Leita í fréttum mbl.is

Eru stjórnvöld hræddari við auðvaldið sem virðist hafið yfir lög og reglur landsins en kjósendur sína. Hvaða hreðjatak hafa auðmennin á valdhöfunum og er vald þeirra tryggt af auðmönnunum??

 Maður spyr sig margra spurninga þessa dagana.

Er það eðlilegt að fyrirtæki sem uppvís verða að því að fara framhjá lögum og reglum fái óáreitt að halda því áfram meðan mótmælendur eru sóttir í vinnu sína og færðir í yfrirheyrslur og skýrslutökur af lögreglunni? Að glæpamennirinir gangi lausir og almenningur sé hnepptur í varðhald fyrir að mótmæla augljósum brotum í stjórnsýslu og framferði ráðamanna og auðmanna.

Svona utanfrá séð þá sýnist mér að ráðamönnum sé hreinlega ekki sjálfrátt, undirförul augnaráð og stam og tuð þegar þeir eru spurðir einfaldra spurninga vekur upp grunsemdir að þeir þori hreinlega ekki að segja neitt sem máli skiptir og standi saman vörðinn.  Vörðinn um auðmennin sem tryggja þeim völdin, ráðamönnunum sem svo aftur tryggja auðmönnunum fjármagnið sem stjórnar öllu hér. Öflin sem leiðast saman í heilögum hring.

Við hin erum bara ómerkileg peð á þessu taflborði sem þetta lið hikar ekki við að fórna í þessu valdatafli sínu og samtryggingu um sameiginlega hagsmuni sína.

Kannski er ég bara einföld kona með hausinn fullan af óþægilegum spurningum. En ég er ekki ein. Við erum þúsundir sem veltum fyrir okkur hvað sé hér í gangi og við vitum að það er eitthvað mjög óhreint. Mjög mjög óhreint. Það er hvergi að finna heila brú af skynsemi eða alvöru hugsun í þessu leikriti. Og við erum hreint ekki tilbúin að sitja undir þessu lengur.

Samfélagið er gjörsamlega gegnsýrt af spillingu og ótta.

Það er ömurlegt að verða vitni að þeim ótta sem hér ríkir meðal almennings. Margir þora hreinlega ekki að taka sér stöðu vegna óttans við að fá á sig stimpilinn að vera á móti stjórnvöldum. Hvar hafa nemendur háskólanna verið..vanalega eru það þeir sem þyrpast fyrstir út á göturnar í andófi gegn spillingu og valdníðslu ráðamanna. Núna er loksins lífsmark þar eftir hundrað daga.. og margir listamenn segjast ekki vilja vera með af ótta við að fá á sig stimpil?? Listamennirnir sem eiga að vera samviska þjóðar og talsmenn.

Stimpil um hvað?? Að taka sér stöðu gegn óréttlæti og arðráni heillar þjóðar??

Hvað er eiginlega búið að gera við fólkið í þessu landi??  Við hvað eruð þið svona hrædd?

Vil samt þakka Einari Má fyrir frábæra pistla sína og ræður. Hann þorir.

En það er líka upplyftandi að sjá og heyra alla þá sem eru að vakna til vitundar og finna samstöðuna og samhuginn meðal þeirra sem þora að standa með sannfæringu sinni og réttlætistilfinningu. Og trúið mér. Á endanum munum við velta valdinu og byggja hér betra og heiðarlegra samfélag á okkar forsendum. Okkar almennings.

En við verðum að standa saman og verða fleiri og fleiri og þannig verðum við sterkari og sterkari. Láta ekki smáatriðin þvælast fyrir okkur og sundra..heldur finna samtöðuna í aðalatriðunum og því sem við getum verið sammála um. Að koma þessu liði frá!!!

Sjáumst á Austurvelli á þriðjudag klukkan 13.00 velklædd fyrir 3ja tíma partý..heitt kakó og súpur á brúsa og látum velhvílda alþingismenn og ráðamenn heyra hvað okkur finnst um FJARVERU  þeirra Á ÖGURSTUNDU. Hvergi í heiminum myndu ráðamenn fara í frí meðan þjóðarskútan væri að sökkva. SKÖMM skulu þeir hafa.

Hvað ætli fari í gegn um huga þeirra þegar þeir sitja í kirkjunni fyrir setningu alþingis?

Boðorðin? Kaup og sala á syndaaflausnum? Hvort það sé rétt að almættið sé alsjándi og sumt verði aldrei falið? Að allt muni að lokum koma í ljós?? Er það sem þau eru svona hrædd við? Að allt muni koma upp á borðið. Og muldra þau þá í hljóði...Guð hjálpi okkur?

Syndir þeirra eru svo stórar og þungar að þær hafa nú sligað heilt þjóðfélag og lagt það í rúst.

Þú skalt ekki ljúga. Þú skalt ekki stela.

Og eitt boðorð skulum við hér og nú búa til fyrir þetta fólk.

Þú skalt ekki setja þinn eign hag eða flokks þíns ofar hagsmunum þjóðar.

Vona að presturinn komi því inn í hjarta þeirra að syndaflausnir verða ekki keyptar og að þegar ráðamenn og embættismenn loks iðrast gjörða sinna muni verk þeirra sýna að þeim sé alvara. . Hættum að hlusta á þá og horfum bara á verkin. Þau tala fyrir þá sannleikann.

Vona að presturinn muni eftir að blessa okkur sem fyrir utan stöndum. Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu. Hvenær ætla svo prestarnir að standa upp með þjóð sinni gegn rammspilltum valdhöfum? Ætlar einhver að rétta okkur hjálparhönd?

Sjáumst á þriðjudag!!! Gerum stærstu mótmæli sögunnar á Austurvelli um leið og við förum í nokkurra klukkustunda verkfall. Í guðanna bænum ekki láta þig vanta.

Þessa þjóð vantar þig!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábær færsla hjá þér og sannarlega valid spurningar.

Steingerður Steinarsdóttir, 18.1.2009 kl. 13:38

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Sjáumst!

Hrönn Sigurðardóttir, 18.1.2009 kl. 14:38

3 Smámynd: SM

Bresku hagfræðingarnir hjá Agli í dag skilja ekkert í þessum vinnubrögðum stjórnvalda hér, lái þeim enginn. Þetta er skemmdarverk.

SM, 18.1.2009 kl. 16:21

4 Smámynd: Auðun Gíslason

Ríkisvaldið er í eðli sínu aðeins framkvæmdavald ríkjandi stéttar, auðvaldsstéttarinnar!  Ef einhver efast, þá má benda á að Viðskiptaráð Íslands (klúbbur auðstéttarinnar) hefur fengið ályktanir sínar um viðskiptaumhverfið leiddar í lög og reglugerðir í 90% tilvika.  Ríkisvaldið gengur fyrst og síðast erinda auðvaldsins!

Auðun Gíslason, 18.1.2009 kl. 20:01

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Heyr,heyr.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.1.2009 kl. 21:30

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Einkennileg tilhugsun að auðmaður hafi hreðjatak á Ingibjörgu Sólrúnu.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.1.2009 kl. 21:40

7 Smámynd: Hulda Bergrós Stefánsdóttir

já maður spyr.......

Hulda Bergrós Stefánsdóttir, 18.1.2009 kl. 22:33

8 identicon

Hræðilegt er hreðjatak

á hrokafullum ráðherra.

Er að drulla upp á bak,

ekkert verður þáverra.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 00:30

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Vonandi sé ég þig á þriðjudaginn, ég ætla að mæta þar.  Með pott og barefli, til þess að skapa hávaða

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.1.2009 kl. 02:10

10 Smámynd: Þór Jóhannesson

Mjög góður pistill Katrín. Meira svona og þú veist að ég tek undir hvert einasta orð þarna. Spillingin ristir svo djúp að manni er farið að verkja við tilhugsunina um að þetta lið er ekki að gera neitt til að verja börnin okkar fyrir frekari hörmungum sem munu dynja yfir heimsbyggðina á vormánuðum þegar bankakerfið í vertrænum heimi fellur með skell.

Þessa setningu þarf að innleiða í næstu stjórnarskrá lýðveldisins:

Þú skalt ekki setja þinn eign hag eða flokks þíns ofar hagsmunum þjóðar

Yfirvöld eru að passa hagsmuni auðmannanna sem eiga flokkana og fólkið í þeim - þeir keyptu það í prófkjörum og öðrum ógeðfeldum útúrsnúningum á lýðræðishugmyndinni. ISG er augljóslega í eigu Baugs - Framsókn í eigu Ólafs Ólafssonar 2.500.000.000 króna ræningja og Sjálfstæðisflokkurinn í eigu Don Vito Bjögga Corlione.

Þór Jóhannesson, 19.1.2009 kl. 03:06

11 Smámynd: Ignito

Hittir algerlega í mark með þessum pistli þínum.  Sikileyjarmafían á ekki roð í þetta lið.

Maður horfir á ástandið agndofa og skilur ekki upp né niður í framferði þeirra sem ráða.

Samt er fólkið í landinu fast í sínu "kaffistofu röfli", hneykslast og kvartar í litlum hópum og jafnvel snýr ástandinu uppí kaldhæðnishúmor, en þegar á reynir heyrist ekki píp og lætur ekki sjá sig á mótmælafundum né annað sem kallast gæti sannarleg viðbrögð við ástandinu.  Hvort um sé að kenna hræðslu eða vantrú á eigin mátt er ógerningur að segja.

Þó gæti verið að einslit og lítil nálgun fjölmiðla að mótmælafundum sé einhverju um að kenna.  Fólk sé hugsanlega hrætt um að fá á sig einhverskonar stimpil.

Einn hópur hefur reyndar fengið að mestu frið í gagnrýninni en það eru embættismennirnir sem sitja næst ráðherrum.  Að mínu mati þá er ekki nægjanlegt að hreinsa einungis yfirborð myglunnar, sem eru þá kjörnir ráðamenn, heldur þarf líka að hreinsa lengra inní kjötið.

En flottur pistill og þakka ég fyrir hann.

Ignito, 19.1.2009 kl. 11:33

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og nú hefur það komið í ljós að Samfylkingin, flokkur fólksins sem boðaði nýja siðbótarpóliík á Íslandi er engu skárri en gamla og spillta íhaldið.

Samfylkingin á ráðherrann sem ber pólitíska ábyrgð á bönkunum.

Árni Gunnarsson, 19.1.2009 kl. 13:09

13 Smámynd: Þór Jóhannesson

Hárrétt Árni - enda þurfum við að sópa öllu draslinu út og hefja uppbyggingu nýs Lýðræðis í stað gerspillts flokksræðis. Það er EINA vona Íslendinga.

Þór Jóhannesson, 19.1.2009 kl. 13:44

14 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Og til þess þurfum við þjóðarsamstöðu...alla togara og þyrlur landhelgissgæslunnar,laganna verði og fólkið í landinu til að koma kjötkatlapakkinu frá  sem fyrst. Og rífa rætur þessarar mannætuplöntu sem græðgin er upp með rótum hvar sem þær hafa náð að festa sig í samfélgainu og mebættismannakerfinu. Byrjum á morgun og sýnum samstöðu sem aldrei fyrr á austurvelli.

Mæli með að fólk mæti klætt í fáránleg föt og búninga til að hæða leikhús fáránleikans við Austurvöll...alþingi.  Alþingishúsið okkar verður að fá sitt rétta hlutverk og vera vörður alvöru lýðræðis og vinnubragða sem við getum verið stolt af. Þess vegna verðum við að sópa burtu fólkinu sem er núna fyrst að koma úr jólafríi. Ætli þau viti nokkuð hvað hefur gerst??

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 19.1.2009 kl. 14:01

15 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Eins og talað úr mínu hjarta. Og maður spyr sig?

Arinbjörn Kúld, 19.1.2009 kl. 14:58

16 identicon

Fá lánaðan jólasveinabúning hjá Ástþóri.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 15:05

17 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er frábær færsla hjá þér Katrín!!! Ef krafturinn í henni drífur þá sem sitja enn með hendur í skauti ekki af stað þá veit ég ekki hvað þarf til! Þú ert mögnuð

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.1.2009 kl. 20:38

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Virkilega góð færsla, gangi ykkur vel núna á eftir.  Ég verð með í huganum.  Ég er algjörlega sammála þér með þessi undanabrögð og ráðaleysi stjórnvalda.  Það æpir á mann, samt sitja þau og bíða... eftir hverju bíða þau?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.1.2009 kl. 08:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband