Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Athugun 11

kindur

Hvað dettur þér í hug þegar þú sérð þessa mynd?

Vinsamlegast setjið svör í athugasemdir.


Vakin og sofin með spurningunum...hvað er hvað?

juggeling

Einhver sendi mér e mail um hver ég væri eiginlega???

Hvernig mér dytti allt í hug sem ég skrifa um? Hvort mér væri nokkuð alvara með þessum skrifum???

Eina sem ég get sagt með sanni er að ég er kona að halda öllum hlutum á lofti...ala upp börnin mín, finna út hvað er hvað í lífi mínu, rækta ástina og allt sem mér finnst mikilvægt og að muna eftir að hugsa í öllu þessu hafróti af skyldum sem á mér liggja til að koma mínum til manna og kvenna. Stundum grínast ég hef bara gaman....stundum liggur mér verulega mikið á hjarta. Vona auðvitað að lesendur geri greinarmun á hvað er hvað og hvenær ég er bara í gamanstuði og hvenær ekki.

Mikilvægast finnst mér þó að skilgreina sjálfa mig sem konu sem trúir á betri framtíð og betra lif fyrir okkur öll. Og að hennar hugsanir séu einhvers megnugar til að hjálpa fólki að skoða og skilgreina þessa veröld á jákvæðan hátt. Og á sömu stundu að stuðla að því að viðkomandi fái innsýn í eigin sköpunarkraft og tilfinnningu fyrir því að hann eða hún skipti öllu máli.

Jamm...bara venjuleg móðir og húsmóðir sem vill meira og betra mannlíf fyrir alla í heiminum. Er það nokkuð til of mikils mælst?sofandi hjarta

Að leggjast til svefns með hjartað í örmum sér og trúa því að þegar maður vaknar að þá sé allt gott og rétt? Að í svefninum og draumnum hafi tekist að laga það sem er ekki í jafnvægi? Já ég tek því sem hóli að vera öðruvísi...þó ég greini stundum tón um annað. og ekki alltaf velviljaðan. En maður hefur sem betur fer val um hvað maður tekur um borð og hvað ekki. Ég er ekki hrædd við skoðanir þeirra sem eru öndvert á við mínar en þykir leitt ef ég er að framkalla eitthvað sem ekki á farveg með þér. Thats life.

friðardúfan

Ég er bara einföld sál sem trúir á hið góða og sef með því og vaki.


Húsmóðir hugsar sitt...

þrif

Er ekki hægt að þrífa burtu skítinn sem situr í þessari veröld. Gera hana skinandi hreina eins og heimilið og vaskinn?

Skúra skrúbba og bóna burtu eigingjarnar hvatir valdamanna sem sjá ekki hvar meinið liggur og með gjörðum sínum auka á misréttið og rykið sem hylur augu almennings?

Nýir vendir sópa best segir einhversstaðar.....Við þurfum svo nýja vendi sem sópa glaðir burtu draslinu og vita að á bak við þetta hugtak að slá ryki í augu almennings...er eitthvað annað sem skiptir máli. Að segja okkur satt um tilgang verka þeirra og gefa okkur raunverulegt val. Hætta að éta af trénu með ávöxtunum sem var ætlað okkur öllum.

rottugleði

Húsmóðir hugsar sitt. Rottugangur er ekki góður. Það þarf að afeitra hugarfarið og hætta að trúa á að rottur vilji eitthvað annað en éta og verða feitar. Sjá að það er til afl sem við getum virkjað og stýrt í miklu mannvænlegri átt. Og hvernig?

Með því að vita hver við erum og hvers við erum megnug. Húsmóðir las fínan pistil um hvernig standi á því að vilja hins almenna manns um frið og jöfnuð er hent út í hafsauga. Við erum svo miklu fleiri sem viljum það sama...sem viljum betri heim og bjartari framtíð. Við þurfu að láta í okkur heyra og ná sambandi við hver við raunverulega erum og hundsa hið falda vald sem er að éta okkur út á gaddinn á öllum sviðum.

Vera í sambandi við innri rödd og styrk. Og muna þegar við göngum að kosningaborðinu hver verk þeirra eru sem tala sem hæst núna og sækjast stíft eftir stuðningi okkar við hugmyndir þeirra um að halda okkur í skefjum næstu 4 árin. Stöndum með okkur sjálfum og því sem við vitum að er rétt.

meditation

Svarið er ekki þarna úti....það er í þér.  Húsmóðir telur að þar liggi lausnin. Að tengja sig við almættið og hlusta vel. Og merkja svo við það sem skiptir mestu máli. Mannréttindi fyrir alla. Og að segja sig úr stríðsbandalagi sem er bara dauði og djöfullegt afl. Upp með ljósið og kjarkinn til að breyta.

Já þannig hugsar húsmóðir.


Ekki allt sem sýnist....

forboðnu eplin

Ég hafði bara ekkert að gera eftir hádegið svo ég skellti mér út að tína epli. "Epli á dag kemur heilsunni í lag" segjum við á íslandi meðan að í englandi segjum við.."An apple a day keeps the doctor away"!!! Páskasólin og vorkoman fengu mig til að fækka aðeins fötum enda verður manni bæði heitt við að klifra upp í stóru eplatrén og hrista þau duglega og syngja um leið hástöfum...Vorið er komið og grundirnar gróa..tra la la.

Nýju nágrönnum mínum líst örugglega bara vel á mig því þeir voru allir úti í glugga..samt smá feimnir ennþá því þeir földu sig bak við gardínur og ég sá bara í nefbroddinn á þeim. Gasalega lekker nýju laufin sem maður getur klætt sig í þegar maður er komin úr fötunum. Maðurinn minn kallaði mig Evu.."You Eva Me Adam "sagði hann og blikkaði mig.

Já þetta var bara alveg frábær dagur. Svo gerðist nú eitt skrítið og kom þá í ljós að spekingar hafa alveg rétt fyrir sér. The Wise Guys kalla ég þá alltaf enda er ég svo léttlynd....já sko þegar þeir segja að það sé nú ekki allt eins og það sýnist í henni veröld. Að oft sé flagð undir fögru skinni eða að maður eigi ekki að láta glepjast af umbúðunum.

Þessi sannindi eru dagsönn og viturlega mælt. Sjáiði bara með eigin augum. Rosalega var ég hissa. En nú er farið að kólna og ég ætla að fara úr laufblaðinu og skella mér í lopapeysuna mína og gammosíur. Eigið bara gott sunnudagskvöld öll sömul. Adam biður að heilsa...hann er enn með einhvern undarlegan glampa í augum þegar hann horfir á mig. Örugglega laufblaðið sem er að hafa þessi áhrif á hann..hann er forfallinn náttúrunnandi þessi elska eða að hann er svag fyrir konum á hælaskóm. Lengir lappirnar sko.

ekki alt sem sýnist


Bráðum

Bráðum

Bráðum kemur betri tíð með blóm

í haga...sæta langa sumardaga. Svona lifum við svo mörg.

Bráðum.

Þegar ég er búin að byggja..þegar ég er búin að ná þessu eða hinu..þegar ég á meiri peninga og búin að borga meira niður af skuldunum...þá ætla ég að njóta þess að eiga börn og maka, þá ætla ég að fara og ferðast og skoða þennan merkilega heim. Þegar þetta og þegar hitt er úr veginum þá ætla ég heldur betur að lifa og leika mér. Svo líða árin og jafnvel áratugirnir og allt í einu eru börnin farin að heiman og árin framundan færri og jafnvel heilsan farin að gefa sig af öllum þessum látum.  Og augnablikin sem maður ætlaði að njóta farin hjá án þess að nokkur yrði þeirra var.

Ég á fullt af ókláruðum verkefnum og skuldum og öllu þessu dægurþrasi sem getur tafið fyrir manni og ég held að ég verði að klára áður en ég get í alvöru farið að njóta lífsins í botn. En ég ætla að hætta að segja bráðum. Ég ætla bara að gera allt í dag sem mig langar og taka tíma í það sem mér finnst mikilvægt og leyfa svo bara morgundeginum að koma eins og hann kemur. Núna er t.d tilvalið að fá sér almennilegan sunnudagsmorgunverð..egg og beikon og brætt smjör á rístuðu brauði. Skríða svo öll uppí aftur því það er rok og rigning og kúra og kjafta og bara vera til.  Muna að ævintýrin gerast hér og nú.....prinsinn bjargar

Sunnudagur til sælu hér og nú og ekkert bráðum kemur betri tíð. Þá förum við í gegnum lífið eins og ansinn sem eltir gulrótina sem hangir fyrir framan nefið á honum og sér ekkert annað og heldur að lífið sé bara um þesssa einu gulrót..sem hann svo fær aldrei.

Frekar sorglegt.   Ég ætla bara að éta mína gulrót hér og nú og treysta því að það verði önnur gulrót fyrir mig Þarna úti á morgun..og hinn og hinn og hinn og borða þær jafnóðum...Jamm!!! Það er nefninlega einhvernveginn þannig að það þarf að vera pláss fyrir það góða í lífinu og þess vegna er fáránlegt að sanka að sér endalaust og troðfylla allar hirslur af drasli...þegar það eina sem maður þarf er ástvinir, samvera og svona eins og ein gulrót.

gulrót


Athugun 10

peningar útum gluggann

Hvað kemur í hugann þegar þú sérð þessa mynd og af hverju?

Vinsamlegast setjið svör, hugmyndir og athuganir í athugasemdir!!

 


Guðar á glugga forvitin og forn kona.

kona að kíkja

Þegar ég kíkti út um gluggann minn í morgun sá ég mann sem labbaði framhjá og flautaði lag. Ég velti fyrir mér hvað kætti hann svo mjög. Kannski veðurblíðan og vorkoman eða hann gæti verið ástfanginn af hláturmildri sveitastelpu sem heldur mjúklegar í hendi hans en nokkur annar.

Sá ég tvo félaga tíu ára eða svo hjóla framhjá. Annar þeirra var með kött í körfu á bogglaberanum sínum og veiðistöng bundna við hjólið. Líklega að fara upp að litlu tjörn og setjast þar á bryggjusporð og fiska. Kötturinn eflaust alltaf glaður að fá gott að borða.

Gamla konu staulast hjá í göngugrind. Ýtti henni ofurrólega áfram og tók eitt skref í einu á skjálfandi visnum fótum sínum. Henni virtirt ekkert liggja á og orðin þessum ferðahraða sínum vön. Sér eflaust meira á ferðum sínum um litla bæinn en við hin. Og hefur eflaust meiri tíma og minni löngun til að tíminn líði hraðar. Þegar maður á lítið eftir af einhverju vill maður oft fara sparlega með rest.

Nýja skiltið yfir gömlu búðinni sem kenndi krökkum að gera potterý. Núna eru selda þar gómsætar pönnukökur og vöfflur. Og Krépés. Pönnukökur fylltar með hrísgrjónum, skinku, púrrulauk og valið stendur á milli hvítlaukssósu og sinnepssósu. Ég vil bæði. Gaman að vera búin að fá pönnukökuhús i litla bæinn okkar. Höfum svoleiðis í kvöldmatinn og styðjum starfsemina hjá pönnukökufólkinu.

Þegar ég kíkti út í morgun sá ég dag sem beið mín og spurði..Og hvað ætlar frúin að gera í mér?

Og ég svaraði um leið og ég hysjaði betur upp um mig köflóttu náttbuxurnar mínar.."Ekkert fyrr en ég er búin að lesa Vikurnar sem pósturinn kom með í morgun. Fréttir og sögur frá íslandi." Og meðan ég les Vikurnar hlusta ég enn og aftur á Óskastundina á netinu sem er á rás eitt alla föstudagsmorgna. Er orðin háð þessari tónlist og held að einhversstaðar innra með mér hljóti ég að vera miklu eldri en rétt rúmlega fertug. Kannski svona 85.

Svo kannski klæði ég mig og held út í daginn...algerlega tilbúin að láta hann leiða mig á vit ævintýra og framandi slóða.  Allavega ætla ég að eiga góðan dag með mínum.  Jafnvel fara á flóamarkaðinn í Lewis þar sem úrir og grúir af gömlu og spennandi dóti og gersemum í risastóru húsi á tveimur hæðum og mörgum dularfullum herbergjum. Og lykt sem er engu lík enda tilheyrir hún fortíðinni og öðrum tíðaranda. Já ég er eitthvað forn í mér en ég trúi samt ekki á tímann sem er blekking mannsins. Maður hefur bara eins mikinn tíma og mann langar. Punktur. Góðan laugardag bloggarar.

time


Við

we

Í dag er Comic relief dagurinn hjá okkur.

Dagurinn sem heil þjóð tekur höndum saman og gefur til þeirra sem minna mega sín. Til afríkubúanna, þeirra sem eru með Aids, barna sem búa á götum úti alein og yfirgefin um allan heim, til barnahjálparstarfa hér og þar, til vatnsbúskapar og ræktunar, uppbyggingar og aðstoðar þar sem hennar er þörf. Allir sem vettlingi geta valdið gera sitt. Fyrirtæki eru með uppákomur meðal starfsfólksins, sjónvarpið með meiriháttar dagskrár sem og  útvarpsstöðvarnar, súpermarkaðir og skólar. Krakkarnir mínir fóru með rauðu trúðanefin í skólann sinn i morgun og nokkur pund í vasanum. Rauðu trúðanefin eru einkennismerki dagsins og hjálpin er veitt með gleði og húmor þó tilgangurinn og verkefnin séu dauðans alvara. Krakkarnir í skólanum eru búin að undirbúa alla vikuna skemmtilegar uppákomur til að safna peningum...þegar ég fór í bæinn í morgun var starfsfólk heildsölu úti á götu að syngja og skemmta gestum og gangandi, Blómabúðin með rósir til sölu þar sem allur ágóðinn fer beint til Comic relief. Í súpermarkaðinum er allt starfsfólkið með rauðu nefin og jafnvæl klætt í furðulega búninga...einn eldri maður sat og afgreiddi á kassa með fjólubláa glitrandi hárkollu og í pilsi. Hló og sprellaði og hvatti fólk til að gefa í söfnunarbaukana sem eru um alla búð. Hjörtun slá í takt í dag.

Svo byrjar dagskráin í sjónvarpinu klukkan átta í kvöld og stendur fram yfir miðnætti..skemmtiatriði og myndir frá hjálparstarfinu í bland. Frá öllum sem lagt hafa sitt af mörkum..og maður bæði grætur og hlær í bland. Hlær yfir öllu því skemmtilega sem fólki dettur í hug að gera til að skapa peninga sem fara svo til þeirra sem maður grætur með. Tilfinningarússibani.

Í þessu árlega átaki sem hefur nú verið á hverju ári í 21 ár safnast tugir milljóna punda. Og verkefnin sem þau fara í eru svo verðug og góð. Stundum langar mig að standa upp og fara þarna út og leggja mitt af mörkum. Halda einhverju barnanna í fanginu og hugga það. Tek svo bara mín börn í fangið og knúsa og heiti því að gera allt mitt besta fyrir þau. Sumt þarf að byrja heima og vonandi vex það svo út í heiminn. Enn kannski kemur að því að kona leggur land undir fót og fer á fjarlæga staði og sér með eigin augum og upplifir þessa veröld. Og getur lagt sitt af mörkum.

Það er á svona stundum sem maður finnur svo sterkt að þetta erum við. Ekki ég. Að það er í raun ekkert bil og engin fjarlægð á milli okkar mannfólksins nema sú sem er heimatilbúin og felur sig bak við veggi óttans.

                               we

                                 HeartVerum VIÐ í dag!Heart


Fötin skapa konuna...eða hvað?

jakkafötin

Má til með að segja ykkur þegar ég fór í skólann fannst mér ég voða kúl og vildi endilega falla svolítið inn í hópinn og upplifa að vera frjáls stúdent en ekki örþreytt húsmóðir eins og ég var búin að vera í nokkur ár. Þarna voru nemar frá yfir 40 löndum og flest allir mjög hippó og mjög mikill stíll á þeim á sinn hátt. Ég gerði alveg í því að vera hipp og kúl líka. Hætti að greiða mér og lét hárið vaxa í allar áttir, meikuppið var ósnert og mín náttúrulega fegurð fékk bara að njóta sín. Þetta var ferlega gott og þægilegt og svo fór ég að færa mig uppá skaftið og ganga í rifnum gallabuxum stórum skyrtum og gömlum gráum frakka sem var alltof stór á mig. Brúnum tramparaskóm og með klút um hálsinn. Mér fannst ég eiginlega bara frekar velhannaður og velheppnaður hippi þó ég segi sjálf frá.

hippamamma

Eitt kvöldið fórum við á Fönk tónleika í stórri hlöðu lengst úti í sveit þar sem grúví hljómsveit kom frá London til að skemmta okkur sveitalufsunum. á leiðinni heim fengu nokkrar stelpur far með okkur sem voru að vinna í eldhúsinu í skólanum. Þar vildu endilega fá að vita hvað ég gerði. Mér fannst það augljóst. Ég var kona á listabraut. Nei þær vildu fá að vita hvað ég gerði..við hvað ég hefði unnið og svona áður en ég kom. Ég vildi ekkert segja en sagði þeim að geta. Þær voru dularfullar í framan sögðu mér svo að það hefðu verið í gangi veðmál í eldhúsinu um það að ég væri rík lögfræðifrú sem greinilega væri að taka sér eitt ár í frí og upplifa eitthvað nýtt. Það væri bara svo augljóst á því hvernig ég liti út og klæddi mig og hvernig fasið á mér væri að ég væri pottþétt lögfræðingur!!!

Er nokkuð hægt að vera misheppnaðri hippi en svo að fólk heldur mann vera lögfræðing????Crying

Rosalega varð ég móðguð..ha? Og ég sem lagði mig svo mikið fram um að vera hipp og kúl. Ég hef aldrei verið góð í þessu með stílinn. Hvað ætli fólk haldi sem sér mig í dag? Kannski er ég enn að misskilja illilega hvað er hvað og geng um eins og einhver furðufígúra án þess að hafa um það græna glóru. og er svo ekkki að passa í hópinn...hehe. Gott á mig að  þykjast vera eitthvað!

hippakella


Jæja..best að virkja hugvit bloggvina sinna!!!

Kæru bloggvinir og aðrir gestir sem hér rekið inn nefið. Nú vantar konu ráð og aðstoð. Mig vantar vinnu. Vinnu sem er hægt að gera hérna handan við hafið og getur nýtt alla mína stórkostlegu hæfileika sem eru svo margir að þið mynduð ekki nenna að lesa allan listann svo langur væri hann... svo ég sleppi bara að skrifa hann svo þið verðið ekki orðin örþreytt þegar að því kemur að virkja hugvit ykkar. Hvað dettur ykkur sniðugt í hug fyrir frú að starfa við í útlöndum sem myndi hæfa henni vel?

goddesses

 Ég er búin að hugsa og hugsa..dettur helst í hug að sækja um styrki og bloggbætur en langar mun frekar að gera verðug verkefni sem eru bæði spennandi, skemmtileg, þörf og challenging! Mega líka vera hryllilega vel borguð og laun bara sett beint á reikninginn minn. Má vera svona starf sem skilur eftir svolítinn lausan tíma fyrir að mála og höggva í stein og skrifa og semja og annað smálegt sem ég dunda mér við.

Bíð spennt eftir frábærum hugmyndum og tillögum sem ég mun svo vinna vel úr í kvöld.

Með fyrirfram þakklæti og virðingu fyrir hugviti ykkar sem mér finnst stórkostlegt og get ekki beðið eftir að það verði sett í askana.félagsskapur

Sé fyrir mér bloggvini sitja í reykfylltum bakherbergjum og virkja hugvit..og hlakka til að heyra niðurstöðuna og fá yfir mig flæði af brilliant hugmyndum.

p.s það er fátt sem ég ekki kann og get.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Katrín Snæhólm Baldursdóttir
Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Maddama kerling fröken frú Katrín Snæhólm. Hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og telst þá hvoru tveggja með. Himinn og jörð.

 

kbaldursdottir@gmail.com

 

 

 

 

 

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 119
  • Frá upphafi: 311095

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 119
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...xoqlinc
  • ...x-o-
  • ...katrin_mynd
  • ...peru_3
  • ...peru_2
  • ...peru_786202
  • ...peru
  • ...usturv_llur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband