Þeir voru uppsprettna allra lausna. Hvar sem þeir svifu yfir fjöll og lönd á gríðarlegu vænghafi sínu birti og vonin vaknaði. Vatn spratt upp í eyðimörkum, korn óx á óplægðum ökrum, blindir fengu sýn og lamaðir gengu aftur. Er þeir birtust hlupu börn með þeim og glöddust yfir komu þeirra. Fjölskylda Lukku og Láns lærði með tilkomu Fannfuglanna að frelsari Viskuveraldar, sá sem Lekko konungur óttaðist svo mjög, sá sem Spartur hafði spáð fyrir um, var hvorki Lukka né Lán. Í fylgd með Fannfuglunum kom Frelsi. Undurfagurt ungviði með fannhvíta vængi og geislabaug sem ógjörningur var að horfa á svo bjartur var hann. Frelsi kom inn í líf þegna Viskuveraldar, svífandi í snjókúlu gerðri úr ótal kristöllum sem höfðu töframátt. Hver sá sem andaði þeim að sér féll í djúpan dásvefn. Miklar draumfarir fylgdu þessum svefni þar sem sá dáleiddi lifði sjálfur allt það illa sem hann kunni að hafa gert öðrum í lífinu. Í snjókúlunni sinni sveif Frelsi yfir hallarmúrana og smeygði agnarsmáum kristöllum inn í vit Flugdrekanna og annarra vætta Lekkos. Lekkos sjálfan fann Frelsi sitjandi í hásæti sínu með hugann við næsta illvirki sem hann ætlaði að fremja. Ljónið varð skelfingu lostið þegar það kom auga á undurfagurt ungviðið og gerði sér samstundis grein fyrir því að þarna var kominn frelsari Viskuveraldar. Er kristallar Frelsis byrjuðu að streyma inn í vit Lekkos tók við martröð í illum huga hans, sem ekki sá fyrir endann á.

En þegnar Viskuveraldar þustu glaðir út á stræti og engi og gullslegnar dyr hallarmúranna opnuðust upp á gátt. Upp frá þessu lifðu allir við frelsi og birtu í Viskuveröld og engan skugga bar þar á.

Jóna Á. Gísladóttir, 27.5.2007 kl. 13:18

18 identicon

Einu sinni í ævintýralandinu Akureyri bjó ungur piltur að nafni Doddi. Doddi þessi var fátækur og óskaði sér þess heitt að kynnast stúlku og eignast fjölskyldu og geta séð fyrir henni. En það reyndist Dodda erfitt. Það hins vegar kom að því að Doddi hitti Veigu, fallega sveitastúlku að vestan, og þau felldu hugi saman. Hins vegar vissi Doddi vel að hann þyrfti að gera eitthvað til að geta séð fyrir nýju fjölskyldunni sinni, þannig að hann fór til galdramannsins Sófóklesar sem veitti honum galdrablessun. Næstu árin urðu góð í lífi Dodda og Veigu, en einn daginn kom Sófókles aftur og ætlaði að ná í lífskraft Dodda þar sem samningurinn hafði hljóðað upp á það. Hann hafði blekkt Dodda og því voru góð ráð dýr. Doddi vissi ekkert hvað hann ætti að gera. Hann neitaði fyrst, en þá sendi Sófókles drekann sinn á eftir Dodda og fjölskyldu hans og hann flúði þá með þau inn í skóg nærliggjandi ævintýralandsins Dalvíkur. Drekinn var alltof mikill Akureyringur til að geta látið sjá sig í Dalvík!

Doddi braut heilann og hugsaði mikið: Hvað get ég gert til að bjarga mér út úr þessu? (helvítis smáa letrið á þessum samningum, hugsaði hann) Hann kvaddi fjölskyldu sína og hélt á leið til Júlla, ljónakonungsins í Dalvík, og bað um hjálp. Júlli sagði að Doddi þyrfti að leggja leið sína til englanna tveggja, Katrínar Snæhólm og Zordisar, til að fá hjá þeim englaryk sem myndi hjálpa honum að losa sig og fjölskylduna úr grimmum höndum Sófóklesar. Doddi lagði af stað og ferðaðist og ferðaðist og gekk ... (sem betur fer var drekinn ennþá sveimandi í kringum Dalvík...)

Eftir að hafa fengið englaryk hjá Zordisi og Katrínu, þá var lagt af stað til Gurríjar spákonu á Akranesi. Hún ku geta spáð fyrir um framtíðina. En mikið rosalega var hvíta skeggið á henni skrítið ... voru kannski allar spákonur svona? hugsaði Doddi saklausi. Gurrí sagði að Doddi þyrfti að sáldra englarykinu yfir Sófókles, því þá myndi hann losna úr álögunum og fjölskylda hans líka. Gurrí sýndi honum líka þá framtíðarsýn sem yrði að veruleika ef honum tækist þetta: lítil börn að leika sér undir fallegum vængjaslætti hvítu engisprettanna (en allir vita að hvítar engisprettur eru boði um mikið ríkidæmi og hamingju).

Glaður en kvíðinn hélt Doddi af stað heim til sín. Leið hans tók langan tíma en Doddi safnaði kröftum og áræði til að glíma við Sófókles og drekann hans. Fullur sjálfstrausts mætti Doddi svo til Sófóklesar og sagðist ætla að gefa honum lífskraft sinn, en þess í stað náði Doddi í englarykið og sáldraði yfir Sófókles. Um leið og Sófókles gerði sér grein fyrir þessum brögðum, muldraði hann: "oh damn... ég hefði átt að fatta þetta ... " (og yfir Dalvík sáldraðist nú grátt drekaryk eftir að drekinn fuðraði upp ... )

Sófókles hvarf í eilífðina og við Dodda blasti fögur sýn. Hann hafði létt svo marga úr álögum og við tók eilíf hamingja í héraðinu hans. Veiga sneri aftur til hans, ólétt og ánægð. Svo fannst heiminum réttlátt að Doddi fengi nú storkinn í lið með sér líka á þessum hamingjuríka tíma og sendi hann lítinn engil í sápukúlu til Dodda og skyldi hann verða alinn upp sem raunverulegt barn, en vera tákn þess eilífa friðar og yndislegu fegurð sem ríkti í lífi Dodda um þessar mundir. 

Doddi og Veiga urðu hamingjusöm til æviloka og áttu mörg börn.  

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 13:27

19 Smámynd: www.zordis.com

Ég er búin að ákveða hvaða saga mer finst áhugaverðust ..... má byrja að kjósa???? eða hvað!  Ertu enn í London að dingla þér kæra mín

www.zordis.com, 27.5.2007 kl. 16:34

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég þarf að prenta þetta út og finna mér tíma til að lesa.  Góð ertu Katrín mín.  Ég vildi óska að ég hefði tíma til að vera með.  En þetta er brjálaður tími fyrir  mig.   En ég ætla að lesa þessar sögur og kommentera á þær. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.5.2007 kl. 18:22

21 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það eru reyndra tvær sögur sem bera af hér að mínu mati, en það eru sögurnar hennar Matthildar og Jónu.  Ég held að ég gefi hvorri sögu 1/2 stig.   Annars eru margar góðar sögur hérna.  Og frábært framtak hjá þér Katrín mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.5.2007 kl. 19:34

22 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Besta sagan er eftir Jónu, hún ber ýmis einkenni gamalla ævintýra eins og frásagnarmátann sem er töfrandi í sjálfu sér. Persónurnar  eins og fannfuglarnir og stúlkurnar Lóa og Lukka með vængina eru snilldarvel hugsaðar. Ennfremur er sagan mjög lýrisk og yfirbragð hennar tært og hreint eins og sönnu ævintýri sæmir.

Hin sagan sem fyrst kom til greina hjá mér eftir Matthildi er að mínu mati of augljós áróðurssaga sem mér finnst ekki eiga heima í ævintýri þó hún sé nokkuð góð að öðru leyti.

Svava frá Strandbergi , 28.5.2007 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband