Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Gaman eða leiðinlegt?

gaman eða leiðinlegt

Er gaman eða leiðinlegt í þínum bekk? Er ekki merkilegt að sami hluturinn getur skemmt einum meðan hann lætur öðrum leiðast? Hefur það með "hlutinn" að gera eða manneskjuna? Viðhorfið?

Stundum finnst mér eitthvað rosalega skemmtilegt og svo finnst mér það sama hundleiðinlegt.Woundering

 Það hlýtur að hafa eitthvað með mig sjálfa að gera. Eina sem ég veit sem að er leiðinlegt í mínum bekk er þegar ég er að byrja á túr. Skiptir engu hvað er hvað. Dagana fyrir tíðir er ég ekki ég... heldur geðvond norn sem hefur allt á hornum sér. Og verð ekkert móðguð þegar familían leggur til í blíðum tón að ég fari bara á kaffihús ein og lesi eða eitthvað.  Þegar ég svo kem út úr þessu undarlega ástandi er ég auðvitað bara ljós og hvers mannshugljúfi. Yndisleg og skemmtileg með afbrigðum og læt ekkert rugla mitt góða skap.

En spurningin er...er gaman eða leiðinlegt í þínum bekk?

 Hvað er hvað og hvers vegna.? Alltaf betra að labba sólarmegin á gangstéttinni. Líka hlýrra. Svo hvar ert þú? Önug norn eða ljómandi ljósálfur?

Smjúts. Galdraseiður og töfraorð...Abracadabra, Hókus Pókus og Verði Ljós!

nornaleg mynd

 


Að elska sinn næturstað....

dufukona

Gott að skríða í ból eftir langan dag og láta hugann reika.

Ég er ástfangin af rúminu mínu. Þetta er besta rúm sem ég hef átt. Stórt og rúm gott..rúm geta náttla ekki verið góð nema vera RÚMgóð er það? Mjúka og góða sæng á ég og tvo kodda. Hlýja ábreiðu til að breiða yfir ef kalt er og dökk gluggatjöld til að halda veröldinni fyrir utan þegar ég hvílist. Þak yfir höfuðið og mjólk fyrir morguninn. Og ég tilheyri hínum ríku. Þessu eina prósenti sem getur allt og má allt. Kúri mig undir sæng og velti fyrir mér hvað ég vil gera á morgun. Og hvort ég vilji kaffið með kleinuhring eða kleinu. Stundum svo erfitt að vera til. Hvort?

Æ ég hugsa um það síðar. Skiptir ekki öllu núna eins og hjá hinum 99 prósentunum. Hvernig sefur þetta fólk? Ætli það geti sofið? Úff það heldur fyrir mér vöku ef ég fer að hugsa eitthvað leiðinlegt og vonlaust. Best að kveikja á sjónvarpinu. 104 stöðvar til að eyða hugsuninni sem þvælist stundum fyrir mér. Er þetta ekki dásamlegur heimur? Góða nótt þið öll sem eigið góðan hvílustað.

Fór allt í einu að velta fyrir mér hvað ég er heppin að eiga svona gott rúm. Þakka fyrir á hverju kvöldi að geta skriðið í hlýtt ból. Man eftir fréttum af kúrdum sem voru að frjósa í hel í fjöllunum með börnin sín og sendi barnasængina okkar til þeirra í svörtum plastpoka ásamt íslensku ullarteppi. Vona að það hafi gert gagn.

Gott að muna eftir því góða sem maður hefur.  Góðan næturstað og mjólkurdropa fyrir morguninn. Góða nótt.


Jarðarbúar sem vita ekki hvernig landið liggur....

Ég lofaði að gefa ykkur eitthvað sætt eftir ferð mína til London í gær. Eftir að hafa skoðað rauðu tveggja hæða strætóana, Tindátana fyrir utan höll drottningar og postulínsveggdiska með mynd af Díönu prinsessu þá fannst mér að ég ætti að gefa ykkur eitthvað sem skipti meira máli.  Eitthvað sem fengi ykkur til að hugsa og humma og velta fyrir ykkur. Ég ætla að deila með ykkur minningu frá London. Og engri venjulegri minningu. Hún er súrrealísk og óraunveruleg en dagsönn. Líf mitt er troðfullt af óraunverulegum upplifunum og atburðum sem eru samt eins sannir og ég sit hér og hamra á lapptoppinn minn. Af hverju veit ég ekki. Það er lífsverkefnið mitt að finna út úr þessu öllu.

Café London

Fyrir nokkrum árum þegar ég var liststúdent fórum við nemendur til London að sjá sýningu í Tate safninu í London. Fórum að sjá samsýningu Picasso og Matisse. Svarnir óvinir var sagt um þá í lifanda lífi og voru víst alltaf að metast um hvor væri betri málari og máttu varla hvorn annan sjá. Man eftir einu verki Picasso. Auður stóll í herbergi með yfirgefinn pensilinn liggjandi á stólnum, ærandi þögnin og söknuður eftir vini og samherja.  Málaði þá mynd eftir dauða Matisse. Held þeir hafi nefninlega elskað hvorn annan svona í alvörunni. Skilið og deilt listinni og á stundum þjáningarfullri leið hennar.

Til að ég myndi nú ekki gleyma þessari skemmtilegu ferð í listasafnið keypti ég tímarit sem selt var niðri í miðasölunni og fjallaði um þessa sýningu. Eftir miklar háfleygar pælingar og viturleg ummæli um öll þessi listaverk ákváðum við nokkrir vinir að fá okkur kaffitár á kaffihúsinu á 7. hæð safnsins og njóta um leið útsýnisins yfir Thames ánna. Vinir mínir úr skólanum voru skondnir og skemmtilegir. Við vorum flest mjög hippalega til fara enda að koma úr listaskólanum í sveitinni og djúpum pælingum Steiners alla daga . Áttum aldrei peninga fyrir neinu og það skipti máli hvað kaffi kostaði. Sátum einmitt við borð saman, ég og kona frá Búkarest sem skellihló alltaf af öllu, og tveir karlar. Annar sérvitur prentari úr sveitunum fyrir norðan og hinn gamall hippi sem hafði miklar áhyggjur á þessu okri á kaffinu í London. Meðan þau voru að skoða kaffilistann og bera saman verð á kaffi víða um evrópu fór ég að fletta tímaritinu sem ég hafði keypt mér. Þar rakst ég á grein sem vakti athygli mína. Hún eiginlega greip mig og hélt mér fastri. Fjallaði um Brasilískan eða belgískan ljósmyndara sem tekur myndir af hinum Landlausu. Fólkinu sem á hvergi heima. Á hvergi land sem það hefur rétt á að ganga á. Hvernig er hægt að vera jarðarbúi og mega ekki ganga og lifa á jörðinni??

Með þessari grein fylgdu magnaðar myndir. Ein var heilsíða af lítilli stúlku. Ekki meira en svona 9 ára gamalli. Standandi ein í rykugri auðn svo skítug og svo sorgmædd og týnd. Með dökkt flókið hár og illa klædd í einhverjar fatatægjur. Og augu. Augu sem heltóku mig og soguðu mig inn í sig. Full af áleitnum spurningum og landleysi. Allt í einu var ég hún. Ég stóð í auðninni og fann þreytuna og vonleysið heltaka mig. Reyndi með þurri tungunni að sleikja rykið af vörunum og fann fyrir litlum steinvölunum sem ég stóð berfætt á. Svo magnvana og aum, en samt á sama tíma svo dugleg að lifa af hvern dag í einskis manns landi. Finna mér pláss þar sem ég væri ekki rekin burtu rétt á meðan ég hvíldi mig fyrir óendanlega gönguna. Vitandi að fætur mínir áttu engan réttinn til að ganga á landinu. Það væri brot gegn lögum og reglum einhverra að leyfa steinvölunum að meiða fætur mína. Jarðarbúi sem mátti ekki vera á jörðinni. Og ég var hún og var búin að vera alla hennar ævi. Hafði enga vitund  um að "ég" væri í raun húsmóðir sem ákvað á miðjum aldri að fylgja minningu um að vera listakona og rithöfundur til annars lands og láta á sjálfa sig reyna. Sem mátti stíga niður fæti hvar sem henni þóknaðist og labba berfætt og eiga réttinn til landsins. Jarðarinnar.

Ég flaug, sogaðist. Eins og með krafti sem náði í gegnum tíma og rúm og hávaðinn var á við herþotu á ógnarhraða. Kom utan úr fjarskanum og í gegnum vegginn á kaffihúsinu þar sem safngestir hvíldu lúna fætur og fengu sér kaffisopa. Veggurinn splundraðist og ég lenti á borðum og stólum og fólki og kaffibollum áður en ég magalenti á miðju gólfinu. Lá þarna hreyfingarlaus og þorði ekki að anda. Þorði ekki að opna augun og sjá allt messið í kringum mig. Gat samt ekki alveg skilið hvernig og hvað gerðist. Tók mér óratíma að opna augun og mæta augnaráði hinna sem eflaust vildu skýringar á hvað ég héldi eiginlega að ég væri að gera. Opnaði augun varfærnislega með dúndrandi hjartslátt.

Ég sat í stólnum við kaffiborðið með vinum mínum og þeir voru enn að spá og spekúlera í verðinu á kaffinu. Mikael vinur minn var bara rétt að sleppa orðinu sem hann var að byrja að segja mörgum árum áður. Níu árum áður. Þau höfðu ekkert tekið eftir fjarveru minni og lífið gekk sinn vanagang. Klukkur tifuðu, fólk drakk kaffi og ég var uppfull af tilfinningu um að lífið er ótrúlega skrítið og óútskýranlegt á stundum.  En samt alveg hreina satt. Og eftir situr tilfinning og vitund um að við erum öll eitt.  Að það sé blekking að halda að aðrir komi okkur ekki við. Ég geymi þetta tímarit og skoða stundum myndina til að minna mig á. Set hana hér með svo þið megið velta fyrir ykkur, hugsa og humma á sunnudegi.

landlaus

Þessi færsla er endurbirt.


Dúfukona á leið til heimsborgar að skoða augnhár

dúfukona

Ég var einmitt að segja henni Zordísi vinkonu minni að þegar ég vaknaði í morgun var ég svo full af góðu veðri innra með mér. Sólin komin upp...daggardropar á hverju líffæri, eins og þau væru að stíga upp úr dásamlegu morgunbaði, Sálin fagnandi og maginn muldrandi um morgunmat. Eitthvað hlýtur mig að hafa dreymt gott þó ég muni bara tilfinninguna. Og nú ætla ég að sinna maganum mínum og næra hann með perfect soðnum eggjum og ristuðu brauði skornu í ræmur sem maður dýfir í eggið og lætur rauðuna leka með smjörinu beint í munninn.

Það er ef ég get hætt að brosa. Ég nefninlega brosi hringinn núna. Við erum að leið til London að hjálpa litlu fjölskyldunni að flytja í fína húsið sitt. Og...ömmukrúsin mín hún Alice Þórhildur er komin með augnhár!! Trúiði þessu? Get ekki beðið eftir að sjá hvernig þau fara henni þessari litlu dýrðardömu. Og veðrið er æðislegt. Sólskin og blíða, skógurinn andvarpar hérna hinu megin við götuna og hvítu dúfurnar 3 eru mættar á þak hússins beint á móti. Ég þarf við tækifæri að segja ykkur magnaða dúfusögu. Í gær opnaði svo fyrsta páskaliljan augun sín bara beint fyrir framan útidyrnar. Svo fallega gul og feimin. Slóst þar með í hóp kjaftforra fjólublárra krókusa sem eru búnir að sperra sig í eina viku og halda að þeir séu eitthvað. Hún gnæfir yfir þá alein glæsileg og tíguleg. Horfir bara og segir ekki orð daman. Eins og hún sé yfir þá hafin.

Jájájá...já elskan mín ég er að koma. Já ég veit.   Æ afsakiði.  Maginn er alveg svaka spenntur yfir þessu með eggjunum ristaða brauðinu og smjörinu...! Best að láta hann ekki bíða lengur . Hann er farinn að rymja. Eigið góðan og gleðilegan laugardag bloggaravinir mínir. Kaupi eitthvað sætt handa ykkur í London og set inn mynd af því þegar ég kem heim. Veriði góð.


Túllið túllið taktu mig.....

Ég var eitthvað að gramsa í bókahillunum mínum í dag, spá og spekúlera hverju ég geti pakkað núna því ég er að fara að flytja bráðum. Tími samt ekki að pakka nema örugglega þeim bókum sem ég veit að ég þarf ekki að nota á næstunni. Vandinn er bara sá að ég veit ekkert hvaða bækur geta farið í kassa og hverjar ekki. Svo er það bara hryllileg tilfinning að setja sína bestu vini í pappakassa og út í bílskúr þar sem alls konar kvikindi geta verið á sveimi. Grey bækurnar mínar. Rakst á eina ljóðabók sem ég hef verið að glugga í í kvöld mér til mikillar skemmtunnar. Las eitt ljóð eftir Heiðrek Guðmundsson sem heitir Heilræði ömmu þinnar. Og af því að ömmur eru oft svo vitrar og góðar og segja það sem skiptir máli..spyrjiði bara mig nýbakaða ömmuna..læt ég fylgja hér 2 falleg erindi... sem eiga erindi.... til okkar allra.

 

Æviskeið mitt, ungi vinur,                                                     Aldrei skaltu að leiðum lesti

ætla má að styttist senn.                                                      leita í fari annars manns

Harla fátt af fornum dómum                                                 aðeins grafa ennþá dýpra

fullu gildi  heldur enn.                                                          eftir bestu kostum hans.

 Endurmeti sínar sakir                                                          Geymdu ekki gjafir þínar

sá er dæmir aðra menn.                                                       góðum vini....í dánarkrans.

 

Amma mín kenndi mér að sjá náttúruna og himinhvolfið. Þegar ég gisti hjá henni þegar ég var lítil sagði hún alltaf um leið og hún breiddi yfir mig..Og horfðu nú á túllið útum svenebbeggisgluggann elskan þar til þú sofnar. Og síðan þá er ég ástfangin af túllinu og get setið heilu kvöldin í garðinum og gónt þangað upp endalaust.

tunglið

 

 

 


Olíusól og spekibrot

"Sólin" olía á striga 70x70

sólin

                                                                                                 Here is

                                                             a test to find

                                             whether your mission on earth

                                                         is finished.

                                                                      If you´re alive

                                                                           it isn´t.

from the book Illusions Richard Back

úr bókinni ímyndir eftir Richard Back

 

 


Ekkert sérstakt svo sem...og þó.

einn á steini

Sumir mála sig út í horn og aðrir standa á steinum úti í sjó. Já svoleiðis er lífið stundum.

Man einu sinni þegar ég var að ganga vestur í bæ með dætur mínar þegar þær voru litlar og ég ung. Framhjá mér keyrði kona á trabant og þegar hún sá mig stoppaði hún bílinn sinn og skrúfaði niður rúðuna. Þetta var Vigdis Gríms en hún hafði kennt mér íslensku mörgum árum áður í Flensborg. Eina sem hún sagði eftir að hafa heilsað mér var..Ertu hamingjusöm? Og svo keyrði hún í burtu.

Svolítið sérstakt og situr eftir. Eina spurningin sem skiptir máli kannski?

Ertu hamingjusöm?


Vá hvað ég væri til í gott NUDD!

massage-hotstone-main1

Nudd er allra meina bót. Bæði andlegt og líkamlegt. Ég væri til í það sem var í boði í Santa Fe þar sem eitt frægasta SPA veraldar er...Ten thousands waves..hátt uppí í fjöllunum... og Val Kilmer kemur reglulega. Þar getur maður látið sér líða eins og gyðju í himnaríki..ef maður hefur efni á því. EN oh my God hvað það er dýrðlegur staður. Safna klinki í krukku og vona að ég komist þangað aftur áður en ég dey. Get samt alveg ímyndað mér að akkúrat svona sé himnaríki fyrir utan ógnvænlega leigubílstjórann sem keyrði mig þangað uppeftir. Hann sagði mér ljótar sögur um misrétti og var svo reiður að ég hélt að hann myndi hefna sín á mér saklausum farþeganum.

En sem betur fer kom hann mér heilli á áfangastað og sú sem gerði nuddið hét Grace og sú sem gerði andlitsbaðið hét Angel. Bara gott! Nei dásemd!!


Eniga meniga ..alla vantar peninga.

peningar í tösku

Er ekki einhver þarna úti sem vill fá mig í vinnu. Svona vinnu sem ég get sinnt heiman frá mér í gegnum tölvuna og um leið haft tíma til að skapa og mála og skrifa?

Ha?

Kostar ekki mikið að leigja hæfileika mína nokkra tíma í viku. Bara eina ferðatösku af peningum á mánuði. STÓRA ferðatösku!Wink

Tilboð sendist á kbaldursdottir@gmail.com

Eitthvað fyrir alla...Konur og kalla, krakka með hár og kalla með skalla?


Minningabókin

minningar

Mundu mig , ég man þig. Alla tíð og tíma. Ef þú þarft að finna mig þá hef ég þennan síma.

Fór allt í einu að velta fyrir mér öllum minningabókunum sem ég skrifaði í í den. Ætli nokkur muni í raun eftir því?

Gleym mér ei gleym mér ei.....svo sleit maður upp fallegu gleymméreyjarnar og klíndi þeim á peysuna sína og fannst maður vera mikilvæg og ógleymanleg persóna. Og þar fölnuðu þær og dóu. Gleymdar af öllum vinum sínum gleymméreyjunum sem enn stóðu sperrtar með rætur í jörðu. Ógleymanlegar.

Munum við eftir einhvern tíma vera búin að gleyma hvert öðru og vera bara partur af óljósum minningum um blogg og athugasemdir og orð?

Hvað er það sem situr fastast eftir í minningunum? Ilmur, litur, fólk, hljóð, tilfinning eða tónn. Ég man alltaf lykt. Ilm. Gömlu ilmvötnin mín skapa heilar kvikmyndir og hvert smáatriði sem tengist þeim.

Verð að sjá Ilminn þegar hún kemur í bíó.

Man hvað hún hafði mikil áhrif á mig þegar ég las hana fyrir langa löngu. Man ekki einu sinni hvers vegna. Hún bara gerir það. Minning sem er lifandi en samt gleymd.

 

Mundu mig...ég man þig!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 119
  • Frá upphafi: 311095

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 119
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband