Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Set hér inn eldri færslu um umferðartungumálið sem íslendingar ættu kannski að tileinka sér á nýju ári

 Þessi færsla var skrifuð og birt í janúar á þessu ári þegar ég bjó í englandi og kynntist umferðarmenningu sem mig dreymir um að sjá hér heima.

Með dýróðum dreka eða hæglátum umferðarormi undir stýri

Mér finnst ég alltaf betri manneskja þegar ég kem heim af bæjarrúntinum. Hjarta mitt er fullt af gleði og þakklæti og ég myndi helst vilja taka aukarúnt og fylla aðeins meira á þessa tilfinningu um samkennd og góðvilja, bæði míns og annarra.

Ég gengst upp í því að gefa öðrum sénsa, hægja á mér og hleypa öðrum bílum að og stoppa fyrir vegfarendum sem þurfa að komast yfir götur. Líka þó það séu ekki gamlar eða óléttar konur. í staðinn fæ ég falleg bros að launum, sumir veifa mér og jafnvel blikka mig, sumir með augunum og aðrir með ljósunum. Og mér finnst ég fínn bílstjóri og vanda mig enn betur næst þegar ég fer á rúntinn. í þessum litla bæ sem ég bý í þykir flott að vera kurteis og sýna tillitssemi. Sérstaklega í umferðinni.

Það er eins og einhver samvitund sé að verki þegar við keyrum um á morgnana þegar umferðarþunginn er hvað mestur. Eins og allir sem sitja undir stýri skilji að með því að hliðra til og gefa séns þar sem hægt er, komumst við öll fyrr á áfangastað og að öllum líkindum áfallalaust. Og að það hjálpi engum..hvorki þér né neinum öðrum að vera frussandi af geðvonsku, blótandi og jafnvel berjandi aðra ökumenn í huganum undir stýri til að troðast þangað sem þú þarft að komast.

Þetta snýst allt um hugarfar og innri tilfinningu. Umferðarmenning er ekkert annað en persónuleiki þinn að eiga samskipti við aðra persónuleika sem eiga það allir sameiginlegt að vera að stýra ökutækjum um fjölfarnar leiðir og eftir ákveðnum reglum.

Það er næstum hægt að kalla þetta  umferðartungumál. Mér finnst þegar ég kem heim til Íslands að ég sé ekki lengur hlekkur í góðum umferðarormi sem liðast um göturnar með bros á vör heldur sé ég sést a bak bandóðum dreka sem vill helst allt og alla éta lifandi eða steikja í geðvonskueldi. Og hann bara kemst ekki nægilega hratt fyrir öllum fávitunum sem eru að þvælast fyrir honum svo hann refsar öllum hægri vinstri sem hindra för hans. Hann ætlar sko ekki að láta neinn segja sér hvernig hann kemst fyrstur heim.

Minnir mig á einn íslenskan frænda sem aldrei gefur stefnuljós. Þegar móðir hans gerði athugasemd við þá hegðan sagði hann með banvænum íslenskum umferðarhrokahroka "Það kemur engum það andskotans við hvert ég er að fara og reykspólaði af stað"!!!!

Og að lokum vil ég benda á að í mínum litla bær eru afskaplega litlar og mjóar götur. Það er ekki einu sinni pláss til að breikka þær eða tvöfalda og eftir þeirri staðreynd reynum við bara að keyra.

Megið þið öll eiga geðgóðan dag í umferðinni og leyfa kurteisi, tillitssemi og geðprýði að skína út frá ykkar persónuleika þar sem hann situr undir stýri og veit hvað skiptir máli svo þið megið öll komast heil heim.  Og allir saman nú...Veifa, blikka  brosa og bjóða greiða leið á götum úti !!!!Wink


Ökufantur á bíl númer.....

..jiii hvað ég er næstum tilbúin að setja hér inn bílnúmer á bílnum sem hafði næstum valdið umferðarslysi eða slysum á kringlumýrarbrautinni í dag.  Við vorum að koma keyrandi í gegnum kópavoginn með 4 af börnunum okkar í bílnum..þar með talin litla ömmustelpan Alice Þórhildur þegar einhver ökufantur sem er örugglega með bráðnandi klakamola í höfðinu í stað heila...gerði sér lítið fyrir og sveigði inn á milli bíla á fleygiferð án þess að gefa stefnuljós og án þess að það væri nokkurt pláss fyrir hann eða færi á svona stórklikkuðu aksturslagi.. Hann setti a.m.k fjóra bíla og þá sem í þeim voru í stórhættu. Ég varð svo bullandi reið yfir þessum fávitagangi og þeirri tilhugsun að þarna munaði ekki nema nokkrum centimetrum að stórslys hefði getað orðið á saklausu fólki að ég reif upp símann og tilkynnti ökuníðinginn til lögreglu. Ég hvet fólk til að gera það sama hvar sem það verður vitni að ofsaakstri í umferðinni því það eru hreinar línur að svona vitleysingar eiga ekki að hafa aðgengi að ökutækjum og mega mín vegna frjósa á ferðum sínum á þríhjólum með hjálpardekkjum á gangstéttum borgarinnar.

Guði sé lof að við erum öll heil, ég má ekki til þess hugsa hvað hefði getað gerst...slys gerast stundum og það getur enginn mannlegur máttur komið í veg fyrir þau...en svona uppákomur þar sem hreinn fíflaskapur og vitleysisgangur ræður ríkjum má og á að vera hægt að koma í veg fyrir.  Hér eftir mun ég tilkynna hvern þann sem ég sé keyra eins og fáviti um göturnar beinustu leið til lögreglunnar. Ég veit samt ekkert hvort lögreglan bregst við svona tilkynningum en ef hún fær ítrekaðar tilkynningar um sömu ökufantana hlýtur að vera hægt að stöðva háskaför þeirra um göturnar..bara trúi ekki öðru.

Ég er með bílnúmerið og kannski að ég birti það ef það mætti verða til að viðkomandi ökumaður hægi aðeins á sér og vandi sig við aksturinn sem er dauðans alvara.

Ætla að hugsa málið.

 


Inná milli jóla og nýárs

Hvað geta dillkryddkorn verið löng? Ég var að fá mér smá graflax og sósu með og þegar ég ætlaði að setja uppí mig síðasta bitann sá ég að það var óvenju langt dillkorn í sósunni..það var svo langt að það hreinlega getur ekki verið kryddkorn. það var eiginlega jafnlangt og kóngulóarlöpp og trúið mér....ég veit hvað þær eru langar. Það gerðist nefninlega hér um daginn að ég sat og sprændi eins og saklaus sveitasprund í sveit í mínu fallega baðherbergi og varð þá litið upp í horn og sá eina enska kónguló hanga þar eins og feimið jólaskraut. Hún hlýtur að hafa smyglað sér með yfir hafið með kommóðunni þar sem við geymum húfur og vettlinga og skriðið út og fundið sér alíslenskt horn til að fagna jólum.

Núna er ég nokkuð vissum að þetta langa dill í sósunni hafi verið  ein löppin á henni og get ekki annað en hugsað um hvar restin af henni sé. Vonandi ekki í maganum á mér!!!Pinch Ég get svo svarið það að þegar ég sit grafkyrr þá finn ég litla veru stíga léttan sjöfættan dans í maganum á mér..Oh my, oh my!!  Það væri nú alveg eftir öllu að ég færi að taka upp á því að borða köngló svona á milli hátíðanna.

Ég hef alveg helling að blogga um en ég sit hér í stríði við litla putta Alicar Þórhildar sem elskar að hamra á lyklaborðið með ömmu sinni sem gefst fljótlega upp á að reyna að blogga að einhverju viti og þar fyrir utan þarf ég að slást við restina af familíunni um tölvuna..það skýrir lang bil á milli blogga og alltof fá innlistskvitt hjá bloggvinum mínum. En ég reyni að kíkja við eins oft og ég get.

Verð að fara...er með einhvern furðulegan kitling upp eftir vélindanu í mér og þori ekki fyrir mitt litla líf að opna munninn...hjálp!!!!

 


Einu sinni á jólanótt...

...er rétt komin heim af einni af nýju hefðunum mínum. Hefð er ekki hefð fyrr en maður hefur endurtekið efnið nokkrum sinnum en stundum gerist það að maður þarf bara að fara einu sinni og þá veit maður í hjarta sínu að hefðin er fædd og það á heilagri jólanótt.

Fórum í miðnæturmessu í Fríkirkjunni og hlustuðum á Pál Óskar og Moniku..Palli tók eitt af sínum eðaldiskólögum með hörpu-undirleik og prestsskonan var svo fallega hvítklædd með fjaðraskraut í hárinu og maðurinn fyrir framan mig felldi tár þegar Palli söng með mér..ok ...líka öllum hinum...við semsagt sungum viðlag við lag um geimverumanninn og engilinn sem hann var í raun. Bara MAGNIFICENT miðnæturs jólastund!!!Heart

Og ég bara veit að þetta er núna orðin hefð í mínu lífi að mæta...þó ég sé bara búin að fara einu sinni.

Núna ætla ég að skríða uppí rúm og byrja að lesa Sköpunarsögur..tek með mér örfáa konfektmola og einn dropa af appelsíni. Pabbinn og drengurinn halda eflaust áfram að reyna að pússla pússlinu saman á borðstofuborðinu. Hva..það þarf enginn að vakna í fyrramál nema hrafnarnir og spörfuglarnir og á morgun munum við hvort eð er ekki gera neitt nema að spranga um heimilið á JOE BOXER náttbuxum...sumir í þrennum.... lesa, spila, horfa á jólamyndir og borða afganga meðan magamál leyfir. Sofið vel og njótið jólanna alla leið.

Bíð svo spennt eftir áramótunumm...þau eru bara best!!!

Jólakoss um nótt!!!

snow_carpet


Jólakortið til ykkar í ár

Gleðileg jól elsku bloggvinir og megið þið eiga dýrðlegar hátíðarstundir og húsin ykkar ilma af hangiketi og piparkökum, ljós loga í hverjum glugga og ylur búa í hjarta og huga. Friður færast um allt, skríkjandi jólaenglar syngja ykkur í svefn hvert kvöld og skærasta stjarna himnanna vaka yfir þeim er í húsi ykkar sofa á köldum og dimmum vetrarnóttum. Megi jólaandinn sannanlega taka sér bólfestu í ykkur, mér og þér og okkur öllum nú og ætíð and foreverWink

Jólaknús og kærleikskveðjur

englasöngur


Er´etta kannski jólablogg???

Júmms þetta er jólablogg!!!

Kjötfars og hvítkál með kartöflum og bræddu smjörlíki og mömmu í jólaskapi.

Það er mín jólastemming...á leið í bæinn að redda smá gjöf fyrir morgundaginn.  Skyld´ða vera jólahjól??? Nei ekk alveg. Ég er búin að vera á svo miklu spani og ani...en í dag tók ég mér frí og heimsótti mínar bestustu vinkonur. Morgunkaffi og hádegiskaffi. Við höfum þekkst síðan við vorum 5 og 7 ára gamlar. Heilum fjörtíu árum síðar finnum við enn tengingu sem tengist beint í gegnum barnshjartaðHeart Við vitum hvaðan við komum og hvert leiðin hefur legið....og við þekkjum foreldra hvor annarrrar og spyrjumst fyrir um hvernig þau hafi það.  Það jafnast ekkert á við fortíð í skilningi og þekkingu...við munum og við vitum. Þurfum ekkert að þykjast.

Svo var kærkominn kaffibolli hjá systu minni kærustu þar sem við deildum minningum og krúttikornum úr lífinu. Svoleiðis hefur þessi dagur verið og núna er stefnan tekin á að sækja Sunnevuna fallegustu á Keflavík um miðnætti og þá er fjölskyldan fullkomnuð fyrir hátíðarnar.

Ég og Óli, Karen og litla Alice Þórhildur, Nói, Theodóra og Sunneva. Við öll hér um jólin ásamt ykkur bloggvinum. Mikið finnst mér mikið til ykkar koma.InLove

Fæst höfum við hittst en samt gefið svo mikið. Þannig á lífið að vera. Fallegt og gjöfult.

 Þau ykkar sem ég hef þá hitt eruð fegurri og betri en í eigin bloggpersónu. Jólin eru um fólk sem hefur hjartað á sínum stað..fólk sem þorir og vill vera það sjálft og kann að gefa af sér. Ég held svona þegar yfir er litið að mína besta gjöf um árið hafi verið að gerast bloggari og kynnast ykkur öðlingar og koma aftur heim í mitt kæra kot...Íslandið!!!

FMF199~Solitude-Posters

Það er gott að hafa nýja sjón á það sem gerir vel.  Elska ykkur öll og er nú farin að kaupa fleiri jólagjafir.....og klára að kyngja kjötfarsinu áður en haldið er til Keflavíkur að sækja síðasta fjölskyldubrotið ....Sunnevu sem er að koma frá Englandi...svo við getum fagnað jólunum saman. Um það eru nefninlega jólin..við og við og við!!!

Krúttmolakveðjur og jólaknús

Katarína

rauð kerti


Svo svakalega langt á milli mín og mín

Ég bara get ekki bloggað í einni bunu eða daglega núna þar sem mér finnst eitt í dag og annað á morgun og skipti um skoðun hraðar en nærbuxur og er þá mikið sagt!! Er það ekki merkilegt með lífið og tilveruna að þegar maður heldur að maður sé komin með sitt allt á hreint..svona nokkurn veginn.... að þá breytist allt og umturnast og það sem var í gær er ekki til í dag?? Ég er bara stöðugt að koma sjálfri mér á óvart með því sem ég geri og hef gaman af. Sumt af því hefði ég svarið fyrir að mér þætti eitthvað varið í en núna er ég skemmtilega glöð og ánægð með allt þetta sem ég er að gera og hefði aldrei ímyndað mér að ég ætti til að gera. Hún þessi hin ég sem skyndilega ryðst fram á sjónarsviðið og lætur eins og hún heyri ekki mína eigin fordóma og gömlu raddir sem segja..."En þetta er bara svo ekki ég" Hin nýja ég sæki t.d reglulega kirkju á sunnudagsmorgnum og borða svo súpu og brauð með öðrum safnaðarmeðlimum og finnst það bara algerlega frábærlega góð og skemmtileg upplifun, fór á jólaball í dag og skellihló að stórskemmtilegum jólasveinum, söng og trallaði og borðaði súkkulaðiköku með þeyttum rjóma og knúsaði barnabarnið sem var hræddara við jólasveinana en ég er við bankastjóra.

Ég er líka búin að liggja í skáldsögum og krimmabókum sem ég les aldrei.... og núna rétt áður en ég skríð í ból velti ég fyrir mér hvað það verður á morgun sem mun koma mér stórfenglega á óvart í  hegðun minni og atferli. Hvað hún hin ég ætlar að upplifa og prufa þrátt fyrir að ég segi það hátt og skírt að það sé bara ekki við mitt hæfi og "svo ekki ég"

Er ég dæmigerð tvíburakona eða er ég búin að tapa glórunni minni litlu einu og sönnu??? 

Jussumía...en ég viðurkenni það alveg að ég er spennt að vakna á morgun og sjá hvað bíður mín af óvæntum og sérkennilegum lífsupplifunum..hef það á tilfinningunni að það verði eitthvað sem vert er að skrifa um.

Hafiði lent íessu???

Einhver??

200147625-002


Þar sem mín fína færsla fauk út í veður og vind....

....er ég komin í verkfall og skrifa ekki aftur allt sem ég hafði skrifað áður og læt hér við sitja.Pouty

Er að hugsa um að fá mér göngutúr í kringum pollinn....tjörnina... og sjá hvort það rjúki ekki úr mér vonbrigðin yfir tapaðri færslu.

Bláu jólaljósin í stofuglugganum kæta mig og flottu jólaenglarnir og stjörnurnar sem krakkarnir hafa sett í hvern glugga með jólaspreyi eru guðdómlega falleg en bæta þó ekki stöðuna á eldrauða jólaenglinum sem er toppurinn á jólatrénu og hallar ískyggilega mikið undir flatt. Og ég halla mér undir flatt líka...Spurningin er..."Hvað gerist næst"? Ég hef núna gengið yfir sjó og land og hitt þar einn gamlan mann sagði svo og spurði svo...Hvar á ég heima?

Bíð spennt eftir svarinu.

Winter


Fjúkandi rjúkandi rokhviður í lífsins ólgujólasjó

Ég var rétt aö fjúka heim úr Hafnarfirðinum þar sem er kolvitlaust veður eftir aö hafa kíkt í heimsókn til mágs míns með blóm í tilefni afmælis hans í sl viku. Ætlaði auðvitað fyrir löngu að vera farin með blómin en það hefur verið svo mikið að gera. Veit ekki hvað hefur gerst síðan ég kom heim. Ég er bara á spani og ani alla daga út og suður.

Stikla bara á stóru hér og tylli niður tám á þeim stöðum sem mér finnst bloggverðir.

Á föstudagssíðdeginu þegar ég keyrði í gegnum hringtorgið í vesturbænum í kulda og frosti næstum því kúrandi og volandi við stýrið sá ég skemmtilega sjón sem hlýjaði mér um hjartarætur. Á miðju hringtorginu í fönn sat maður á postulínsklósetti með brækurnar niður um sig og las í bók. "Það er ekki einleikið hvað jólabókavertíðin nær víða þessa dagana" hugsaði ég með sjálfri mér og kímdi. Ég sjálf nýbúin að lesa bók Arnaldar Indriðasonar Harðskafi liggjandi í flensu undir sæng og það hefði aldrei hvarflað að mér að setjast út á hringtorgið og pissa þar meðan ég las. Alltof kalt fyrir utan það að vera kannski of spéhrædd til að gera slíkt. Ég veit reyndar ekki hvað maðurinn var að lesa þarna...en það hlýtur að hafa verið mjög spennandi!!!!! Mæli hins vegar mjög með Harðskafanum og myndinni sem ég fór með krökkunum að sjá um helgina...Duggholufólkið.  Þrjár gelgjur sem sátu á næsta bekk fyrir aftan okkur flúðu salinn argandi og gargandi vegna spennunnar. Algerlega frábær mynd og mæli ég eindregið með henni fyrir alla fjölskylduna. Bloggvinir mínir koma víða við..Ásthildur Cesil kemur þar við sögu og svo Beta bloggari sem klippir myndina. Bara fimmstjörnubíó þarna á ferðinni.Smile

Ekki finnst þó öllum málverkasýningin mín vera fimmstjörnu virði og fékk ég póst um það í gestabókina á blogginu sem ég vil endilega að þið lesið. Get því miður ekki kópíað og peistað það hingað inn. Það er alltaf lærdómsríkt að sjá hvernig aðrir upplifa það sem maður er að gera.

Að halda sýningu er eins og að setja sjálfan sig á vegginn allsberan og bíða dómsins. Og maður fær hann beint í æð. Bæði jákæðan og neikvæðan. Og við það verður maður að lifa eða deyja. Þannig er bara lífið og listin að lifa. Maður gerir aldrei öllum til geðs...þess vegna er mest um vert að vera sjálfum sér trúr  hvað sem tautar og raular.  Við erum jú eina manneskjan sem við þurfum að lifa með í gegnum súrt og sætt alla tíð og það er engin undankomuleið út úr því.

Annars er það helst að frétta að jólaskapið er í góðu formi og jólaljósið komið í eldhúsgluggann ásamt 6 glitrandi jólaeplum og heilsan í fínu lagi eftir smá aðlögun að íslensku veðurfari með hósta hnerrra og hálsbólgum.

Og hið íslenska rok sem nú hvín fyrir utan gluggann minn finnst mér einstaklega sjarmerandi og hressandi og ég finn bara hvernig það feykir burtu því sem þarf að fara. Best ég kíki út á hringtorgið og athugi með manninn sem les þar á klóinu...trúii ekki öðru en að hann sé kominn í skjól og búinn að hysja upp um sig brækurnar og bækurnar.

Óskabókin mín í ár er Sköpunarsögur með viðtölum við rithöfunda. Þá verður minn jóladagur fullkominn..á náttbuxum með appelsín og malt og Nóakonfekt að lesa í snjókomu.

Bara perfect!!!Heart

Knús og Jólamús.

trees

 

 

 

 

 

 

 


Gamli góði vinnustaðurinn í nýju hlutverki...og ég líka!!

Það var góð tilfinning að koma inn á gamla góða vinnustaðinn minn eftir langa fjarveru og setja þar upp myndlistarsýningu.  Endur fyrir löngu þegar ég var yngri var útvarpsstöðin Aðalstöðin fm 90.0 þarna til húsa og þarna kynntist ég mörgu frábæru fólki. Gurrí bloggstjarna var þarna með bókaþætti og kaffiþætti og spilaði skemmtilega tónlist og lét auðvitað sinn einstaka húmor skína skært, Jóna Á Gísladóttir bloggvinkona las svo auglýsingarnar og Zordís bloggvinkona var þarna um tíma líka ásamt Ingibjörgu Gunnars sem er líka ein af bloggvinkonum mínum.

Ég var með útvarpsþætti og seldi auglýsingar og það var yndislegt að vinna í þessu gamla húsi sem er fullt af sögu og sál. Núna hefur það verið endurbyggt í formi hótels og kaffibars og þar er einmitt sýningin mín. Gömlu hlöðnu veggirnir og trébitarnir hafa eflaust margar sögur að segja og geta örugglega raulað mörg kunnugleg lög og gamla góða slagara fyrir gesti og gangandi en eru nú bakgrunnur saga sem sagðar eru í litum og formum. Áður var ég útvarpskona í þessu húsi og núna er ég myndlistarkona. Mér þykir voða vænt um að geta farið svona hring í lífinu og eiga viðkomu í sama húsinu en núna í annars konar hlutverki. Þannig er reyndar lífið svo oft.

Opnunin var sl laugardag og þar komu vinir og vandamenn ásamt nokkrum bloggvinum til að samfagna mér og það var yndislega góð stund fyrir mig. 

Ég ætlaði að setja inn nokkrar myndir frá opnuninni en "tæknin er eitthvað að stríða mér hér"..þetta sagði maður nú stundum þegar manni brást bogalistin á útsendingarborðinu í útvarpinu í denn ....svo ég tók mér það bessaleyfi að fá lánaða fína mynd sem Guðmundur bloggvinur minn tók í gær þegar hann fór og kíkti á myndirnar. Vona að það sé í lagi.

katrin_snaeholm_syning_1

 

 

Þið eruð auðvitað öll hjartanlega velkomin að kíkja við og skoða í Aðalstrætinu númer 16. Það er svo huggulegt að fá sér kaffisopa í þessu fína húsi enda jólastemmingin í miðbænum alveg einstök núna.  

Ég tapaði aðeins fyrir flensu frænku eftir allan atganginn en verð örugglega orðin stálslegin fyrir vikulok.

Allvega verð ég þar eitthvað um helgina og drekk kaffi með gestum og gangandi. Get þá líka sagt ykkur sögur af myndunum.

p.s fyrirfram þökk fyrir allar batakveðjur en í alvöru..mér er svo að batna!!!!Heart "Það tekur bara tíma að aðlagast íslenska veðurfarinu" segi ég líkamanum mínum og klappa honum góðlátlega.

Sýningarstaður er

Hótel Reykjavík Centrum, café /bar Uppsalir

Aðalstræti 16.

Allir hjartanlega velkomnir. HeartHeartHeart

 

 

 


Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband