Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Jæja , safnaði mér 599 krónum og á nú fullt af myndaplássi og nýjan bloggvin sem málar með kaffi!!

Þetta var nú ekki erfið aðgerð þegar að henni kom. Að kaupa meira myndapláss en eins og þið vitið er ég löngu orðin full....af myndum..... og varð að auka plássið og víðsýnina mína.

Á flakki mínu um bloggheima rakst ég á skemmtilegan karakter sem málar ofsalega fallegar og skemmtilegar myndir á striga með kaffi.

Það er eitthvað við kaffið. Svo heitt og dulúðugt. Töfrandi.

Kaffisopi á réttri stundu getur læknað ýmis hjartasár og opnað fyrir góðar samræður milli vina. Höfgur ilmurinn og dökki liturinn gera líka sitt. Seyða mann á framandi staði í sjálfum sér og gefa hugarfluginu aukinn kraft. Vekur upp sofandi og heldur vakandi hinum þreyttu. Já alger töfradrykkur og svona lítur hann út kominn á striga og í mynd eftir  Berg Thorberg nýja bloggvin minn. Hann heitir auðvitað KAFFI á bloggvinalistanum mínum.

mynd007

Þessi kaffimynd er eftir hann og heitir... Last supper on pin street.

Já nú brosir lífið við mér.

Sólin farin að skína, heitt á könnunni og ég á fullt hús mynda.

 Reyndar finnst mér að málverkamyndir eigi að heita yndir.

Af því þær eru svo yndislegar.

Ykkur er velkomið að kíkja á yndirnar mínar í galleríinu mínu og svo mæli ég með yndunum hennar Zordísar bloggvinkonu, yndunum hennar Ipanama og kaffi yndunum hans Thorbergs. Ef þið heimsækið síðurnar þeirra getið þið skoðað allar yndirnar þeirra.

Bara svona ef þið viljið auka yndið í lífinu ykkar.

untitledjdgj

 


Litir, ljós og skuggar. Og eitt lítið ljóð.

Í dag er rauður dagur.

 Dagur sem er fullur af krafti, elju og framkvæmdum.

mars

Hjartað í mér er eldrautt sem og blóðið, þó svo að hefðardaman í mér heimti á stundum að um æðar mér renni blátt blóð.

Hún trúir því að þá ætti hún faldar fjársjóðskistur og gullpeninga í handraðanum og gæti framkallað alla sína drauma samstundis, hér og nú.

satúrnus

Og meðan þær þrátta um litinn á blóðinu kemur inn gyðjan Fjólublá.

 Þessi sem hallar sér í tunglskini og horfir yfir heiminn í stökustu ró.

Og segir..."Það þarf ekkert alltaf allt að vera annað hvort eða. Það má og getur líka verið bæði".

Jafnvel allt.

Ég held að hún eigi við að það sé ekkert endilega bara til eitt rétt svar.

 Að svörin séu mörg og margvísleg sem hringsóli í kringum eina spurningu og komi til vegna mismunandi ústýnis þess sem horfir.

Tungl
Kannski dagurinn í dag sé fjólublár.
 Í algeru jafnvægi og vel blandaður,
   rauðum og bláum.
Eða kannski bara
Grænn og fullur af grósku og gleði?
venus
Þetta er þinn dagur svo þú hefur valið í eigin hendi.
Lífið er bara eins á litinn og þú litar það.
Eigið litríkan dag bloggvinir og litfagurt líf.
Litir læðast um lífsins skugga
leika sér og liðast
um króka og kima
Þeirra sem skima
eftir
 veðurblíðu.
Olíumálverk 70x70cm

Ég er alveg mátulega hamingjusöm í dag.

Æ hvað það er notalegt að sitja í rúminu sínu á sunnudagsmorgni og bíða bara eftir að klukkan verði nógu margt til að hringja til íslands. Að hafa svona góðan tíma og nóg af honum. Á meðan getur maður bloggað og bullað, verið vitur og vitlaus, spakur eða spjátrungslegur og hamrað því öllu inn svo aðrir megi lesa listina.

Mér er innanbrjóst eins og hjartað á mér sé að leysast upp í litfagurt ský. Að ég sé ekki raunveruleiki í efni heldur bara anda. Kannski er þetta hamingjan sem sækir mann svona heim. óræð og litfögur, látlaus en samt svo ljóslifandi.

sólin

 Eitthvað svo létt á mér. Líka líkamlega.

Fannst eins og aukakílóunum væri að fjölga og merkti það á þrengri buxnastreng og maganum mínum sem fann sér hvergi pláss í þessum þröngu flíkum. Leysti þau mál á svipstundu. Keypti mér buxur sem eru númerinu stærri og hef síðan þá ekki haft hugmynd um að ég passi ekki í fötin mín og veit að með þessari aðgerð létti ég af mér áhyggjum upp á heil 10 kíló. Líkaminn passar í fötin og ég passa í líkamann. Og sálin mín passar í hjartað mitt sem svo passar fullkomlega í líkamann. Það bara passar einhvernvegin allt í dag.

Allt eitthvað svo...mátulegt! 

Vikan framundan er troðfull af fagursköpuðum verkefnum.  Verkefnum sem voru pöntuð fyrir svo löngu síðan að það er ekki hægt að mæla þann tíma. En tíminn er samt réttur og umsnúningurinn um það bil að verða að veruleika..... eða óraunveruleika.

Fer eftir því hvernig á það er litið.

Þetta er svona sunnudagshugleiðing fyrir þá sem ekki sækja kirkju reglulega en langar að velta fyrir sér einhverju öðru en vinna sofa éta prógramminu. 

 Anda og upplifa og hætta að flýta sér svo mikið að spara tímann að hann hverfur algerlega úr lífi þeirra.

Kona Blákona rauð

Hvort viltu vera rauða konan eða bláa konan og af hverju?

 

 

 


Ömmuhugleiðingar og blómálfur í bláu.

 

Mig langaði svo að setja nýju myndirnar inn af Alice Þórhildi en tókst ekki fyrr en núna....

Hún er þarna í bláa blómakjólnum með mömmu sinni Karen Lind.

Alice stundar barnajóga hjá englakonu sem spilar fallega tóna og mömmurnar láta litlu ungana sína teygja sig í takt og fljúga um loftin. Hún borðar heimagert barnamauk sem mamman býr til úr grænmeti og ávöxtum og elskar mest af öllu að fara út að ganga og gefa fiskunum brauð. Þar sem hún á heima eru nefninlega fiskar í tjörninni sem hreinlega dýrka brauðbita og það gengur mikið á þegar þeir slást um brauðmolana.

Ég kalla til Mikael Erkiengil með sitt stóra sindrandi sverð og bið hann um að sveifla því um víða veröld og hreinsa burtu neikvætt hugarfar og létta  umburðarlundina hjá okkur öllum svo þessi heimur verði betri staður fyrir framtíðar mannfólkið okkar.
Að plánetan verði heilbrigð og fögur og gefi af sér nægtir og góða orkustrauma fyrir öll jarðarinnar börn. Ég er nefninlega sannfærð um að þau börn sem núna fæðast vita ýmislegt í sínu litla hjarta um hvernig jafnvægi verður náð og eru öllum stundum að reyna að koma þeim skilaboðum til okkar stóra fólksins.
Held að Alice og öll hin börnin hafi stundum af því áhyggjur hvað við erum lengi að læra grunnatriðin.
Alltaf þegar ég held á henni grípur hún í eyrun á mér eins og hún vilji segja um leið og hún horfir á mig með stóru bláu augunum sínum..
"Amma ertu að hlusta"?

Álfailmur og galopnir himnar

Hér sit ég rassblaut eftir að hafa tyllt mér út í garð til að vera smá stund með plöntunum mínum og tunglinu...og nokkrum regndropum. Var að koma heim frá Alice Þórhildi Ömmu stelpu. Afinn var að mála herbergið hennar og hún er mjög glöð með vinnubrögðin og hjalar og skríkir af kátínu yfir þeim hugmyndum sem við höfum fyrir hana. Hún verður bara fallegri og fallegri þessi litla steingeit og horfir rannsakandi yfir heiminn hvern dag og veltir fyrir sér hvað hún kom hingað til að gera.

20070604204652_7

Himnarnir hafa opnast, ekki bara með því að senda okkur ómælt regn heldur og líka fullt af blessunum og skemmtilegum hugmyndum og tækifærum.

Í gærmorgun kom inn um bréfalúguna yndislegur blómálfailmur..póstkort með ilmi af blómálfum frá einhverri konu sem framleiðir slíkan ilm....gott að hafa hann ilmandi í kringum sig þegar maður drekkur morgunkaffið sitt. Svo kom póstmaðurinn með pakka með gullfallegu úri handa mér. Svo þegar ég fór í bæinn sá ég að það var útsala í fallegustu búðinni og þar fann ég pils og topp sem eru svolítið sígaunaleg en samt voða elegans sem ég fékk fyrir hlægilega fá pund.

Ég var alsæl.

Sat svo fyrir utan kaffihúsið mitt og hugsaði með sjálfri mér um leið og ég horfði á gömlu steinkirkjuna sem stendur þar í bakgarðinum um hvað þetta líf væri eiginlega. Þá gekk framhjá mér ungt par. Stelpan var í hvítum bol og á honum stóð...Live to love.

Þá veit ég það.

 Elskaðu heiminn og hann elskar þig til baka.

525211694_230394ec47

Svo smá rassbleyta truflar mig ekki neitt....ekki heldur það að allt sem er að gerast lítur ekki vel út. í kjarnarnum á því myrkri býr ljós sem er komið til að lýsa leið sem færir allt í rétt horf.

Svo framarlega sem við gefumst ekki óttanum á vald sem nærir það sem við viljum ekki.

Svo skilaboðin mín til þín eru þessi...Vertu bjartsýnn og trúðu ávallt á góða útkomu.

Fjársjóðurinn þinn felst oft í myrkrinu sem við hlaupum hvað hraðast frá.  Þegar maður þorir að horfast í augu við óttann og myrkrið leysist það upp og í gegn kemur ljósgeislinn þinn.

48141130_d56b58ccc4

Spilaðu þína eigin tóna og leyfðu þeim sem vilja að hlusta.

Þú ert engum bundin nema þínu eigin hjarta. Þar er þinn raunveruleiki og þinn sannleikur.

 Dansaðu svo trylltan dans drauma þinna og vertu frjáls og glaður.

 

 

 


Þar kom skýringin

Mér er næsta lífsins ómögulegt að blogga þegar ég hef ekki allar myndirnar mínar til taks....en einhverra hluta vegna kem ég þeim ekki af myndaplássinu mínu yfir á bloggið.

Ástæðan er einföld.

Ég er búin með plássið og þarf að kaupa mér meira pláss. Ég er nefninlega mjög plássfrek kona.

Núna sit ég um miðja nótt, alein vakandi og nýt mín í botn. Allar konur verða að eiga sinn tíma þar sem þvottavélin steinþegir. allir diskar eru hreinir og heimilisfólkið sefur vært á sitt eyra. Fyrir stundu síðan kom elsta dóttirin heim frá skotlandinu góða sem er systurland íslands...úr ferð með sínum skoska maka og íslensk skosku Alice Þórhildi. Þau skildu bílinn eftir hér og komu við til að keyra svo til sinna heima.  Alice babblar á skosku og segist hafa leikið við Loch Ness skrýmslið.

 Svo núna sit ég og hlusta á tónlist og hugsa. Og er bara. Eina sem ég veit er að ég þarf að vakna frekar snemma...en hva. Það er nægur tíminn til að sofa.

Svona næturvökur geta verið einstakar svona einstaka sinnum, þá heyrir maður í sjálfum sér og man hvers vegna maður stendur í þessu streði sem lífið getur stundum verið. Ég er samt steinhætt að vera á harðahlaupum milli staða og stunda og lifi bara eins og ég anda. Þannig finnst mér ég vera í takt. Geri það sem mér finnst mikilvægt hverju sinni og sinni því sem kemur upp á leiðinni minni.

Sem er einstök.

Mín.

Ég hef margendurtekið hér að ég elska vatn..en það er orðið frekar mikið af því hér núna...allt á floti alls staðar. Jörðin að skola sig af neikvæðninni sem fylgir hugarfarinu okkar. Og dómunum.  Fékk mér stígvél og vona að það dugi.

Best að safna sér 599 krónum svo maður geti aftur farið að blogga af einhverju viti.

sköpun

Þangað til notast ég bara við mínar eigin.

Þessi er risastór.

2x2 metrar. Olía

Dagur og nótt

Hjartans ljós í myrkrinu.

 

 


Himnabullur og leirljóð

 

Móðir Jörð

Ég er með ljóðadellu þessa dagana og geri fátt annað en semja alls konar skringileg ljóð.

Hér er eitt þeirra.

 

Fagur fagur fiskur á himni

Með himnasól í maganum

og undur undir ugga.

Slær um sig með sporðinum

siglir lítil dugga

kemur hreyfingu á skýin

sem hylja hina nýju vitund

er stefnir beint í iður jarðar

 og yður.

Halo

 

 

 


Ljós og blessun til þeirra sem þorðu að standa með sínum sannleika

Í dag var sól.

Var ekki örugglega rigning hjá ykkur?

Svo ég fór á kaffihúsið mitt og sat þar fyrir utan og naut mín í sólargeislunum. Horfði á leiðið þar sem þau 3 síðustu sem brennd voru á báli hér í bænum, voru sett til hinnar hinstu hvíldar.

Ég veit ekki fulkomlega hvað þau unnu sér til saka annað en það að vera ekki þóknanleg kirkjunnar mönnum á þessum myrku tímum miðalda.

Kannski soðið seyði úr jurtum til að lina þjáningar meðbræðra sinna..hvað veit ég? Kannski afneitað þeirra tíma trú að Guð væri vondur og refsandi faðir allra sem dæmdi fólk til ævilangrar helvítisdvalar fyrir að vera mannleg og breisk.

En ég tók eftir því að það voru blómvendir á leiðum þeirra sem eru beint fyrir utan kirkjudyrnar..og ég fór að skoða hvað þar stóð.

Fór meira að segja heim að sækja myndavélina svo þið gætum séð með eigin augum að 451 ári eftir voðaverknaðinn og brennuna er enn til fólk sem lætur sig örlög þeirra varða Og hefur skoðun og hjarta fyrir því.

En myndalbúmið mitt bara virkar ekki..því miður.

Set inn myndir síðar þegar það er komið í lag.

En þetta er það sem stóð á miðanum með blómunum sem einhver setti á leiðið þeirra 451 ári síðar. Það fannst mér fallegt!!!!

19th of july 2007

In memory of those who experienced persucution at the hands of angry, vindictive EGOS.

I am so sorry and ashemed that religiory persecution caused you all such pain.

If the power of love could overcome the love of power.

Then there would be peace.

May you rest in love and peace.

Pearl

Tjáning

Þar sem ég sat á bekknum við kirkjugarðinn og horfði á leiðið og blómin flugu fram hjá mér 3 svartar krákur. Og ég samdi ljóð.

Þrjár svartar krákur

í kirkjugarði

Hin heilaga þrenning

sem sækir í allt sem glitrar í ljósinu

Hinn fagri gimsteinn sem vaknar í hjartanu

þegar hið nýja streymi

þekkir hinn falda fjársjóð

og opnar hirslu

hins himneska sem aldrei dæmir.

Verði ljós!

Friðarboðskapur

 


Dásemdarkvikmynd og draumur um mannauð

Var að horfa á kvikmyndina Fur með Nicole Kidman og æ honum þarna hinum....og hún var bara æðisleg mæli eindregið með henni. Svolítið dularfull, draumkennd og mjög fallega tekin. ENGAR hraðar klippingar og tikkar bara í flest box hjá mér. Nicole er líka bara svo góð leikkona.

Svo sat ég í garðinum í smá stund því það kom sólarglæta og krakkarnir í hverfinu voru úti að leika.

Úr næsta garði heyrðist.."I am the Greatest" og önnur barnsrödd svaraði  "Oh no you are not. Not for much longer". Under, over, pepsi cola here we go!!! Þetta er greinilega einhver svona leikur. þau syngja þetta og sveifla höndum og standa á höndum og hoppa svo eins langt og þau geta.

Mér varð hugsað til þess að akkúrat svona líður börnum þegar þau eru ung..finnst þau frábær í sjálfum sér og finnst þau geta allt. Svo fara að laumast inn efasemdaraddir í kollinn á þeim, oft koma þær frá okkur stóra fólkinu með skilaboðin "ó nei það ertu ekki, ekki mikið lengur". Og svo er bara drukkið pepsi og hoppað út í lífið með hausinn fullan af alls konar skrítnum hugmyndum um ófullkomleika og getuleysi. Sköpunargáfan kæfð og barnið  og lífsgleðin týnd. 

Soldið sorglegar hugsanir í sólinni. Mikið vildi ég að við gætum kennt börnunum að halda áfram með þessa hugsun að þau séu frábær og fullkomin í sjálfum sér og smíðað menntakerfi sem byggir á skilningi á einstaklingnum og mannauðinum sem býr í fólki og því hversu allir eru einstakir hver á sinn hátt.

Sú menntastefna gæti til dæmis heitið draumur dansandi engils.Halo

englasöngur

 


Á maður að fara að smíða örk?

Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði.

Var að horfa á veðurfréttirnar. Þar var einhver vitringur sem sagði frá því að fyrst það ringdi í dag þá þýði það að það muni rigna samfellt næstu 40 daga.

Og það er búið að rigna meira og minna hvern dag síðan í byrjun maí....!!!

Í fyrramálið þegar ég fer í skógargönguna ætla ég að kíkja í kringum mig eftir lurkum og bera þá með mér heim. Eins gott að eiga efni í eins og eina Örk ef það riginir og rignir og rignir. Gott að ég keypti mér þessi fínu skærgrænu stígvél fyrir helgina. Það eru myndir af regndropum á þeim...ætli það sé einhver fyrirboði??

Hvað hafa nú bretar gert af sér eina ferðina enn?

Hmmm...Vaknaði í morgun við rosalegar þrumur og  úrhelli en svo náði sólin að skína smá eftir hádegi og alveg fram undir kvöld og okkur tókst að grilla nokkrar kótilettur og gramsa í okkur áður en fyrstu regndroparnir byrjuðu að falla aftur.

Hvar er hann þarna bloggarinn sem er alltaf að kafa...kannski maður þurfi á námskeið hjá honum.

Nei ég smíða frekar örk. Best að gera lista yfir þau dýr sem ég ætla að taka með mér um borð. Voða sætt að hafa allavega tvo appelsínugula gullfiska í krús í brúnni..finnst ykkur ekki???

Dripp dropp..dripp dropp...

satúrnus

 


Næsta síða »

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband