Leita í fréttum mbl.is

Hvar er húfan mín, hvar er potturinn minn, hvar er ausan mín....og sleifin mín og byltingin?

Farin upp á hól að æra þursinn sem situr sem fastast á þessari þjóð og neitar að hreyfa sig.

HEYRUMST!!!!!

 


Úr einu í annað...

EngillÍ gær fór ég á hitting.

Ég hitti magnaðar konur og drakk með þeim kaffi og drakk í mig það sem þær sögðu. Þær voru bæði vitrar og villingar í einu..sögðu sögur af lífum, löngunum og listum. Bara frábærar og fallegar allar saman.

Skellti mér svo í bíó og sá Vicky Christina Barcelona sem var bara yndi á að horfa enda Woody Allen mynd en mér finnst hann alltaf áhugaverður. 

Las svo um að Katrín nafna mín Jakobsdóttir væri búin að víkja vanhæfri stjórn LÍN frá.

Frábært hjá henni og eitthvað svo flott að sjá ímynd hinna nýju fersku ráðherra eins og hennar og gömlu þreyttu ímynda embættismananna á miðað við t.d ímynd Gunnars Birgissonar. Svona eins og góðu álfkonurnar séu mættar til að ryðja þursunum úr vegi svo þjóðin geti aftur orðið heil. Bara flott og vonandi framhald á þessu.Mikið held ég að námsmenn varpi öndinni léttar núna.

Annars er ég í pólitísku hvíldarfríi og reyni að minna mig á það daglega að ég er ekki pólitísk kona...en það gengur ekki vel. Alltaf eitthvað einhversstaðar sem setur mig af stað aftur. Það er ekki eitt heldur allt sem rekur mann áfram þessa dagana..það er hvergi skjól fyrir "ástandinu" í þessu þjóðfélagi.

Ætla samt að reyna að einbeita mér að skapandi skrifum og kannski smá myndlist í einhverja daga. Mála appelsínugulu búsáhalda byltinguna eða semja ljóðabálk um óhefta gremju sjálfstæðismanna og bræði eftir valdamissinn. Það er eiginlega fyndið á að horfa...svona úr fjarlægð allavega. Get alveg séð fyrir mér drulluslaginn sem verður þegar kosningabaráttan skellur á með öllu sínu. Þá ætla ég að ganga um í pollagalla.

En eins og ég sagði...ég ætla að lita dagana mína með mildum litum og mjúkum og halda áfram að drekka í mig visku kvennanna sem ég hitti í gær og kannski skapa eitthvað merkilegt.

Sideways  Svo er ég líka að reyna að passa mig að hemja skoðanir mínar svo ég verði ekki rekin frá Toyota. Ég er reyndar ekki að vinna þar en allur er varinn góður segi ég nú bara.

 

 


Er hugsi yfir framtíðarsýn í íslenskum stjórnmálum

Ég var að lesa það einhverstaðar að það væri útlit fyrir harkalegustu og ósvífnustu kosningabaráttu sem háð hefur verið hér á landi núna í vor. Ég trúi því svo sem alveg...valdabatteríin munu aldrei sleppa sínu án baráttu. Mikillar baráttu. Enda mikið í húfi. Heilu þjóðarframleiðslurnar og auðlindirnar sem menn virðast halda að þeir eigi aðgengi að og eignir allra landsmanna sem og sparnaður er nú ekkert lítið til að tryggja gömlu góðu völdin. Og almenningur sem verður bara vinnuafl eða tannhjól í þessu eilífðarhjóli græðgisbaráttunnar þar sem öllu er fórnandi í þessum leik fárra um auðinn og völdin. Þeirra sem geta aldrei fengið nóg.

Hryllilega illa gerðar skoðanakannanir gerðar af vanhæfum og trausti rúnum fjölmiðlum eru svo farnar að leka yfir fólkið og rugla það í ríminu.Er fólk virkilega enn að kupa áskrift hjá miðlum eins og Stöð tvö???

Svo skiptist kjósendahópurinn í sterkmerktar fylkingar hægri og vinstri eins og það sé aðalatriðið á meðan Róm brennur. Í stað þess að einhenda sér í að sækja vatnið svo það megi slökkva eldana sem loga alls staðar og bjarga sjálfum sér út úr þessum hildarleik og láta ekki reykinn villa okkur sýn. Er ekki sagt að brennt barn forðist eldinn?

Ég ætla rétt að vona að íslandsbörnin munu ekki henda sér á bálið sem brenndi aleigur og framtíð þeirra og barna þeirra..eins og sjálfvirkir viðarklumpar. 

Ég vona auðvitað að þessi lífstutta ríkisstjórn sem nú er við störf standi við sitt og komi lífsnauðsynlegum breytingum á...en árétta enn og aftur vantrú mína á þessu kerfi og flokkasystemi sem hefur haft sína eigin hagsmuni og sinna flokkspredikara að leiðarljósi alla tíð en ekki hag fólksins í landinu. Þess vegna verður nú að umbylta og breyta...hreinsa til þetta gamla og úrelta og hleypa að nýjum hugmyndum, fersku fólki og sterkri vitund um samkennd og sameiningu sem vinnur gegn þessum gamla huga um völd og græðgi.

Hugarfarsbyltingin þarf að verða.

Og hún gerist ekki í gegnum litgreinda vel uppalda flokksgæðinga sem auglýsa sjálfa sig á litprentuðum auglýsingabæklingum um löngun sína til að þjóna sér og sínum.

Ekki þér og þínum..heldur sér og sínum. 

Nei, hún gerist í okkar huga og okkar hjarta. Þessi Hugfarfarsbylting og nýja sýn mun mælast á því hverja við veljum til forystu í næstu kosningum. Hún mælist á ...hversu mun minna við látum blekkjast af umbúðunum og hæfni okkar til að greina raunverulegt innihald. Eða jafnvel á því að við höfnum gamla kerfinu alfarið og byggjum nýtt með nýjum gildum.

Ég treysti því að þessi þjóð viti að  tal til hægri og vinstri skiptir í raun engu máli.

Að við munum eftir aðalatriðunum núna sem eru þau að sækja vatnið, slökkva bálið sem brenndi allt og staðsetjum okkur svo kannski bara í miðjunni og höldum beint af augum á vit skapandi framtíðar og óendanlegra möguleika og verum fjólublá eða eitthvað.

Set hér inn fleiri myndir frá Perú... af því að ég er enn með Perú í æðunum og hjartslátt yfir þeim möguleika að ekkert kunni að breytast hér. Eða allt!!!

 peru_2.jpgperu_3.jpg


Perú kallar....íslenska gaddfreðna jörð.

 

peru_786202.jpgSvona geta sumir dagar verið skrítnari en aðrir. Fékk þá flugu í höfðuðið að skreppa til Perú í dularfulla ævintýraferð. Hún kostar þrjúþúsundáttahundruð og eitthvað dollara sem finnast ekki enn í mínum grunna vasa og ekki hef ég hugmynd um hvernig þeir dollarar verða búnir til.

Ferðin verður farin í lok apríl og fram í miðjan maí þannig að það eru alveg tímar fyrir smá töfrabrögð svona í harðnandi kreppu. Eða ekki.

Kannski að á fjallstindum Perú leynist fornir viskubrunnar sem geta komið okkur hér á norðurhjaranum til góða á einhvern hátt eða að konu langi bara í litríka handofna tösku til að bera í bækurnar sínar og húfu í stil.

Það hafa svo sem verið skrifuð um það ævintýri að viskubrunnar hafi verið fluttir milli landa og komið þjóðarbrotum skemmtilega á óvart með fornri nýung. Forn nýung er svona sannleikur sem alltaf er og ekki breytist. Kannski lögmál.

Jæja best að hita sér kaffi og vakna almennilega og takast á við veruleikann.

Ætla samt að senda út beiðni til skapandi ævintýraafla fyrir þessum dollurum öllum ..svona just in case ef Perú hættir ekki að kalla á mig.

Eigið góðan dag og munið að það má..nei það á að leyfa sér að dreyma á svona tímum eins og við lifum núna. Það gerir þetta allt bærilegra.

 

 


Ræðan sem ég flutti á Austurvelli í dag.

Kæra þjóð...góðir íslendingar og æðislegu mótmælendur.

Ég stend hér með ykkur í dag vegna þess að ég á erindi við ykkur. Mjög mikilvægt erindi og mér líggur margt á hjarta.

Það er sífellt verið að spyrja "Af hverju ertu að mótmæla" og fjölmiðlarnir sitja um fólk og spyrja "Hverju ertu að mótmæla"?. Eins og það sé ekki augljóst??

 Ég skal bara telja upp fyrir ykkur ástæðurnar fyrir því að ég miðaldra húsmóðir í vesturbænum hef staðið og barið ruslatunnulokið mitt með súpuausunni eins og ég ætti líf mitt að leysa undanfarið. Og í raun finnst mér að líf okkar liggi við og að við verðum að taka höndum saman og gera stórkostlegar breytingar á samfélaginu okkar ef það á að verða lífvænlegt fyrir okkur og framtíðarábúendur þessarar eyju.

Ég segi bara eins og þú minn kæri Jón Sigurðsson..ég mótmæli og þetta er það sem ég mótmæli af öllu mínu konuhjarta.

Spilling, siðleysi, blinda, græðgi, þöggun, skilningsleysi, afneitun, samtrygging, lygar,

glæpir, þrjóska, vanhæfi, einkavinavæðing, hroki, vanvirðing, handtökur, ofbeldi, leti,

sinnuleysi, ráðaleysi, gáleysi, fyrirhyggjuleysi, hræsni, fyrirlitning, arðrán,

bankaleynd, leynifundir, plott, forsjárhyggja, stjórnleysi, stefnuleysi, valdníðsla,

valdagræðgi, eiginhagsmunir, sjálftaka, sérhyggja, landráð, eftirlitsskortur,

Á ég að halda áfram?

rannsóknarskandall, fjármagnsflutningar, fagurgali, efasemdir, siðblinda,

efnahagsofbeldi, skoðanakúgun, stjórnsýslulagabrot, undanskot, fláræði, undirferli,

ábyrgðarleysi, alræði, kúgun, lögleysa, lögbrot, gjaldþrot, hrun, getuleysi,

sýndarveruleiki blekking, yfirhylming, siðrof, trúnaðarbrestur, vantraust, slímsetur,

Ég er ekki búin það er fleira sem ég mótmæli...

firring, fáránleiki, framkvæmdaleysi, óheiðarleiki, ógegnsæi, feluleikur, flokksræði,

mafía, minnisleysi, undanbrögð, klíkuskapur, vonleysi, valdatafl, ósómi, neyðarlög,

ólög, mannréttindabrot, auðvaldsklíkur, hagsmunagæsla, mannfyrirlitning,

óskammfeilni,sukk, svínarí, veruleikafirring, fjölmiðlaþöggun, upplýsingaskortur,

samsæri, niðurskurður, ótti, ósamræmi, svindl, baktjaldamakk, rányrkja, kvótasvindl.

Gleymdi ég einhverju mikilvægu?

Eins og þið heyrið þá höfum við ærna ástæðu til að standa hér saman í dag eins og undanfarna mánuði. Margar ógnvænlegar ástæður til að krefjast gagngerra og róttækra breytinga á samfélaginu okkar. Samfélagi sem er orðið eins og þrútið illalyktandi graftarkýli af spillingu, græðgi og siðleysi.

Krafa okkar er einföld. Við krefjumst þess að graftarkýlið verði sprengt , gröfturinn hreinsaður út svo við getum byrjað að heila samfélagið okkar á öllum sviðum og gert það mannvænlegt og heilbrigt á ný.

Við erum ekki tilbúin að ganga í gegnum alla þá baráttu sem við nú stöndum í til þess eins að fá einhverjar yfirborðsbreytingar og hrókeringar á ráðaherrastólum og örfáum embættum svo ballið geti haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Að valdið færist frá hægri höndinn yfir í þá vinstri á þursinum sem hefur setið á þessari þjóð með öllum sínum þunga og nærri kramið úr henni lífskraftinn. Að það sé nóg að setja mislita plástra á graftarkýlið og þá verði allt í lagi. Það skiptir engu máli hvort plásturinn er rauður, grænn eða blár sem settur er á meiddið.

Gröfturinn fer ekki fyrr en þetta graftarkýli spillingar, samtryggingar og valda hefur verið sprengt.   Og það er þess vegna sem við þjóðin, þessi íslenska stórfjölskylda sem við erum í raun hefur nú þust út á göturnar með látum með potta og pönnur, trommandi takt samstöðunnar inn í þjóðarsálina til að knýja fram raunverulegar breytingar. Alvöru umbyltingu  sem nær til allar þeirra þátta sem sýktir eru. Ekki bara einhverja sýndarmennsku og yfirklór. Við viljum alvöru mannleg gildi og raunverulegt frelsi.

Við erum að kafna undir rassgatinu á þessum þurs sem setið hefur á okkur alltof lengi..og við viljum hann í burt í eitt skipti fyrir öll svo við getum andað og byrjað uppá nýtt.

Ráðamenn halda kannski að við munum sætta okkur við einhverjar yfirborðstilfæringar, að þeir geti róað okkur með því að boða til kosninga og leyfa okkur að kjósa þetta sama kerfi yfir okkur aftur.   Að þeir geti leitt okkur eins og eyrnamerktar kindur í gömlu réttina og villt um fyrir okkur með því að mála girðinguna nýjum litum.

Það er sko alger misskilningur að við sættum okkur við slíka gjörninga.

 Meðan að þið ráðamenn fóruð í langt jólafrí og hvílduð ykkur eftir að hafa sofið á verðinum meðan þjóðin var  sett á hausinn .. brenndum við stóra jólatréð sem hér stóð á Austurvelli á rjúkandi réttlætisbáli.

Skilaboðin eru skýr ráðamenn. Jólin eru búin og nýtt ísland mun rísa úr öskunni, hvort sem ykkur líkar betur eða verr. Og nýja Ísland mun rísa á okkar forsendum..okkar fólksins í landinu, hinnar íslensku stórfjölskyldu  sem á þetta land, á auðlindirnar og stendur vörð um hagsmuni okkar og framtíð.

Svo spyrja menn og konur..Og hvað á svo að koma í staðinn fyrir stóra feita og ljóta þursinn ?....eins og hann sé eini bjargvætturinn í ævintýrinu sem okkur standi til boða.

Ég skal segja ykkur hvað kemur í staðinn.   Við sjálf.Í öllum okkar mannauðskrafti viti og visku. Upp úr grasrótinni munu spretta ný ævintýri sem við skrifum sjálf eftir okkar eigin duglega og klára höfði og eftir  réttlátum hjartslætti þjóðar sem skynjar hvar þarfir hennar liggja og sem veit hvert hún vill fara.

Gefum börnunum okkar nýja von, skýra framtíðarsýn og samfélag sem er heilbrigt og réttlátt.. Ég trúi á hugrekki okkar til að gera nauðsynlegar breytingar og ég treysti þessari þjóð til góðra verka. Þess vegna stend ég hér.

Við..ég og þú eigum mikilvægt erindi á þessum ögurstundum.

Erindi við nýja framtíð.

Mig langar að lokum að flytja ykkur fyrsta erindi ljóðs sem ég flutti á 17. júni í hafnarfirði  sem fjallkonan þegar ég var tólf ára gömul. Standandi upp á gömlum og lúnum kókkassa svo ég sæi yfir ræðupúltið. Af einhverri ástæðu sækja þessi orð fast að mér núna. 

Þau eiga líklega við okkur erindi!!

 

 Enn kem ég til þín íslenska þjóð

 sem átt þér sagnaminningar og ljóð

og byggt hefur þetta blessaða land

í ellefu hundruð ár.

Goldið afhroð, glaðst og sigrað

Grátið svo þín tár eru perlum öllum dýrri

Okkur þeim sem lifa.

 

 Já það má segja að við höfum goldið afhroð kæra stórfjölskylda en við eigum eftir að gleðjast  aftur og við munum sigra.

austurv_llur.jpg

 

Hægt er að hllusta á allan fundinn á www.ruv.is þar sem fréttin af fundinum er og þar er linkur.

veljið rás 2 ...31.janúar..merkt mótmælafundur á Austurvelli.

 

 2009-01-31

Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Grænn og fjólublár dagur.

venusTungl

Venus og Tunglið.

Tunglið fangar kraftinn og Venus er hin fullkomna útkoma.

Fín blanda fyrir þennan dag og það eru margar skrítnar sögur úr fortíð og framtíð sem renna saman í eina í gegnum þessa liti og þessi tákn. 

Gamlir þræðir og nýjir ofnir í leikfléttu sem á sér stað og stund hér og nú. Litir sem renna saman og allt í einu er ljóst að akkúrat svona átti þetta allt að vera.  Umbreytingin á íslenskum veruleika er að ganga í garð og við erum þátttakendur í henni hvort sem okkur líkar betur eða ver. Og við höfum þetta einstæða val og frelsi..viljum við vera áhorfendur eða þáttakendur?

sköpun

 


Súrealískur veruleiki eða bara vondur draumur??

Nennir einhver að vekja mig..mig er að dreyma eitthvað svo undarlega og óhugnanlega.

Sigmundur Ernir var í útvarpinu og sagði að honum þætti gaman að smíða og nú vill hann fá að smíða "þjóð" og er leiður yfir að hafa ekki getað staðið betur með mótmælendunum sem hann laug uppá á gamlárs vegna þess að vondu vinnuveitendurnir hans gerðu hann svo klofinn.  kb

Og Samfylkingin sem hefur verið elt á röndum með orðunum vanhæf ríkisstjórn og sterkar kröfur almennings um gegnsæi og spillinguna burt, er að spá í að setja mann sem er fastur undir borði sem Dómsmálaráðherra og svo flýgur lítill fugl í kringum húsið mitt og syngur um það að efnhagsbrotadeildin hefur ENGIN mál til að rannsaka og rannsóknarnefndin sem skipuð var fyrir jól má ekki byrja að rannsaka og vinna fyrr en 1. mars.

Ofan á þaki seðlabankans situr svo úfinn þurs og hlær og prumpar til skiptis á þjóðina þegar hún reynir hvað eftir annað að lyfta hans þunga rassi af bankanum..en í hvert skipti þyngist þursinn meir og meir og það fara að vaxa leyndarmál um alls kyns menn og auðmenni í hárinu á honum. Og hann les ljóð upp úr svartri vasabók um land og þjóð sem einu sinni var.

Þá voru  sett lög um að ekki mætti hreyfa við honum í 7 ár af besta vini hans sem leikur Shrek í Hollywood. Þá önduðu nú margir léttar en á meðan var fólkið sem missti vinnuna tekið og breytt í krónur á seðlabankastéttinni sem hinir löbbuðu á allan daginn sem voru með vinnu..vinnu sem var ekki hægt að hætta í.

Einhversstaðar í bakgrunninum á öllum þessum martraðarkenndu atriðum heyri ég svo Steingrím Joð hvísla.".langtímastjórn, langtímastjórn..við erum komin til að vera" og við mótmælendur förum að hágráta og segjum..Já en við vildum alvöru breytingar og hvað með lýðræðið? Við viljum ykkur ekki..við TREYSTUM ykkur ekki.

Og þá sprettur Ingibjörg fram með bláa gimsteina kórónu styður sig við  þernu sína og segir...

Æ góða hættu þessu væli þú þarna ekki Katrín....við erum búin að gulltryggja okkur og okkar spennandi og skemmtilegu framtíð.

Ungi fallegi framsóknarprinsinn sem allir héldu að hefði óvart dottið inn af götunni og verið kosinn því hann hefði svo hlýlegt bros og mjúkar kinnar var með valdaklíku framsóknar í vinstri vasanum og hún byrjaði að klifra um allt og festa niður valdatákn um alla veggi með nöglum sem á stóð...Auðgildi ofar manngildi.

10150263

Og svo hlógu þau og hlógu og dönsuðu í heilögum hring þar sem hver höndin hélt fast í aðra og við þjóðin grétum og grétum og þá kom löggan og úðaði á okkur hvalspiki og Kristján Loftsson skyrpti út sér .."SO WHAT"  þegar við báðum hann að bjarga okkur og sagði að landhelgisgæslunnni hefði verið sökkt og að enginn útlendingur myndi neitt vilja með okkur hafa og allra síst bjarga okkur þar sem við hefðum rænt og ruplað, verið lygin og óheiðarleg og drepið öll fallegustu og bestu dýrin í heiminum.

Þá kom Sigmundur Ernir aftur og fór að smíða sjónvarp úr járni sem hann fann við Tónlistarhúsið og vildi fá mig í viðtal um lygafréttir Þagganir og þaulæfða fréttaútúrsnúninga og svo þegar ég gat alls ekki  þagað og varð að segja satt um allt varð hann svo reiður að hann klippti kapalinn og fór í framboð án hælsins sem hann og kona hans höfðu búið undir í hálfa öld samanlagt. Setti á sig svarta grímu svo fólkið myndi ekki vita hverjum það væri að greiða atkvæðið.

Ég er föst í þessari martröð og bíð eftir að vakna. Vonandi vekja mig trumburnar, syngjandi pottarnir og pönnurnar og allt fólkið sem angaði af yndislegum appelsínuilmi...fólkið sem trommaði með mér fyrir Nýju Íslandi. Sem trúa því enn að þetta muni takast og íslendingar séu svo vel vaknaðir af vondum draumum að það verði aldrei aftur hægt að telja þeim trú um að það sem er óréttlátt og vont sé réttlátt og gott. Að við vitum núna muninn og gleymum honum aldrei. Aldrei!!!!

Svei mér þá ef grasrótin er ekki bara að vaxa og það um miðjan vetur..það eru farnir að sjást íðagrænir sprotar hér og þar um allt land. Ætli hann Össur viti af þessum vaxandi vonarsprotum?

En hjartað slær hraðar og vonin vex og kannski, já kannski verður þetta allt nýtt á morgun og þá nenni ég að vakna og vinna og taka fagnandi á móti vorboðanum ljúfa. Kosningunum þar sem þjóðin fær öll atkvæðin. Hvert og eitt einasta.10131867


Þung eru sporin mín..

100_3338

....Þegar ég hugsa til þess að kannski verði áfram vanhæf Ríkisstjórn við völd. Ég vil sjá óháða utanþingsstjórn sem vinnur að hag okkar fram að kosningum og taki rækilega til hendinni og geri það sem þarf að gera.

Hef enga trú á að flokkarnir munu muna eftir okkur í kosningabaráttunni sinni og hagsmunum okkar. Frekar munu þeir stýra björgunarleiðangri sínum að sjálfum sér og hagsmunum sínum...eins og alltaf.

Já svona gerist þegar traustið er farið. Hvernig í ósköpunum á maður að trúa orði af þessum spunavef sem uppúr þeim vellur dagana út og inn eftir að hafa horft upp á þetta leikhús fáránleikans ná nýjum hæðum daglega í marga mánuði og ár?

En ég horfi hugfangin á rauðu skóna mína og hlakka til þegar þessum þungu hnullungum vantrausts og spillingar verður kastað út í sjó og við dönsum appelsínugula búsáhaldadansinn á Austurvelli þegar hin sanna lýðræðisbylting verður ....þegar við kjósum fólk sem við getum treyst og veljum eftir hæfi en ekki hagsmunum auðvalds og framapots.

Og ég veit innst inni í hjarta mínu að einn góðan veðurdag verður það svoleiðis og ég veit líka að það er undir okkur sjálfum komið. Ohhh hvað ég vona að það verði fyrr en seinna. Hef ekki þolinmæði í meira svona rugl.

Hvar er nú potturinn minn og ausan?   Tromm tromm bomm....!!!


Mótmælin hafin enn á ný á Austurvelli..og allir að kíkja á www.lydveldisbyltingin.is

Þetta eru skrautlegir dagar og stundir....Stöndum þétt saman kæru íslendingar og munum að markmiðið er raunverulegt lýðræði og að rífa upp spillingaröflin með rótum í eitt skipti fyrir öll.

Sit hér heima með kvefpest og sýkingu og munn eins og Miss Monster, hlusta á lúðrana á Austurvelli þar sem mótmæelendur eru mættir enn og aftur og horfi löngunaraugum á gömlu málingardolluna sem húkir einmana í ganginum hjá mér. Bíður eftir að vera trommuð með sleif og tjúttuð undir þjóðarsöngnum...Vanhæf Ríkisstjórn, vanhæf ríkistjórn..bomm bomm bomm!

Líst vel á framboð grasrótarinnar. Þar er raunverulegur vilji á ferð til lífsnauðsynlegra breytinga og ég hef fulla trú og traust á því að landsmenn munu skynja hvað eru aðalatriðin núna og flykkja sér í grasrótina. Við þurfum að hjálpast að við að gera breytingarnar..hugsið ykkur ef flokkamaskínurnar ætla fara að taka þessi málefni upp á sína arma. Það myndi enda eins og eftirlaunafrumvarpið eða öll gömlu kosningaloforðin sem enginn af þeim man lengur hver voru.

Núna er tíminn til að trúa og treysta á okkur sjálf..við vitum allavega að við munum ekki undir neinum kringumstæðum svíkja börnin okkar eða framtíð þeirra. Flykkjum okkur saman og gerum lýðræðisbyltinguna NÚNA!!!

Verum í bandi....


Nú reyna pólitíkusarnir að tala eins og mótmælendur..hahaha!!!

Æ....þetta er súrrealískt fyndið að heyra. Er að hlusta á Sprengisand á Bylgjunni og get ekki betur heyrt en að pólitíkusarnir sem þar sitja reyni nú að tileinka sér málstað mótmælenda og troða honum upp í munninn á sér og reyna svo að frussa honum yfir væntanlega kjósendur sína eins og hann hafi alltaf verið þeirra eigin. Tala núna eins og þeir séu að halda ræður á Austurvelli.

Greyin átta sig ekki á að Íslenska þjóðin er glaðvöknuð og mun ekki láta neitt glepja sig framar. Við erum rétt að byrja og munum ekki unna okkur hvíldar fyrr en við höfum skapað hér samfélag sem er fyrir okkur öll og á okkar forsendum. Okkar fólksins í landinu. Svo einfalt er það nú. Burt með spillingarliðið..þið getið ekki kastað ryki í augu okkar framar...réttast væri að þið sæuð sóma ykkar í því að hella upp á kaffi hjá nýju lýðræðisöflunum sem nú undirbúa framboð sín og þjónustu og gerðuð þar með eitthvað gagn fyrir fólkið ykkar.

Ég elska ísland og takk takk takk þið öll sem mættuð á þennan magnaða fund á Austurvelli í gærInLove

....ég mun aldrei á ævinni gleyma þessari himnesku tónlist sem við höfum framið hvern dag á potta pönnur og trumbur. Þessi taktur er nú í blóðinu á mér og hjartanu og höfðinu. Mér líður eins og við séum svona tribe sem man allt í einu um hvað hann er og hvaða erindi við komum til að sinna og ekkert geti nú stöðvað þennan kraft sem nú hefur verið leystur úr læðingi.

14

Ahhhh..nú ætla ég að beina sjónum mínum að þeim nýja krafti sem risið hefur upp fyrir nýju lýðveldi og þeirri umbyltingu sem mun óhjákvæmilega verða hér og leyfa gömlu pólitíkusunum og þeirra úreltu eiginhagsmunahugmyndafræði að röfla sig hás.

Ég mun ekki hlusta og það mun þjóðin ekki gera heldur. Vantraust mitt á ykkur er algert og mótmælin munu halda áfram sem aldrei fyrr þar til markmiðum okkar hefur verið náð.

Endilega skoðið þetta og skráið ykkur.

Lengi lifi samstaðan!!!!

www.nyttlydveldi.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 310953

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband