Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Andvana magnvana máttvana..nei bara andvaka.

Ég get ekki sofið því ég sofnaði strax eftir kvöldmat þar sem heilinn í mér var svoooo þreyttur eftir akademískar ritsmíðar sem stóðu frá morgni til kvöldmatar... og vaknaði svo bara klukkan að ganga ellefu og er núna andvaka á vindsæng á miðju stofugólfi.

Theodóra sefur hinumegin við mig í tveggjasæta sófanum og Nói í þriggjasæta sófanum á móti henni og snýr tánum beint í hausinn á pabba sínum sem sefur á annarri vindsæng  með hausinn útvið svaladyrnar. Svona er það að eiga hvergi heima og  eiga gistinguna undir öðrum. Gott samt að þurfa ekki að gista í fjárhúsi í þessu veðri.

Annars er ég bæði með svefngalsa og komin í sannkallað jólaskap.  Jólaskapið held ég að sé tilkomið vegna þess að mannkyn hefur verið kallað til skráningar. Allavega ég og mín fjölskylda og höfum við nú farið á asnanum alla leið frá Hafnarfirði til Reykjavíkur  og skráð okkur til löglegs heimilis,  fengið skráð símanúmer, börnin  skráð í skóla og  Nói skráður í KR. Við eigum enn eftir að skrá okkur fyrir heilsugæslu og fá skrásetningarnúmer á bíl þegar við skilum asnanum. 

Já ef þetta er ekki jólalegt þá veit ég ekki hvað.

 

bed

 

Man það svo lengi 

sem lifað ég fæ

..man ég þá er hátíð var í bæ.Whistling

 

Night night 

 


Ekkert hallærislegra en ég

Fékk símtal í morgun frá kærri vinkonu. Við spjölluðum saman í nokkra stund og þá sagði hún.".Vá Katrín veistu að þú ert komin með smá hreim..."!!!FootinMouth

Það er ekkert hallærislegra en íslendingar sem hafa verið í útlöndum í svolítinn tíma og koma svo heim með hreim og sletta hægri vinstri...eins og ég á reyndar heilmikið til.

Just can´t help it sko.

 Já ég er ein af þessum hallærislegu. Ef þið viljið eitthvað tala við mig skuluð þið bara læra táknmál. Ég mun ekki tjá mig munnlega eða upphátt fyrr en ég hef losnað við Hreiminn illvíga. Nema ég skipti um skoðun og finnist það bara töff eftir hádegi. Ég er sko tvíburi. Það sést best á því að í gær var ég með annað símanúmer en ég er með í dag. Magnað.

Er að bíða eftir viðbrögðum frá hungruðum vinnuveitendum og fæ lyklana að heimilinu mínu seinnipartinn. Og já. Ritgerðin er hálffædd og mun líta dagsins ljós alkomin og fullklædd með kvöldinu á einhverju kaffihúsinu.  Það er bara allt að gerast á þessari eyju hérna. Svei mér þá.

Hlustið nú á þennan fallega trúð leika lagið...óskasteinar.

untitledlkpk

 


Ég er bara að hugsa og spá í hvert ferðinni sé heitið

vk2006b-morningblossum

 

Sit í knúpi blóms sem lætur mig ekki niður. Ekki strax. Þarf að virða fyrir mér hið nýja útsýni og máta hugsanir mínar við umhverfið og hvar ég vil staðsetja mig í því. Hvaða leið ég vel að fara.  Það er ekkert eins og það var.

Og eftir 7 ára fjarveru er ekki ein einasta fruma í mér enn til staðar..ég kem heim sem splunkuný kona sem hefur sagt skilið við fyrri hugmyndir um líf og tilveru og er með nýjar hugmyndir og sögur um lífið í farteskinu. Þarf að hugsa um hver vill heyra hvað og hvenær. Og í hvaða formi. 

Maður er stöðugt og alltaf að skapa sér nýja tilveru hvern einasta dag. Máta nýju frumurnar við hina íslensku tóntegund. Þar til ég hef fundið út úr því mun ég sitja í krónu knúpsins og horfa vel til beggja hliða. Líka upp og niður. Á þig og mig.

En ég verð að segja að útsýnið er fagurt!!!Heart

Nýtt blóð og ný bein. Sterkari en um leið brothættari. Þessi veröld sem ég horfi á er veröld sem bíður. Og tíminn líður. Líka þegar hann er ekki til.

Ætla að sitja hér örlítið  lengur. 


Lent

Mikið rosalega er veðrið hressandi og birtan falleg. Ég er lent á landinu mínu góða og bíð á stofugólfinu hjá mömmu eftir næsta áfangastað og skipinu sem siglir með dótið mitt heim. Ætla fá mér eina með öllu í hádegismat og horfa á Esjuna út um eldhúsgluggann. Mikið hlakka ég til að koma mér fyrir og vera heima hjá sjálfri mér á alla kanta. Setja lítið jólaljós í eldhúsgluggann og horfa á það og friðarljósssúluna til skiptis. Bæði jafn falleg og fín. Já ég er friðsæl og fagnandi og afskaplega fögur með alíslenskt hairdú. Dóttir mín segir..."Mom you look like a real icelander now" enda er ég komin með hár sem lítur út eins og alvöru hár og liggur niður í stað þess að sveima í kringum hausinn á mér eins og óákveðið ský. Er meira að segja ljóshærðari og litfríðari en áður. Nú myndu sveitalubbarnir í héraðinu heima reka upp stór augu gætu þeir séð hina nýju mig. Það er mikill munur á mér sem enskri blómaros eða sem íslenskri valkyrju. Bara tvær ólíkar konur verð ég að segja. 

Já það er voða gott að vera komin alla leið heim. Ég bíð spennt eftir að sjá hverju lífið skolar að ströndu að þessu sinni.


784

 

 


Að vaða tár upp undir hné.....

Allt gengur vel og ég er búin að læra að vaða tár upp að hnjám. Theodóra bauð vinkonum sínum í kveðjupartý seinnipartinn.Fyrst þurftum við foreldrar að rýma til í dagstofunni og leigja dvd til að horfa á eftir skóla. 8 yngismeyjar komu og skemmtu sér konunglega í pizzupartýi og horfðu svo á mynd sem ÉG fór og valdi fyrir þær.

Sko....mér var sagt að velja svona girly mynd og þegar ég sá hulstur með mynd af tveimur stelpum með hafmeyju á milli sín vissi ég að ég var að gera rétt. Akkúrat mynd fyrir svona ungmeyjar. Töfrar og tindr í allar áttir..hélt ég í fávisku minni. Maður á ALLTAF að lesa aftan á.GetLost

En hvað haldið þið ekki...myndin var um stelpu sem þurfti að flytja burtu frá bestu vinkonu sinni og eftir öll bellibrögð sem þær kunnu varð endirinn samt sá að önnur þeirra varð að flytjast burtu og þær grétu yfir vinkonuslitunum sem var kannski ekki endilega það sem átti við í kveðjupartýinu. Þetta tiltekna atriði setti í gang atburðarrás sem ég hafði ekki séð fyrir. Breskar konur gráta yfir öllu og stelpurnar þeirra gera það líka og mun kröftuglegar. Ein byrjaði að snökta og hinar tóku undir og áður en varði sat ég uppi með 8 manna grátkór sem ekki bara snökkti heldur hágrétu þær allar sem ein og það runnu tár í stríðum straumum og hor úr nös með. Ekkasogin heyrðust um allt hverfi. Það hurfu tvær klósettrúllur á augabragði og ég óð tár í hné. Hélt meira að segja á tímabili að ein þeirra væri mað astmakast þar sem hún náði varla andanum fyrir gráti og ekkasogum.

Ég sagði alla brandara sem ég kunni, bauð þeim far með gámnum til íslands á laugardaginn, færði þeim kalda drykki og snýtti og þerraði tár en allt kom fyrir ekki. Histerían bara jókst og jókst og ég beið bara eftir barnaverndarnefnd á tröppunum hjá mér til að athuga hvaða gjörningur færi þarna fram.  Ég grátbað stelpurnar um að hætta grátkórnum áður en foreldrar þeirra kæmu til að sækja þær og fara með þær heim og þá grétu þær enn meira og enn hærra þegar þær vissu að bráðum væri tími til komin að kveðjast. Jesús minn hvað þetta var mikil tragedía. Þetta ástand varði í um það bil 50 mínútur og þegar mæðurnar loksins komu til að losa mig úr þessari grátkórsprísund ...grenjuðu þær bara líka.

Setti meira að segja Queen tónlist á í dvd til að fá  þær til að hætta og kannski gleyma sér í dansi...og diskói en þegar Freddy Mercury söng eitthvað lag með tárin í augunum þá brast bara á stórflóð sem sló út öllum sumarrigningum hér.

Loksins þegar grátkórinn hafði verið fjarlægður af grátandi mæðrum settist ég niður til að slappa af eftir öll ósköpin. Á veggnum á bak við mig birtist þá stærsta risakönguló sem ég hef á ævinni séð sem var snarlega sett undir glas með indverska matseðlinum sem undirverju og skutlað í garð nágrannans með það sama. Það eru nú takmörk fyrir hvað konuhjarta þolir á einum degi. Segi það satt!!!! Á morgun verður borðað af pappadiskum og sofið á vinsængum þar sem flest allt annað er nú í kössum. Stundum væri ég til að vera bara í kassa.

Í dag hélt ég svo mína fyrstu og vonandi einu einkasýningu á risaolíumálverki þar sem verkið snéri eingöngu uppí loft. Þurfti að sækja verkið í gallerí hér í bæ sem komst ekki í neinn bíl svo við skelltum því á toppinn á bílnum og vorum með hendur út um alla glugga til að halda því á sínum stað. Þetta var einkasýning fyrir englana sem flögra stöðugt yfir og allt um kring. Og megi þeir vera með mér það sem eftir er af þessum gjörningi sem flutningur á milli landa er.

sköpun

Þetta er myndin stóra sem vakti mikla athygli bæjarbúa sem sáu hana ferðast á bílþaki

  og snúa fegurð sinni til himins

Sofið vel öll sömul. Ég þarf sko að leggja mig og safna kröftum fyrir komandi daga. Eitt veit ég þó eftir uppákomur dagsins. Ég er íslenskur tilfinningalegur tréhestur.  Gat ekki annað enn skellihlegið af þessum tárgjörningi. Já ég er frenja með meiru!!!

Allar breytingar taka í og það er bara hluti af ferðinni að fara reglulega

 með tilfinningarússibananum UPP OG NIÐUR.

Thats life!

.

 


Þórbergur siglir meðan ég glósa um líf mitt

Í  gær pakkaði ég skrifstofunni og vinnuherberginu. Nú eru allar mínar bækur í boxum og viskan mín og vitið mitt fóru þar ofan í líka. Ég datt inn í að lesa allar glósubækurnar mínar og mikið lifandi skelfingar ósköp var það gaman. Ekkert smá sem kona er búin að læra margt skemmtilegt og skrítið á þessu ferðalagi sínu. Glósulesturinn var hinsvegar glórulaus í miðjum hamagangi við flutninga  og rændi mig tíma svo vinkona mín ætlar að koma á eftir og hjálpa mér að setja eldhúsið í box. Svo þarf að vefja málverkum í loftbóluplast og koma skúlptúrurm vel fyrir með mjúkum klæðum í trékassa. Þórbergur leirhaus og vitringurinn sem er annar leirhaus fara saman í kassa svo þeir geti átt heimspekilegar samræður meðan þeir sigla á milli landa. Þá geta þeir sagt þegar þeir stíga á land með örlitlum rembingi að þeir séu afskaplega vel sigldir.

Það verður að koma öllu haganlega og vel fyrir. Ekki mega verðmætin mín fara að hoppa og skoppa um allt út á miðju hafi í maga skips og koma svo öll tætt og sundruð heim.

tveir læknakallar

Á laugardaginn kemur svo gámurinn klukkan níu núll núll og við fáum þrjár klukkustundir til að pakka öllum okkar jarðnesku verðmætum þar inn áður en honum verður svo kippt upp til Immingham og siglt af stað til íslands. Við eigum svo flug á fimmtudaginn og þangað til ætla ég að haga mér eins og betlikerling og leggjast upp hjá hinum og þessum með mitt fólk og sníkja mér svefnpláss og matarögn. Mér segir samt svo hugur að við verðum að mestu leyti í heimsókn hjá ömmustelpunni Alice Þórhildi og hennar foreldrum.

Myndin sem fylgir þessu bloggi er af læknaköllum með epli og appelsínu og tilheyra barnabók sem ég skrifaði einhverju sinni. Hef ekki aðgang að myndasafninu mínu svo ég notast bara við það sem er hendi næst. Skilaboðin með þessari mynd eru svo auðvitað..Munið að borða hollt!!!

Maður á næra sig með góðu, bæði andlega og líkamlega og þá verður allt í himnalagi og augun á manni breytast í stjörnur.

Elska ykkur mestHeart 

 


Örblogg

Ef þið sjáið þessa færslu í guðanna bænum ekki segja neinum af heimilismeðlimum mínum að ég hafi stolist að blogga. Sagðist ætla upp að sækja kassa og sá þá gamla tölvujálkinn tengdan og gat bara ekki hamið mig....verð að fara. Það er einhver að koma upp stigann...

Psttt..fékk mér æðisleg stígvél í gær með grófum botni. Gat ekki hætt að dásama hvað þessir grófbotnuðu skór myndu halda svelli í slyddu og hálku þarna heima...get vaðið skafla upp í sköflung og allt. Maðurinn minn dró mig út úr búðinni þegar ég var farin að selja afgreiðslustúlkunni rómantíska og hlýlega vetarferð til Íslands og sagði að ég væri komin með ofskynjanir af því sem biði mín heima. Það væri tímabært að ég færi að vakna upp til raunveruleikans og minnti mig á að ég hafi alltaf sagt að ég sé eins og krumpuð og grimmlynd rúsína í framan yfir vetrartímann á íslandi og skapið eftir því...Ég get svo svarið það að ég man bara ekki eftir að hafa nokkurn tíman sagt slíka vitleysuShocking


Viðtalsfatnaður, velklipptur kynþokki og sálarstríð stelpuhnokka.

Nú er ég að stelast í tölvu fallega og flotta töffarans sem datt hér inn á gólf í gær eftir  íslandsdvölina. Mikið er hann fínn með nýju klippinguna..ha? Þessi klipping virkaði alveg á hnéskeljarnar á mér og ég fékk heitan straum í magann. Já þessir íslensku hárgreiðlsumeistarar eru sko að gera sitt.InLove Takk takk!

Vel klippti kynþokkafulli pabbinn er núna á fótboltaleik með Nóa verðandi KRingi. Ég gat ekki farið með þar sem ég er enn svo máttlaus í löppunum og með fiðrildi í maganum svo við Theodóra erum bara heima  að fylla nokkra poka af dóti sem skal selt úr skottinu  á bílnum á morgun. Förum með vinafólki út á risastórt engi eldsnemma í fyrramálið og seljum allt sem ekki verður  flutt heim á spottprís. Verður örugglega bara mikið fjör. Svo þurfum við að versla nokkrar hlýjar vetarflíkur á krakkana og kannski að ég fái mér viðtalsfatnað. Viðtalsfatnaður er fatnaður sem sýnir að kona er bæði ábyrg, klár og hæfileikarík ásamt því að gefa í skyn sjálfstraust og persónulegan sjarma. Að hún sé stundvís og daðri ekki við annað samstarfsfólk og kunni sig á árshátíðum. Viðtalsskór verða að vera vel burstaðir og segja.."Þessi kona veit hvað skiptir máli og að hún er metin frá toppi til táar". Best að láta líka líta á hárgreiðsluna fyrst svo er. Slær enginn í gegn með gaddavír um höfuðið. Punkturinn yfir i-ið er svo geislabaugurinn. Þarf aðeins að pússa og fægja hann og þá er ég tilbúin fyrir atvinnuviðtal. 

Reyndar vaknaði ég um miðja nótt og bjó til mína eigin vinnu og verð að segja þó ég segi sjálf frá að ég held að ég hefi fengið enn eina snilldarhugmyndina. Hún meira að segja er enn snilld þó klukkan sé langt gengin í morgunkaffi. Og það skemmtilega er að hún inniheldur fullt af ykkur.

Já ég get ekki sagt meira í bili..en mun framkvæma miðnæturhugmynd mína um leið og ég er komin heim. Mikið á eftir að rætast vel úr henni..ég bara finn það á mér. Sólaplexusinn snýst hraðar og það er girnilegur glampi í auga þegar ég lít í spegil. Óbrigðult merki um að I am on to something!!!!

Jæja dóttirin á í erfiðleikum með að gera upp á milli allra bangsa og tuskudýra..hvaða bangsar og fílar fá að koma með í ferðina löngu til íslands og hverjir verða seldir til ókunnugra á morgun. Það tekur í litla sál að sortera sitt. Þýðir ekkert að sýta..tökum bara það mikilvægasta og merkilegasta með. Hitt má fara. Er hvort eð er bara dót!!

Heyrumst.

psssttt..ætla athuga hvort ég finni ekki aðra snúru í fartölvuna mína í dag.

 


Síðustu forvöð....fyrir forlögin að grípa um tauma stjórnlausrar konu.

Vinkona mín kom hér í gærkvöldi og við borðuðum saman og áttum ferlega skemmtilegt spjall. Hún er alger kjarnakona og er að setja nýja línu af baðvörum og andlitsolíum á markað..allt organic og mjög vistvænt og mannvænt. Var að kynna línuna sina um helgina og þar hitti hún merkilega konu sem vinnur aðallega með konum í business og að hjálpa þeim að virkja kraftinn sinn. Hefur komið mörgu góður til leiðar...Jacqui vinkona mín gaf mér bók eftir þessa konu sem ég mun kvóta úr hér bráðum. Þegar ég er búin að lesa hana alla. Hef bara ekki tíma í lestur. Var að segja það við vinkonu mína að ég hefði svooo mikið að gera..en gæti ekki hamið mig. Væri alltaf að stelast í tölvuna þegar ég ætti að vera að gera ritgerð eða pakka dótinu okkar.

Hún kom með frábæra uppástungu.

"Af hverju pakkar þú ekki bara tölvunni fyrst?"??

Þessa hugmynd hefði ég aldrei fengið sjálf..segi það satt.

 Pakka tölvunni...Jussu mía. Og hvað svo?Crying

 Ég þarf nú að hugsa þetta.

Í morgun..eða núna rétt áðan gripu svo örlögin um taumana þegar þau sáu að ég var ekki alveg að kaupa þessa hugmynd um að pakka tölvunni og koma mér svo að verki. Snúran í tölvunni byrjaði að neista og hafa læti...neistabrestir og glampar og svo bara búið. Ekkert samband. Ég er bara að skrifa á síðustu batterísdropunum og svo veit ég ekkert hvernig ég held áfram að lifa. Snúran er alveg ónýt og ekki nokkur leið að koma tölvunni í samband aftur.

Ég veit alveg hvað þetta er.

Þetta eru örlögin og forlögin að grípa í taumana þegar kona veit ekki betur sjálf.

Sjá til þess að dótið hennar komist með skipinu og hún sjálf komist á sinn áfangastað. Og ef hún ætlar ekki þangað sjálf í tíma verður hún bara sett þangað með góðu eða illu og með eða án fartölvunnar.

bad-clown-~-difli023

Mér finnst lífið vera svolítið að skipta sér af og stjórnast í mínum málum. Sé fyrir mér hvernig það situr og horfir á mig og hlær að frústrasjón minni og tölvuleysi. En vitiði það..það hefur nú stundum verið þannig að mín plön hafa bara ekki verið eins góð og þau sem lífið bíður með fyrir mig hinu megin fyrir hornið. Það veit stundum betur en kerlingin.

Svo ég tek þessari uppákomu með stóískri kvenlegri ró og sný mér nú að verkefnastaflanum sem bíður mín..og brosi út í annað. Þetta er líklega mér fyrir bestu núna!Wink

 

Jæja nú er batteríið alveg að verða búiðððððððð.........


Nú eru komnar 99966 heimsóknir á bloggið mitt...

..svo dagurinn í dag verður dagurinn sem heimsóknirnar fara í 100.000. Hugsið ykkur,hundrað þúsund heimsóknir.!! Þetta er merkisdagur...nema að það kíki ekki nokkur sála aftur á bloggið mitt og þetta sé hin endanlega tala...99.966! En ég segi það og skrifa að blogg er ekki bara færslan sem skrifuð er heldur skipta athugasemdirnar ekki síður máli. Og ég hef verið svo heppin að eignast hér bloggvini sem eru skrítnir, skapandi og skemmtilegir með afbrigðum og oft hafa skapast sérdeilis fínar umræður um allt milli himins og jarðar. Takk fyrir það þið þarna spéfólk og spekingar!!!InLove

Í tilefni dagsins langar mig að biðja gesti og gangandi að kvitta í gestabókina. Langar að heilsa upp á þá sem sveima hér í gegn öðru hverju en eru sjaldnast sýnilegir.

Og svo er bara að sjá hver verður 100.000 gesturinn á þessu nýja heimili mínu. Ef þið hélduð að ég væri að fara eitthvert er það alger misskilningur..ég er komin til að vera!!! Og mun sitja sem fastast og blogga þar til ég verð hundraðþúsund ára gömul.

2390-4746~Hamburger-Posters426583~Ice-Cream-Cone-with-Many-Colored-Scoops-PostersWA2151693~Pinkie-the-Guinea-Pig-and-Perky-the-Kitten-Tottenahm-London-September-1978-Posters

 

Í tilefni dagsins býð ég uppá hamborgara, litfagran gleðiís og kisute.

Be my guests!!!Heart

 


Næsta síða »

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 311441

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband