Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

..........................................

cant see

Nú er kona svo syfjuð að hún nennir ekki að blogga neitt.

Er bara tóm og hefur engar hugmyndir en samt svo full.

Full af skemmtilegheitum dagsins, samveru, góðum mat og heimsókn í hús þar sem agnarlítil mannvera er mætt.

Svo syfjuð að hún svaf mestalla leiðina heim.

Hangir nú yfir kertaljósi og hugsar um að verða græn og væn við sjálfa sig.

green woman

Hinir horfa á boltann og rúmið kallar og sængin býður faðmlag sem freistar.

Augnlokin þyngri en gamlar syndir sem þó eru flognar á brott með fyrirgefningunni.

Morgundagurinn bíður og líður áður en kona veit af.

Ætli einhver viti hvað tíminnn er farinn að líða hratt?

Að morgundagurinn er orðinn að minningu áður en hann kemur?

Og einu ummerkin eru tómar krukkur í skáp og hrukkur í augnhvörmum?

Eini tíminn sem maður hefur til að vera til er í draumi sem líður hægt.

Svo hægt að maður kemst ekki úr sporunum. Og er alltaf of sein.

Best að sofa smá og hraðspóla inn í framtíðina.

Þessar flugleiðingar eru í mínu boði.

höfuð

Góða hæga drauma öll sömul.

 

 


Framlengd bloggpása

ég sé!!!

Þetta er ekki raunverulegt blogg enda er ég í bloggpásu með fullt hús af fólki.

En hvað segir þessi mynd eiginlega???


Bloggpása

sofandi engill

Nú ætla ég að leggjast í bloggpásuhýði og taka á móti kærum gestum sem eru núna á flugi á leið til okkar hér og lenda á enskri grundu eftir tvo tíma. Lítill afa og ömmustrákur að koma í fyrsta skipti til útlanda og sjá og skoða svolítið af heiminum, hitta litlu nýju frænkuna sína og hér verður stórfjölskyldu hittingur. Taka mynd af hópnum sem hefur stækkað svo mikið undanfarið, bara meiri gleði og hamingja.

Sofa í hverju skoti og borða ölll saman við stóra borðstofuborðið, spjalla, hlægja og vera saman.

Sitja í garðinum og fara í góðar göngur um gamla bæinn með börnin.  Faðmlög og sönglög.

give me a hug

Bless á meðan!


Gangur himintungla og við

gangur himintungla

Á fæðingarstundu þinni er jörðin, tunglið og sólin í ákveðinni afstöðu og sú afstaða kemur ekki upp aftur fyrr en að 18 árum og 7 mánuðum liðnum og þá vill það oft gerast að við tökum afdrifaríkar ákvarðanir um breytingar á lífi okkar.

 Þegar ég var 18 ára 7 mánaða og tveggja daga tók ég stóra beygju í lífinu og við tók algerlega nýtt tímabil.

18 árum síðar og 7 mánuðum og tveimur dögum eftir það flutti ég úr landi og fór í nám og byrjaði algerlega nýjan kafla í lífi mínu. Einn stjörnuspekingur sem ég hitti..var að segja mér frá þessu...sagði líka að stundum fengi fólk mjög sterka tilfinningu fyrir að gera breytingar á þessum tímum...en svo færi það líka eftir hversu fljótt fólk bregst við því sem það finnur innra með sér...

Samt gaman að skoða þetta....

Wizard


þroski stráka og manndómsvígslur

 

í vasanum hans litla

Ég er að lesa bók sem heitir Raising boys en hún fjallar um af hverju drengir eru -öðruvísi og hvernig hægt er að hjálpa þeim að verða hamingjusamir og glaðir menn í góðu jafnvægi. Menn sem eru fullir sjálfstrausts og gæsku. Hvernig strákar læra nærgætni  gagnvart kynlífi og samböndum og hvernig skólar þurfa að breytast svo þeir verði góðir staðir fyrir fjörmikla stráka. Testosteronið breytir hegðuninni þegar það eykst svona mikið og heilinn í strákum virðist virka öðruvísi líka.

Þarna er líka talað um manndómsvígsluna sem er víst mjög mikilvæg fyrir unga drengina..og verið lögð mikil áhersla á hana í mörgum menningarsamfélögum þó hún fyrirfinnist ekki í vestrænum samfélögum. Bókin er skrifuð af Steve Biddulph og ég er að lesa mér til þar sem strákurinn minn er einmitt að fara af stað í gegnum umbreytinguna að vera strákur yfir í að vera ungur maður. Skrifa kannski meira þegar ég er búin að lesa meira..ef ég rekst á eitthvað merkilegt sem á erindi. Er bara rétt búin að renna í gegn og kíkja yfir kaflaheiti og svona. Staldra samt við þetta með manndómsvígsluna...hef einhvernveginn á tilfinningunni að hún sé mikilvæg en sé ekki fyrir mér hvernig hún ætti að vera í þessum samfélögum sem við lifum í í dag...?

Þetta eru nefninlega oft erfiðir tímar að fara í gegnum bæði fyrir unglinginn og foreldrana. Ég á tvær dætur sem eru núna orðnar ungar konur, svo eina litla og svo strákinn og verð að viðurkenna að mér finnst ég öruggari að fylgja dætrunum í gegnum svona prósess en stráknum . Örugglega bara vegna eigin reynslu sem kona. En mig langar að gera vel..og skilja betur þennan umbreytingarprósess og geta miðlað því sem hjálpar.  Auðvitað er pabbinn frábær og eyðir góðum tíma með stráknum en mig langar að skilja betur þennan heim strákanna.

Annars er þetta svo fínn strákur og góður..að ég held að hann sigli bara með stæl í gegnum þessi þroskaár.Heart

 


Mér finnst rigningin góð....

                          rain

Drip drop, drip drop...rigningin er góð og bleytir vel upp í þvottinum sem hangir á snúrunum fyrir utan gluggann.

Of blautt til að ganga um engin og skógarstígana í drullunni þegar maður á ekki stígvél. Kaupi þessi grænu sem ég sá í glugganum á veiðibúðinni. Aðeins 9 pund nítíuogníu.

Einmitt svona dagur til að horfa á myndina sem vinur okkar góði skutlaði yfir til okkar í gær. Myndin um Ceslestine handritin. Margir sem hafa lesið bókina?

Svo er önnur mynd sem bíður. Illuminate. Um alheimssamsærið. Eitthvað fyrir mig. Örugglega engin tilviljun að það rignir svona í dag. Hið falda vald að verki. Til að halda mér frá góðum áætlunum um skógargöngu á hverjum morgni. Ekki eins auðveld og ég sýnist ha?

auga í krús

Hið alsjáandi auga!

Já ég þarf líka að fá mér almennilega regnhlíf svo gervinjósnatunglin sjá ekki hver er undir henni og hvert hver er að fara. Jamm.

Regn gerir mig smá skrítna. Get svarið það og mér finnst bara gaman að sjá þvottinn svona rennandi blautan.

Eigið góðan dag..Wink

 

 


Speglanir

Speglunin.

auga í hendi 

Mig langar að biðja bloggvini mína að spegla svolítið fyrir mig. Mig nefninlega dreymdi svo merkilegan draum síðastliðna nótt. Ég var að hengja upp spegla af öllum stærðum og gerðum með mismunandi römmum og mismunandi skýrri mynd í hverjum og einum. Og meðan ég var að gera það var ein spurning ráðandi. Hvað spegla myndirnar mínar og hvernig. Um hvað eru þær og hvernig tala þær til fólks?

í galleríinu mínu eru myndir frá því áður en ég lærði nokkuð að mála..myndir frá því tímabili þegar ég var að læra að mála og myndir eftir að ég lærði að mála. En þær koma allar frá sama stað. Innra með mér og innri tilfinningu. Aldrei neitt ákveðið fyrirfram en tilfinningin látin ráða ferðinni.

Núna langar mig..þar sem ég er að byrja að mála fyrir nokkuð stóra sýningu hérna..að biðja ykkur að segja mér og gefa mér álit ykkar á hvað ykkur finnst. Galleríið mitt er hér...og flestar myndirnar mínar. Tala þær til ykkar og þá um hvað? Það að mála og setja verkin sín upp á vegg er fyir mér að hengja sjálfa sig upp og bíða álits. Ef þið vilduð vera svo væn og vera einlæg og segja mér hvað ykkur finnst og hvers vegna væri þörf innsýn í að skilja betur hvert ég er að fara sem listakona. Viljið þið vera speglarnir mínir? Og segja mér á hreinskilin hátt hvernig þær virka á ykkur?

speglun

Þætti vænt um það og ég lofa að verða ekki fúl eða leið ef þær höfða ekki til ykkar. Vil bara sjá hvað er hvað. Hvort ég er á þeirri leið sem ég held að ég sé á.Heart


Bókvitið

bókvitið

Hvað er það merkilegasta sem þú hefur lesið í bók?

Og hverju breytti sú viska sem þú last og namst og af hverju?

Hver er sá höfundur sem hefur haft mest áhrif á þig?

Hver er viskan sem breytti öllu viðhorfinu?

Var það skólabók eða einhver önnur bók?

Já ég veit fullt af spurningum en góðar og mikilvægar samt.


Ég er svo ógeðslega gáfuð, djúp og menntuð að það skilur mig enginn!

Ég er búin að vera eitthvað svo grútesk undanfarið. Stíllinn á myndum mínum lýsir ferskum kúbisma og tekur um leið mið af platónskum hugsunum patrónismans.

Að vera maður, að vera kona, felur í sér feminiska hlýhugsun sem lyftir valdi innsæis kjarnans. Humanismi í sinni socialískustu mynd.

Lögmál andans lýtur tæknilegum fílósópískum hugarheimi athafnamannsins. Kapítalismans sem veit að peningurinn er drifkratur sköpunarsinnans. Þarna mætast heimar áður ótengdir en hvirflast nú um hver í öðrum vegna eignleika hins gjafmilda súrrealisma.

táknmyndir

Ó hve gáfur okkar hafa fleytt mannkyni langt. Yfir stokka og steina huldufólks og mannálfa, trúar á tröll í líki fjárfestingarfrumkvöðla. Menntun er máttur og menntasnobbið virkjar hvaða möndluhaus um fjall og dal og bláan sand menningarheimanna. . Megi ég ætíð bera menntunnar minnar merki og muna að mæla mál svo möndluhausar eigi nemi.

Megi ég vera trúður á torgi hins himneska auðs í kindum talið og aldregi gleyma uppruna mínum. Hirðfíflið sem stöðugt skemmtir skrattanum sem segist vera kóngurinn. Súrrealísminn ræður ekki við einteyming metaphorsins.

Gvöð hvað það er ógeðslega kúl að vera svona gáfuð á miðvikudegi.

 Best að fá sér góða göngu og hreinsa aðeins gáfurnar út í skiptum fyrir ferskt og gott loft.

Ekki veitir af.

hlutverkin

Ég er appelsínugul

hjól og hús

Um daginn keypti ég mér appelsínugula mussu.

Þegar ég labbaði framhjá búðarglugganum kallaði hún á mig, hvíslaði svo til mín þegar maðurinn minn heyrði ekki og lokkaði mig svo inn til að kaupa sig. Mér finnst ég voða fín í henni.

Í gær gekk ég framhjá öðrum búðarglugga og þar voru litlir appelsínugulir skór. Úr rúskinni og flatbotna með lítilli appelsínugulri flauelislaufu á ristinni. Þeir söguð...hæ við viljum að þú gangir á okkur og takir okkur með þér hvert sem þú ferð. Ég fór ekki inn en lofaði þeim að koma og sækja þá næst þegar ég ætti pening. Þeir skríktu og brostu hvor til annars.

Svo fór ég á markaðinn í dag og keypti kíló af appelsínum. Safaríkum og sætum og ætla að búa mér til appelsínudjús í fyrramálið.

oranges

 

Ég er meira að segja að hugsa um að kaupa appelsínugul sumarblóm og hengja við útidyrnar.

APPELSÍNUGUL


Næsta síða »

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband