Leita í fréttum mbl.is

Að vaða tár upp undir hné.....

Allt gengur vel og ég er búin að læra að vaða tár upp að hnjám. Theodóra bauð vinkonum sínum í kveðjupartý seinnipartinn.Fyrst þurftum við foreldrar að rýma til í dagstofunni og leigja dvd til að horfa á eftir skóla. 8 yngismeyjar komu og skemmtu sér konunglega í pizzupartýi og horfðu svo á mynd sem ÉG fór og valdi fyrir þær.

Sko....mér var sagt að velja svona girly mynd og þegar ég sá hulstur með mynd af tveimur stelpum með hafmeyju á milli sín vissi ég að ég var að gera rétt. Akkúrat mynd fyrir svona ungmeyjar. Töfrar og tindr í allar áttir..hélt ég í fávisku minni. Maður á ALLTAF að lesa aftan á.GetLost

En hvað haldið þið ekki...myndin var um stelpu sem þurfti að flytja burtu frá bestu vinkonu sinni og eftir öll bellibrögð sem þær kunnu varð endirinn samt sá að önnur þeirra varð að flytjast burtu og þær grétu yfir vinkonuslitunum sem var kannski ekki endilega það sem átti við í kveðjupartýinu. Þetta tiltekna atriði setti í gang atburðarrás sem ég hafði ekki séð fyrir. Breskar konur gráta yfir öllu og stelpurnar þeirra gera það líka og mun kröftuglegar. Ein byrjaði að snökta og hinar tóku undir og áður en varði sat ég uppi með 8 manna grátkór sem ekki bara snökkti heldur hágrétu þær allar sem ein og það runnu tár í stríðum straumum og hor úr nös með. Ekkasogin heyrðust um allt hverfi. Það hurfu tvær klósettrúllur á augabragði og ég óð tár í hné. Hélt meira að segja á tímabili að ein þeirra væri mað astmakast þar sem hún náði varla andanum fyrir gráti og ekkasogum.

Ég sagði alla brandara sem ég kunni, bauð þeim far með gámnum til íslands á laugardaginn, færði þeim kalda drykki og snýtti og þerraði tár en allt kom fyrir ekki. Histerían bara jókst og jókst og ég beið bara eftir barnaverndarnefnd á tröppunum hjá mér til að athuga hvaða gjörningur færi þarna fram.  Ég grátbað stelpurnar um að hætta grátkórnum áður en foreldrar þeirra kæmu til að sækja þær og fara með þær heim og þá grétu þær enn meira og enn hærra þegar þær vissu að bráðum væri tími til komin að kveðjast. Jesús minn hvað þetta var mikil tragedía. Þetta ástand varði í um það bil 50 mínútur og þegar mæðurnar loksins komu til að losa mig úr þessari grátkórsprísund ...grenjuðu þær bara líka.

Setti meira að segja Queen tónlist á í dvd til að fá  þær til að hætta og kannski gleyma sér í dansi...og diskói en þegar Freddy Mercury söng eitthvað lag með tárin í augunum þá brast bara á stórflóð sem sló út öllum sumarrigningum hér.

Loksins þegar grátkórinn hafði verið fjarlægður af grátandi mæðrum settist ég niður til að slappa af eftir öll ósköpin. Á veggnum á bak við mig birtist þá stærsta risakönguló sem ég hef á ævinni séð sem var snarlega sett undir glas með indverska matseðlinum sem undirverju og skutlað í garð nágrannans með það sama. Það eru nú takmörk fyrir hvað konuhjarta þolir á einum degi. Segi það satt!!!! Á morgun verður borðað af pappadiskum og sofið á vinsængum þar sem flest allt annað er nú í kössum. Stundum væri ég til að vera bara í kassa.

Í dag hélt ég svo mína fyrstu og vonandi einu einkasýningu á risaolíumálverki þar sem verkið snéri eingöngu uppí loft. Þurfti að sækja verkið í gallerí hér í bæ sem komst ekki í neinn bíl svo við skelltum því á toppinn á bílnum og vorum með hendur út um alla glugga til að halda því á sínum stað. Þetta var einkasýning fyrir englana sem flögra stöðugt yfir og allt um kring. Og megi þeir vera með mér það sem eftir er af þessum gjörningi sem flutningur á milli landa er.

sköpun

Þetta er myndin stóra sem vakti mikla athygli bæjarbúa sem sáu hana ferðast á bílþaki

  og snúa fegurð sinni til himins

Sofið vel öll sömul. Ég þarf sko að leggja mig og safna kröftum fyrir komandi daga. Eitt veit ég þó eftir uppákomur dagsins. Ég er íslenskur tilfinningalegur tréhestur.  Gat ekki annað enn skellihlegið af þessum tárgjörningi. Já ég er frenja með meiru!!!

Allar breytingar taka í og það er bara hluti af ferðinni að fara reglulega

 með tilfinningarússibananum UPP OG NIÐUR.

Thats life!

.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Hahahahahaha ....fyrirgefðu, ég veit þetta er sko ekkert fyndið... en haha

kannski var þetta bara svona góð tilbreyting frá bloggpælingum dagsins.  Gangi ykkur vel og endilega EKKI koma með risaköngulóarkvikindi með ykkur hingað! 

Ragnhildur Jónsdóttir, 17.10.2007 kl. 23:02

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hahhahaha, ég skellihlæ líka, þetta er dásamleg færsla hjá þér. Vá, hvað ég hlakka til að fá þig heim, snúllan mín.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 17.10.2007 kl. 23:06

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég er í kasti.  OMG, elsku dúllurnar.  Þarna hefði ég smellpassað inn.

Helvítis köngulærnar.  Það er kominn tími á flutning, Katrín Snæhólm Baldursdóttir.  ARG

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.10.2007 kl. 01:13

4 Smámynd: www.zordis.com

Litlu krúttin ... erfitt að skilja við góða vini en aðskilnaður er svo sem ekki endanlegur! 

Þú ert yndi og nú sendi ég þér orange orku í bleikum bunum svo þú hafar kraft til að takast á við pökkunarstarfið fyrir lördag!

www.zordis.com, 18.10.2007 kl. 10:24

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Æ Katrín mín elskuleg, það er bara svo erfitt að segja bless, og þetta var ekki par besta myndin í heiminum í svoleiðis. Sé þetta alveg fyrir mér.  Hissa að þær þáðu ekki boðið í gámnum heim hehehe...

En innrás köngulónna heldur áfram, og næsti íbúi  Þarf að berjast við þessa innrás örugglega frá öðrum hnettil, þær bregða sér í kóngulóarlíki til að vera sem saklausastar útlits, því geimverurnar vita að kóngulær eru uppáhaldsdýrin okkar

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.10.2007 kl. 16:54

6 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

hahahaha nú hló ég. Snilldarmynd sem þú dregur upp af atburðinum og grátkórnum. Ég sé líka mömmurnar fyrir mér koma inn úr dyrunum og byrja að brynna músum.

Jóna Á. Gísladóttir, 18.10.2007 kl. 18:31

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innlitskvitt frá fjöryrkja á hraðferð.

Ásdís Sigurðardóttir, 18.10.2007 kl. 20:49

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Æjæjæ sé þetta ljóslifandi fyrir mér

Sofðu rótt í alla nótt

Marta B Helgadóttir, 18.10.2007 kl. 20:58

9 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Hahahaha ... Þetta er svo fyndið að ég er ákveðin í að taka svona dvd-mynd ef ég flyt einhvern tíma... og bjóða öllum bekkjarsystrum dóttur minnar. 

Anna Einarsdóttir, 18.10.2007 kl. 22:12

10 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þessi frásögn þín er alveg brilliant. Ég sá þetta alveg fyrir mér eins og ég væri að horfa á bíómynd. Er þetta annars ekki ágætis efni í eina stutt- gamanmynd. Hún gæti t.d. heitið 'Grenjuskjóðurnar'.

Hope to see you soon.

Svava frá Strandbergi , 18.10.2007 kl. 23:41

11 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Æi elsku grátkórinn.

Kristín Katla Árnadóttir, 20.10.2007 kl. 11:50

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

 konur konur konur...

Mín aldeilis komin í stuð og stílistinn tvíefldur í skrifunum. Við eigum aldeilis von á góðu ef þetta er byrjunin.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2007 kl. 23:15

13 Smámynd: Agný

Vona að grátkórinn hafi ekki verið falskur.... kór er nefnilega ekki bara kór .. En vertu ánægð með táraflóðið, þessar stelpur/ kerlur voru sko ekkert smá að losa tilfinningar og allan pakkann þarna í gegn.. Þannig að þú veittir þeim fría meðferð í að losa um höft og stíflur...Keep up the good work....

Agný, 22.10.2007 kl. 03:42

14 Smámynd: josira

Kona góð, þú leikur þér með orðin, pensilinn og lífsviðhorfin svo úr verður hin fegursta tónlist eða hinn villtasti dans......þú ert tær snilld á öllum sviðum, frá öllum hliðum...

josira, 22.10.2007 kl. 16:52

15 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sé þig á Fróni Knús

Margrét St Hafsteinsdóttir, 24.10.2007 kl. 18:51

16 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

ææææ ósköp er þetta erfitt, mín sól myndi ekki lifa það af að flytja frá vinkonunum.

falleg mynd hjá þér !

AlheimsLjós til þín

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 24.10.2007 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 311442

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband